Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Frumutalan bendir til afurðataps
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 13. mars 2018

Frumutalan bendir til afurðataps

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Vandamál tengd júgurheilbrigði kúa eru margvísleg og er júgurbólga hjá kúm sá sjúkdómur sem veldur kúabændum um allan heim mestu fjárhagslegu tjóni og árlega eru framkvæmdar ótal rannsóknir víða um heim á júgurheilbrigði mjólkurkúa. 
 
Á liðnum tveimur áratugum hafa verið gerðar allmargar áhugaverðar rannsóknir á samspili hækkunar frumutölu á afurðasemi kúa, en oftast hafa rannsóknirnar fyrst og fremst tekið til þessa samspils þegar frumutalan er hærri en 200 þúsund/ml. Skýringin á því að þessi tala er notuð er vegna þess að hér áður fyrr vantaði formlega skilgreiningu á því hvenær kerfislega ætti að líta svo á að kýr væru með júgurbólgu.Þar sem frumutala er einungis óbein mæling á júgurbólgu en ekki bein mæling á henni var skilgreiningin ákveðin af fagfólki á sameiginlegum vettvangi IDF, sem eru alþjóðleg samtök mjólkuriðnaðarins, að miða við fyrrnefnt viðmið.
 
 
Hvert sýnilegt júgurbólgutilfelli er dýrt
 
Vart þarf að ræða hvað hvert sýnilegt júgurbólgutilfelli kostar í tapaðri innlagðri mjólk, aukinni vinnu, útlögðum lyfjakostnaði, minni afurðasemi eftir sýkinguna og auðvitað gerist það einnig að bændur hafa neyðst til að stytta mjaltaskeiðið eða farga grip sem er auðvitað stærsta tapið. 
 
Þegar kýrin er með dulda júgurbólgu er oft lítið til ráða þegar mjaltaskeiðið stendur yfir og er yfirleitt ekki mælt með því að meðhöndla kýr með dulda júgurbólgu fyrr en á geldstöðunni, séu ekki önnur vandamál fylgjandi hinni duldu júgurbólgu en hækkun á frumutölu mjólkurinnar. Margar erlendar rannsóknir sýna að þær kýr sem fá hækkaða frumutölu lenda þó í afurðatapi og ekki þarf að koma á óvart að kýr með hærri frumutölu en 200 þúsund/ml tapa nyt umfram þær sem eru frumulægri, enda kostar það kýrnar bæði orku að takast á við sýkingar auk þess sem hið sýkta svæði júgurvefsins getur ekki framleitt eins mikið af mjólk og ósýkt svæði.
 
Víða um heim líta kúabændur á frumutölu kúa sem er á bilinu 100 til 200 þúsund/ml ekki sem stórkostlegt vandamál, þ.e. sé kýrin ekki sýnilega veik, en á það hefur þó verið bent að jafnvel þó svo að um minniháttar sýkingar í júgurvef sé að ræða þá hefur það strax örlítil áhrif til lækkunar á nyt kúa. Þannig hafa verið gerðar rannsóknir sem ná til neikvæðs samspils lægri frumutölu en 200 þúsund/ml og afurðasemi kúa, en oftar en ekki hafa þessar rannsóknir verið gerðar á sérstökum tilraunabúum og hefur ekki alltaf verið auðvelt að reikna út áhrif þess hvernig hækkun frumutölu sem er lægri en 200 þúsund/ml tengist afurðasemi kúa almennt.
 
Þrátt fyrir að framangreind rannsókn byggi á gögnum um Holstein-kýr í Brasilíu er afar líklegt að áþekkt samhengi frumutölu og afurðasemi gildi einnig um íslenska kúakynið.
 
Samhengi frumutölu og afurðasemi
 
Nýlegri rannsókn, sem framkvæmd var í Brasilíu, var sérstaklega beint að þessu samhengi frumutölu og afurðasemi en það sem er etv. nokkuð óvenjulegt við þessa rannsókn er að hún byggir á afar umfangsmiklu gagnasafni. Notaðar voru niðurstöður frumutölumælinga sem náðu til 31.692 Holstein kúa frá 243 kúabúum og náðu skýrsluhaldsgögnin fyrir þessar kýr til tímabilsins janúar 2010 til desembers 2015. 
 
Þetta langa tímabil skilaði alls 232.937 mælidögum fyrir nyt og frumutölu framangreindra kúa og vegna þess að gögnin náðu til margra ára var hægt að meta samspilsáhrif frumutölunnar, aldurs kúa og stöðu á mjaltaskeiði á afurðasemina.
 
Mjólkursýnum kúnna var skipt upp eftir og innan mjaltaskeiðanna og voru fyrstakálfs kýrnar með meðalfrumutölu upp á 97 þúsund frumur/ml, kýr á öðru mjaltaskeiði með 122 þúsund frumur/ml, kýr á þriðja mjaltaskeiði með 157 þúsund frumur/ml, kýr á fjórða mjaltaskeiði með 173 þúsund frumur/ml og þá voru í gagnasafninu bæði kýr á fimmta og sjötta mjaltaskeiði og var frumutala þeirra 171 þúsund frumur/ml og 181 þúsund frumur/ml. Að meðaltali var 16% sýnanna með hærri frumutölu en 200.000/ml.
 
Ekki kemur á óvart að niðurstöðurnar leiddu í ljós að eftir því sem frumutalan hækkaði að meðaltali þá jukust neikvæð áhrif á afurðasemi kúnna, en það kom einnig í ljós að nytminnkunin er bæði misjöfn á milli mjaltaskeiða og einnig innan mjaltaskeiðs. Þannig minnkar framleiðslan meira í upphafi mjaltaskeið og í lok þess en um miðbik þess, þó svo að hækkun frumutölunnar sé eins á þessum tímapunktum. Þá er afurðatapið, þegar frumutalan hækkar, minnst hjá yngstu kúnum en eykst töluvert eftir því sem kýrnar eldast.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar um samspil hækkunar á frumutölu og afurðataps hjá kúm á fyrsta mjaltaskeiði fyrstu tvær vikur mjaltaskeiðsins má sjá töflu 1 og sést hér vel hve sterkt samhengið er. Rétt er að taka fram að þessar framleiðslutölur eiga við afurðir Holstein kúakynsins í Brasilíu, sem ætla má að sé með 25–30% meiri afurðir en íslenska kúakynið.
 
Afar athyglisvert er einnig að sjá að niðurstöðurnar sýna að þetta samspil hækkunar á frumutölu og minni daglegrar mjólkurframleiðslu kemur fram langt undir 200 þúsund frumur/ml. Fyrstu merki um áhrif til nytlækkunar fundust strax þegar frumutalan var ekki nema rétt í kringum 12.400 frumur/ml. Með öðrum orðum þá fer afurðasemin að dragast  örlítið saman nánast um leið og mæla má hækkun frumutölu. 
 
Eins og áður segir benda niðurstöðurnar til þess að þetta samspil á milli hækkunar á frumutölu og samdráttar í afurðasemi sé mismunandi innan og milli hvers mjaltaskeiðs og því er erfitt að koma með eina gullna tölu um það afurðatap sem verður þegar frumutala hækkar t.d. úr 100.000/ml í 200.000/ml, en þó má notast við eftirfarandi viðmið niðurstaðna rannsóknarinnar að þegar frumutala kúa á fyrsta mjaltaskeiði er komin í 200 þúsund/ml er meðal afurðatap þeirra 6,5%, 8,5% hjá kúm á öðru mjaltaskeiði og 9,0% hjá kúm á þriðja mjaltaskeiði.
 
Gildir einnig um íslenska kúakynið
 
Þrátt fyrir að framangreind rannsókn byggi á gögnum um Holstein-kýr í Brasilíu er afar líklegt að áþekkt samhengi frumutölu og afurðasemi gildi einnig um íslenska kúakynið enda hafa ótal aðrar rannsóknir á öðrum kúakynjum í öðrum löndum bent í sömu átt. Það eru því miklar líkur á því að eftir því sem frumutala kýrsýna er hærri því hærri er væntanlegur tekjumissir vegna samdráttar í daglegri mjólkurframleiðslu. Það er því eftir miklu að slæðast og má í raun miklu til kosta til þess að ná og viðhalda góðu júgurheilbrigði. 
 
Jákvæð áhrif þess að ná stjórn á júgurheilbrigði kúabús felast auk þess ekki einungis í betri afkomu viðkomandi bús, heldur einnig mun skemmtilegra vinnuumhverfi með heilbrigðari gripum þar sem allt smitálag snarminnkar og nýgengi júgurbólgu fellur verulega. Þá tala þeir bændur um það sem náð hafa næsta fullkomnum tökum á frumutölunni að öll vinna á búinu verði miklu léttari og skemmtilegri, enda tekur tíma að sinna veikum kúm og er oft miðað við að ein veik kýr taki til sín áþekkan vinnutíma á búi og 30–40 heilbrigðar kýr.
 
Heimild: 
Goncalves ofl., 2018. Milk losses associated with somatic cell counts by parity and stage of lactation. Journal of Dairy Science Vol 101 no. 5 (í prentun).

Skylt efni: frumutala | júgurbólga

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...