Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Stálpuð trjáplanta með vel þéttu rótarkerfi sem þolir vel flutning hefur fengið uppeldi sem getur tekið mörg ár og ótal handtök. Mynd / Björgvin Eggertsson.
Stálpuð trjáplanta með vel þéttu rótarkerfi sem þolir vel flutning hefur fengið uppeldi sem getur tekið mörg ár og ótal handtök. Mynd / Björgvin Eggertsson.
Mynd / Björgvin Eggertsson.
Á faglegum nótum 14. september 2020

Gróðursetjum tré og runna á haustin

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Garðeigendur hafa verið duglegir að gróðursetja tré, runna og blóm í garða sína í vor og sumar. Þeir eiga því láni að fagna að hér eru starfandi garðplöntustöðvar sem stýrt er af vel menntuðum sérfræðingum í plöntuuppeldi og þangað má sækja bæði fræðslu, upplifun og úrval tegunda sem henta íslenskum aðstæðum.

Það er vandaverk að framleiða til sölu runna og tré sem taka vel við sér að gróðursetningu lokinni. Stálpuð trjáplanta með vel þéttu rótarkerfi sem þolir vel flutning hefur fengið uppeldi sem getur tekið mörg ár og ótal handtök í gróðrarstöðinni. Sáning trjáfræs krefst bæði séraðstöðu og þekkingar og ungplönturnar eru viðkvæmar. Tegundir og yrki þeirra hafa farið í gegnum strangt úrval áður en þær eru settar á markað og ekki hætta á að neytandinn kaupi köttinn í sekknum.

Ekki er ástæða til að gróðursetja mjög hávaxin tré í heimilisgarða. Oft eru notaðar trjáplöntur sem eru hálfur til einn metri á hæð og þá er ekki nauðsynlegt að binda þær sérstaklega upp. Hærri plöntur gætu þurft stuðning í eitt til tvö ár til að rótarkerfið haggist ekki eftir gróðursetningu. Garðeigandinn þarf að velja plöntunni stað eftir þörfum hverrar tegundar og hafa í huga að trén geta á fáum árum orðið stór og krónumikil. Því er mikilvægt að þau séu ekki gróðursett of nærri húsum eða lóðamörkum. Vetrarskýling getur verið nauðsynleg sumum tegundum en þar hefur gróðursetningartíminn ekki úrslitaáhrif.

Haustið er ákjósanlegur gróðursetningartími

Reynslan hefur kennt okkur að haustið hentar vel til að gróðursetja tré og runna. Plöntur sem fást í gróðrarstöðvum á þeim tíma hafa að jafnaði lokið hæðarvexti og lauftré eru tekin að sölna lítið eitt.

Rótarvöxturinn er samt í fullum gangi fram eftir hausti, þótt lítið beri á. Næring úr laufi dregst niður um stofninn og veitir rótarkerfinu orku til að starfa áfram. Í raun er hægt að gróðursetja trjáplöntur svo langt fram eftir hausti sem hægt er að grafa holu í jörðina með góðu móti, en hentugra er ef rótarkerfið fær að vaxa í fáeinar vikur eftir gróðursetningu. Þá er plantan tilbúin til vaxtar um leið og vorar á ný. Septembermánuður er því sérlega hentugur tími til gróðursetningar og þá er enn úrval trjáa og runna til sölu í garðplöntustöðvunum.

Oft er það svo að tré og runnar sem gróðursett eru að vori þarf að vökva vel allt sumarið þegar þurrkar ganga. Á haustin losnar ræktandinn við þær áhyggjur. Jarðraki er nægur og því ekki ástæða til sífelldrar vökvunar, nóg er að vökva vel eftir gróðursetningu og spara ekki safnhaugamoldina. Tré eru gróðursett á þann hátt að plöntuhnausinn allur er settur á kaf en þess gætt að stofninn fari ekki neðar en hann stóð í uppeldinu. Runnagróður er hægt að gróðursetja heldur dýpra.

Gróðursett í sumarhúsalóðina

Öll sömu lögmál gilda um gróðursetningu smáplantna í stærra land, til dæmis í sumarhúsalóðina. Þar er bæði hægt að nota stálpaðar hnaus- eða pottaplöntur og skógarplöntur sem seldar eru í bökkum. Í óræktuðu, rýru landi gæti þurft að taka tillit til hugsanlegrar holklakamyndunar við val á staðsetningu en að öllu jöfnu hentar vel að gróðursetja þær á haustin. Plönturnar eru komnar í vetarhvíld og ekki er hætt við ofþornun, sem verður margri smáplöntunni að aldurtila þegar gróðursett er á vorin og sumrin.

Allar tegundir njóta góðs af haustgróðursetningu

Gott er að nota haustið við gróðursetningu þeirra trjá- og runnategunda sem framleiddar eru í íslenskum gróðrarstöðvum. Barrtré, lauftré, skrautrunnar og limgerðisplöntur fagna því að losna úr þrengslum pottsins eða rótarhnaussins, nota haustið til rótarvaxtar og launa ræktandanum með kröftugum vexti næsta vor.

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...

Lyfta heildinni með samstarfi
Fréttir 12. mars 2025

Lyfta heildinni með samstarfi

Eitt af helstu málunum sem voru rædd á fundi loðdýrabænda var áætlun um dýraskip...

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum
Fréttir 12. mars 2025

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum

Nokkuð fámennt var á fundi hrossabænda á deildarfundi búgreina en þar var rætt u...

Búvélasali nýr formaður FA
Fréttir 12. mars 2025

Búvélasali nýr formaður FA

Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri og eigandi Aflvéla og Burstagerðarinnar, var...