Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þorskur í neti. Þorskgöngur frá Grænlandi skiluðu gríðarlegum viðbótarafla við Ísland þegar best lét.
Þorskur í neti. Þorskgöngur frá Grænlandi skiluðu gríðarlegum viðbótarafla við Ísland þegar best lét.
Fréttaskýring 1. mars 2022

Glaðningurinn frá Grænlandi

Höfundur: Guðjón Einarsson

Á hlýindaskeiði á fyrri hluta 20. aldar rak mikið af þorsk­seiðum með hafstraumum frá hrygningar­svæðum við Ísland yfir á uppeldissvæði við Grænland. Í fyllingu tímans sneri þessi fiskur svo til baka til Íslands til hrygningar og stuðlaði að verulegri aflaaukningu hér við land. Nú eru aftur hagstæðar umhverfis­aðstæður til sjávarins og skilyrði fyrir því að sagan geti endurtekið sig en ekkert bólar á því ennþá.

Grænlandsgöngurnar sem svo hafa verið kallaðar voru ítrekað mikil innspýting inn í fiskafla Íslendinga fyrr á árum. Það sem hér fer á eftir um þetta efni er aðallega byggt á upplýsingum úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar “Staða vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratuga”, sem kom út á síðasta ári.

Göngur þorsks frá Grænlandi til Íslands samkvæmt merkingum áranna 1924-1939. (Úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar 2021: Staða umhverfis og vistkerfa í hafinu við Ísland og horfur næstu áratuga).

Gríðarlega stórir árgangar

Kuldaskeið ríkti á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldarinnar og náði hámarki frostaveturinn mikla 1918 en fljótlega þar á eftir fór að hlýna svo um munaði og hafði það góð áhrif á fiskistofna. Seiðarek til Grænlandsmiða frá Íslandi virðist hafa verið nokkuð tíður viðburður á hlýju árunum eftir 1920 en þó vógu þyngst gríðarlega stórir árgangar frá 1922, 1924 og 1945.

Milljón tonn af íslenskum þorski við Grænland

Áhrif slíkra risaárganga á fiskgengd við Ísland voru mikil. Þannig hefur verið metið að ef enginn fiskur af árgangi 1945 hefði komið frá Grænlandi árið 1953 hefði metinn lífmassi 8 ára þorsks við Ísland verið um 200 þúsund tonn en Grænlandsgöngur breyttu því mati í yfir 900 þúsund tonn. Á Íslandsmiðum var fjöldi veiddra fiska úr árgangi 1945 við 7 ára aldur um 15 milljónir en yfir 40 milljónir veiddust 8 ára og álíka mikið 9 ára.

Erfðarannsóknir benda til að árin 1950-1965 hafi þriðjungur til helmingur þorsks við Vestur-Grænland verið af íslenskum uppruna sem samsvarar því að um milljón tonn af íslenskum þorski hafi verið við Grænland allt þetta tímabil.

Alþjóðlegur veiðifloti við Grænland

Þótt mikið af íslenska þorskinum sem rak sem seiði frá Íslandi til Grænlands hafi skilað sér aftur hingað til lands sem fullvaxta fiskur og haldið sig við Ísland eftir það myndaðist á þessum árum stór grænlenskur sjálfbær þorskstofn sem hrygndi við Vestur-Grænland. Fljótlega eftir seinni heimstyrjöldina hófust alþjóðlegar þorskveiðar við Vestur-Grænland sem urðu æði stórtækar áður en yfir lauk og tóku íslensk skip þátt í þeim.

Ris og hrun þorskstofnsins við Grænland

Þorskaflinn við Vestur-Grænland jókst úr 70 þúsund tonnum árið 1946 í rúm 330 þúsund tonn árið 1952. Næstu átta árin var aflinn um 300 þúsund tonn að meðaltali og um 400 þúsund tonn til jafnaðar á árabilinu 1961-1968. Eftir það fór Grænlandsþorskinum ört hnignandi. Árið 1970 var aflinn kominn niður í 150 þúsund tonn og 50 þúsund tonn árið 1975. Aðalástæðan fyrir algjöru hruni þorskstofnsins við Grænland er talin vera skyndileg kólnun sjávar á hafísárunum 1965-1971, en að gríðarlegt veiðiálag hafi flýtt fyrir þessari þróun.

Hvers er að vænta?

Sú spurning vaknar hvort búast megi við því að hlýindaskeiðið sem nú ríkir í sjónum á þessu hafsvæði færi okkur alvöru Grænlandsgöngur á ný. Um þetta segir í nefndri skýrslu Haf­rannsóknastofnunar: „Þrátt fyrir hagstæðar um­hverfis­­aðstæður hafa enn ekki komið fram vísbendingar um vaxandi þorskgengd við Vestur-Græn­land eða umtalsverðar göngur þaðan til Íslands og alls ekki í líkingu við það sem var á hlýju árunum um miðbik síðustu aldar.

Sá mikli þorskafli, sem fékkst hér við land á árunum fyrir og eftir seinni heimstyrjöldina, tengdist nokkrum stórum og jafnvel gríðarlega stórum árgöngum sem að hluta til ólust upp við Grænland og héldu hver um sig uppi góðri veiði við Grænland og Íslandum árabil.

Skilyrði fyrir slíkum atburðum virðast nú hafa verið fyrir hendi í rúman áratug, að minnsta kosti hvað varðar hitastig sjávar við Grænland og stærð og aldurs­samsetningu hrygn­ingar­stofnsins við Ísl­and. Lítið er þó vitað um rek þorsk­lirfa frá íslenskum hrygn­ingar­svæðum eða afkomu þeirra og engar vísbendingar eru enn um sterka nýliðun þorsks við Vestur-Grænland.”

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...