Gular plöntur í algleymi
Mekka pottaplönturæktunar er í Hveragerði. Einungis tveir framleiðendur rækta pottaplöntur allan ársins hring og eru þeir báðir starfræktir í blómabænum. Annar þeirra er Birgir Steinn Birgisson hjá garðyrkjustöðinni Ficus.
Páskarnir eru háannatími hjá Birgi, sem færir tilteknum stórverslunum 25.000 hátíðarliljur ́Tete a tete ́ til sölu og dreifingar ásamt fleiri fallegum gullituðum blómum. Birgir ræktar pottaplöntur og sumarblóm og dreifir þeim í umboðssölu í helstu stórmarkaði.
Hátíðarliljurnar ́Tete a tete ́eru þeim gæðum gæddar að eftir að þær hafa prýtt híbýli landans er hægt að planta þeim út í garð. Að tveimur árum liðnum koma þær svo upp aftur og blómstra þegar jörð þiðnar.
Birgir ræktar um 250.000 inniplöntur og 150.000 sumarblóm yfir árið. Hann hefur ekki tölu á tegundum og segir að handtökin séu þónokkur. Hann fagnar pottaplöntuáhuga landans, sem sannarlega glæðir heimilin huggulegheitum og tryggir rekstrargrundvöll framleiðenda á borð við hann.
„Á tíu ára tímabili átti fólk ekki að hafa blóm heima hjá sér. Allar auglýsingar í Bo Bedre og Hús&híbýli sýndu steríl heimili.“ Það reyndust erfið ár fyrir framleiðendur.
„Svo kemur hrunið. Þá fer fólk meira að spá í hlutina heildrænt. Ungt fólk fór að versla plöntur og gera umhverfi sitt huggulegra en líka til að auðga súrefni á heimilinu. Síðan í hruninu hefur bæði áhugi og sala á pottaplöntum vaxið.“
Birgir segir þessa tískubylgju í kjölfar hruns ekki tilviljun. „Eldri garðyrkjubændur sögðu alltaf að þegar þjóðfélagið horfist í augu við vandamál þá aukist sala á plöntum. Ég varð var við það í heimsfaraldrinum. Fyrsta mánuðinn seldi ég ofboðslega lítið því enginn fór út úr húsi. En svo jókst salan og ég hef aldrei selt jafn mikið og á því tímabili, enda vildi fólk hafa fallegt heima hjá sér því það þurfti að hanga þar svo mikið.“
Birgir á sér uppáhaldsplöntu. „Hortensía er drottning blómanna. Hún er erfið, þarf að drekka mikið og lætur ekki gleyma sér. Þú getur fengið hana aftur í blóma með því að hafa hana inni í óupphituðu gróðurhúsi yfir vetur. Hún myndar ný blóm við kulda. Með því að klippa hana svo vel niður í marsmánuði þá tekur hún við sér og blómstrar aftur í júlí eða ágúst.“