Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skógarþrestir eru meðal þeirra fuglategunda sem sólgnir eru í ávexti.
Skógarþrestir eru meðal þeirra fuglategunda sem sólgnir eru í ávexti.
Mynd / Örn Óskarsson
Á faglegum nótum 1. desember 2021

Garðfuglar gleðja

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Lengi hefur sú hefð verið við lýði hjá garðeigendum að laða fugla að heimilisgarðinum á veturna þegar sem minnst er af aðgengilegri fæðu í náttúrunni.

Sumar fuglategundir komast ágætlega af án þess háttar inngripa en aðrar komast upp á lag með að nýta þessa gjafmildi garðeigenda. Fuglarnir njóta matargjafanna og mannfólkið fær ómælda ánægju af heimsóknum þeirra. Fjölbreyttur garðagróður getur á sama hátt laðað fugla að garðinum, bæði til skjóls og sem fæðugjafi. Í greni lifir nokkuð af skordýrum allan veturinn og er kærkomin fæða handa hinum smáa en knáa glókolli og krossnefurinn sækir í fræ sem hann nær úr könglum barrtrjáa. Berjarunnar koma mörgum fuglategundum að gagni og fjölærar plöntur gefa margar hverjar fræ sem fuglar geta nýtt sér. Á nokkrum rósategundum vaxa síðla sumars myndarleg orkurík aldin sem geta staðið langt fram eftir hausti og fuglar sækja í. Af öðrum berjarunnum má nefna skriðmispil, úlfareyni og ylli. Haustlauf sem liggur á flötinni og beðunum fram eftir hausti er skjól fyrir ýmis smádýr sem fuglarnir sækja í, sérstaklega skógarþrestir. Almenna reglan er að garðar með fjölbreyttum gróðri eru eftirsóttastir af fuglum, bæði sumar og vetur.

Starar eru staðfuglar sem má finna víða.

Haldið áfram fóðrun allan veturinn

Garðfuglarnir muna vel eftir þeim stöðum sem gefa örugga fæðu og reiða sig á fóðurgjafir þar sem þær eru stundaðar. Það getur verið afdrifaríkt fyrir fuglana ef fóðrun þeirra er hætt skyndilega um miðjan vetur. Gerum því ráð fyrir að hefja fuglafóðrun snemma hausts og halda henni áfram sleitulaust þar til vorar á ný. Vatn er fuglum nauðsynlegt og þarf að huga að því. Þá þarf að útbúa grunna skál með volgu vatni sem reglulega er fylgst með, sérstaklega í frostum. Svo er rétt að þrífa fóðurbretti, fóðrara og vatnsskálar öðru hvoru svo ekki sé hætt við að fuglarnir smitist af sjúkdómum.

Alls konar útbúnaður er til þegar kemur að fóðurbrettum eða annars konar útbúnaði sem hentar fuglunum. Sumar tegundir, til dæmis snjótittlingar, kjósa að tína fæðu af jörðinni og vilja gjarnan hafa gott útsýni því þeir huga vel að öryggi sínu. Starar, skógarþrestir og svartþrestir geta líka tínt fæðu af jörðinni en þeir sækja líka í fóðurbretti af ýmsu tagi. Gráþrestir og svartþrestir geta verið styggir og felugjarnir. Þeim ætti að gefa fóður á afviknari stöðum eins og undir rifsberjarunnum o.þ.h. Auðnutittlingar tína fræ af birkitrjám meðan þau er að finna en sækja mikið í fóðrara sem komið er fyrir í trjám. Músarrindlar geta litið í heimsókn en þeir sækja lítið í fóðurgjafa. Hrafnar gera sig að jafnaði ekki heimakomna í görðum en geta átt það til og taka þá vel til matar síns.

Og hvað er svo í matinn?

Fuglarnir sem sækja garðinn heim hafa þörf fyrir ólíka fæðu. Sumar tegundir sem geta birst í garðinum eru aðallega sólgnar í ávexti og ber, til dæmis hin litfagra silkitoppa, sem stundum má sjá bregða fyrir á veturna. Þrestir sækja líka í slíka fæðu. Epli eru sérlega vinsæl meðal þrasta. Það er gott að skera þau í tvennt og koma þeim fyrir í krónum trjánna eða á fóðurbretti.

uðnutittlingar og margar aðrar fuglategundir sækja í sólblómafræ, með eða án skurnsins. Auðnutittlingum þykir líka gott að hafa aðgang að smáu fræi sem er ætlað búrfuglum eins og gárum. Af og til birtast sjaldgæfari fuglar eins og hettusöngvarar í garðinum. Þeir eru harðir af sér en sækja talsvert í fuglafóður.

Orkuríkt fóður eins og rúsínur og kjötsag er fyrirtaks fuglafæða. Kurlaður maís er ofarlega á vinsældalistanum og fita kemur að góðu gagni í kuldatíð. Varast ætti að bera út æti sem er bleytt í fitu því hún getur valdið fuglum erfiðleikum við að þrífa fiðrið. Það er þó í lagi að bleyta brauðmola í jurtaolíu þegar kalt er í veðri.

Ágætt er að halda fuglafóðrun áfram þangað til fer að líða að varptíma fuglanna.

Ingólfur Guðnason

Skylt efni: garðfuglar

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...

Lyfta heildinni með samstarfi
Fréttir 12. mars 2025

Lyfta heildinni með samstarfi

Eitt af helstu málunum sem voru rædd á fundi loðdýrabænda var áætlun um dýraskip...

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum
Fréttir 12. mars 2025

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum

Nokkuð fámennt var á fundi hrossabænda á deildarfundi búgreina en þar var rætt u...

Búvélasali nýr formaður FA
Fréttir 12. mars 2025

Búvélasali nýr formaður FA

Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri og eigandi Aflvéla og Burstagerðarinnar, var...

Vill sjá fæðuöryggi rætt á matvælaþingi
Fréttir 11. mars 2025

Vill sjá fæðuöryggi rætt á matvælaþingi

Í hugtakinu fæðuöryggi felast mörg og ólík viðfangsefni. Þau voru rædd á málþing...