Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Göngur og réttir með öðrum brag
Mynd / LS
Skoðun 20. ágúst 2020

Göngur og réttir með öðrum brag

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Nú líður að því að bændur fari til fjalla og smali saman búfénaði sem gengið hefur á fjall í sumar. Haustið er annatími til sveita og hefur dregið að brottflutta og aðra áhugasama um réttir, hvort sem er fjárréttir eða stóðréttir. En allt er í heiminum hverfult og nú á tímum kórónuveirunnar þarf að setja fjöldatakmarkanir og gera fleiri viðeigandi ráðstafanir. 

Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtökin hafa í samstarfi við landlæknisembættið, Almannavarnir og Samband íslenskra sveitarfélaga unnið að leiðbeiningum hvernig við högum þessari vinnu svo alls öryggis sé gætt. Í blaðinu má finna leiðbeiningar um hvernig best er að framfylgja reglunum. Eins eru upplýsingarnar birtar á bondi.is og saudfe.is. Ein af þessum reglum er að ekki skulu aðrir koma til rétta en þeir sem þurfa að vera þar við vinnu. Þetta þýðir því miður að gestir þurfa að sitja heima í ár og er sannarlega breyting frá því sem við erum vön í gegnum aldirnar. En í þessu eins og öðru virðum við settar reglur og vöndum okkur til að gæta að heilsu manna.

Matvælasjóður í startholunum

Stjórn Matvælasjóðs hefur unnið að úthlutunarreglum á síðastliðnum vikum. Þær verða birtar á vef sjóðsins þegar auglýst verður eftir umsóknum á næstu dögum. Ég vil hvetja alla sem hafa eitthvað sem þeir vilja þróa eða vinna áfram með í tengslum við matvæli eða aðrar afurðir að sækja um. Það eru mörg tækifæri í íslenskum landbúnaði sem við verðum að nýta okkur. Tæknin er á fleygiferð og fjórða iðnbyltingin handan við hornið sem veitir landbúnaðinum mörg tækifæri til framþróunar. Þar liggja í mínum huga ótrúleg sóknarfæri sem vert er að nýta til hagræðingar í greininni, hvort sem er í frumframleiðslu eða í afurðastöðvum.

Félagskerfi bænda

Endurskipulagning félagskerfis bænda hefur verið á borði stjórnar BÍ nú á sumarmánuðum. Unnið hefur verið úr þeim hugmyndum og tillögum sem komið hafa frá búgreinafélögum, búnaðarsamböndum og framkvæmdastjórum búgreinafélaganna. Stjórn var sammála um það að til að vinna málið áfram yrði samið við KPMG um ráðgjöf. Sú vinna er komin vel á veg og er stefnt á að í lok mánaðarins verði kominn rammi utan um verkefnið. Ég sagði í leiðara fyrr á þessu ári að í framhaldi af þessari vinnu yrði boðað til funda með bændum víðs vegar um landið. Það er enn stefnt á það en í ljósi þess að vinnan hefur heldur dregist þá stefnum við á að hefja fundina upp úr mánaðamótum september/október. 

Tekjufall í ferðaþjónustunni

Það er viðbúið að næsti vetur verði mörgum erfiður, þar horfum við til vanda ferðaþjónustubænda sem sjá nú fram á enn minni tekjur af ferðamönnum en vonir stóðu til í upphafi vors. Við höfum rætt við félagsmálaráðuneytið hvernig við nálgumst einyrkja í stöðunni og er mér sagt að verið sé að vinna að tillögum í þeim efnum. Ég vona svo sannarlega að við fáum einhver viðbrögð fyrr en síðar. Það er mikið áhyggjuefni að landinu hafi nánast verið lokað með síðustu aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ekki ætla ég að setjast í dómarasæti í því máli en það eru mjög margir sem hafa treyst á tekjur af ferðamönnum sem sitja nú eftir með sárt ennið.

Atvinnustefna fyrir landið allt

Bændur hafa kallað eftir landbúnaðarstefnu sem vonandi verður farið að vinna að í bráð. En er ekki nauðsynlegt fyrir íslenska þjóð að móta atvinnustefnu í heild sinni svo við horfum til meiri framleiðni í hagkerfinu? Ekki er síður vandi í öðrum greinum, eins og loðdýrarækt, þar sem bændur hafa ekki getað selt afurðir á þessu ári. Ríkisstjórnin samþykkti á vordögum 80 milljóna stuðning inn í greinina. Það var fagnaðarefni en enn bólar ekkert á hvernig þetta verður útfært. Eftir sitja framleiðendur með dýr á fóðrum og takmarkað fjármagn til fóðurkaupa. Þessu verður að kippa í liðinn, helst í gær. 

Ég vona að bændur og búalið eigi ánægjulegt haust og væna dilka af fjalli. Munum bara að „hlýða Víði“ sem fyrr og að við erum öll almannavarnir.

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.