Mynd/smh Eygló Björk Ólafsdóttir og Karvel L. Karvelsson við undirritun samn­ingsins.
Fréttir 10. október 2019

VOR og RML í samstarf um ráðgjöf til nýliða í lífrænni ræktun

smh

Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður VOR (félags framleiðenda í líf­rænni landbúnaðarframleiðslu) og Karvel L. Karvelsson, framkvæmda­stjóri Ráðgjafar­miðstöðvar landbúnaðarins (RML), undirrituðu á mánudaginn samn­ing um ráðgjöf til nýliða í lífrænni ræktun.

Gert er ráð fyrir að ráðgjöfin verði að mestu leyti fjármögnuð með þeim fjármunum sem urðu afgangs af því fjármagni sem hafði verið veitt til aðlögunarstuðnings árið 2017 í verkefni til eflingar lífrænnar framleiðslu hér á landi.

Eftirspurn eftir ráðgjöf

Að sögn Eyglóar hefur verið talsverð eftirspurn frá nýliðum í lífrænni ræktun um ráðgjöf og er þessi samningur viðbragð við því. Hún segir að ráðgjöfin sé hugsuð þannig að einn starfandi bóndi í lífrænum búskap, sem VOR viðurkennir, sinni henni ásamt einum ráðgjafa frá RML.

Hugmyndin byggi á þeim markmiðum VOR að deila þekkingu og reynslu þeirra bænda sem starfa í lífrænni ræktun til þeirra sem eru að byrja – og efla þekkingar­samfélagið í lífrænum landbúnaði hér á landi. Með aðkomu RML mun þekkingargrunnurinn vaxa og samstarfs­möguleikar aukast.

Með stuttri heimsókn séu nýliðarnir aðstoðaðir við að sjá út tækifæri og huga að framleiðsluaðferðum, ná upp skilvirkni og nýta sem best þá kosti sem framleiðslustaðurinn býður upp á. 

Hverjir teljast nýliðar?

Í samningnum er gert ráð fyrir að þeir teljist nýliðar sem séu í frumframleiðslu í landbúnaði, séu í aðlögunarferli að lífrænni ræktun samkvæmt samningi við vottunarstofu eða á fyrstu þremur árum vottaðrar framleiðslu.

Verkefnið er tilraunaverkefni til eins árs; frá 1. október 2019 til 1. október 2020, og geta nýliðar sótt um ráðgjöf með erindi til VOR, með lýsingu á verkefninu og megin viðfangsefni í væntanlegri heimsókn ráðgjafa.