Frá undirritun viljayfirlýsingar um uppbyggingu koltrefjaverksmiðju í Skagafirði. F.v: Gísli Sigurðsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Sigfús Ingi Sigfússon.
Fréttir 08. júní 2020

Viljayfirlýsing um uppbyggingu koltrefjaverksmiðju

Margrét Þóra Þórsdóttir
Skrifað hefur verið undir vilja­yfir­lýsingu um uppbyggingu koltrefjaverksmiðju í Skagafirði. Samræmist viljayfirlýsingin stefnu stjórnvalda um eflingu nýfjár­festingar í íslensku atvinnu­lífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestingar, sérstaklega á dreif­býlum svæðum líkt og á Norðurlandi vestra.
 
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköp­unar­ráðherra og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitar­félagsins Skagafjarðar, skrifuðu undir yfirlýsinguna.
 
Tryggja þarf raforkuöryggi
 
Í henni kemur fram að stjórnvöld munu vinna með Sveitarfélaginu Skagafirði að innviðauppbyggingu á svæðinu með það að markmiði að fá mannaflsfreka og umhverfis­væna fjárfestingu inn á svæðið. Liður í þeirri uppbyggingu er m.a. að tryggja raforkuöryggi á svæðinu með Sauðárkrókslínu 2 en framkvæmdir við lagningu hennar hófust í vor.
 
Sveitarfélagið Skagafjörður í samvinnu við menntastofnanir og hagsmunaaðila á svæðinu hafa verið leiðandi á Íslandi í rannsóknum og undirbúningi að uppbyggingu koltrefjaframleiðslu á Íslandi. Er það stefna Sveitarfélagsins Skagafjaðar að vera í fararbroddi á Íslandi á sviði trefjaframleiðslu og tengdrar starfsemi, segir í frétt á vef sveitarfélagsins.