Mynd/Slow Food Europe Krafist breytinga á áherslum hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.
Fréttir 30. október 2019

Vilja stuðning við smáframleiðslu og verndun vistkerfa

smh
Good food Good farming (Góður matur, góður landbúnaður) er grasrótarhreyfing sem starfar í Evrópu og stendur fyrir árvekni­dögum í október í kjölfar kosninga til Evrópuþings í vor. 
 
Nýs þings bíður endurskoðun sameiginlegrar landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (CAP) og vill hreyfingin með aðgerðum sínum á árveknidögunum hafa áhrif til betri vegar fyrir landbúnað og matvælaframleiðslu í Evrópu.  
 
Smáframleiðsla og dreifbýlisuppbygging
 
Þetta er annað árið í röð sem þessi Evrópuhreyfing lætur að sér kveða, en hreyfingin samanstendur af 300 evrópskum samtökum sem nú standa fyrir uppákomum í meira en 15 löndum um alla Evrópu. Slow Food Europe er í þessum hópi og tekur þátt í skipu­lagningu meira en 15 við­burða vítt og breitt um Evrópu í þágu málstaðarins. 
 
Í til­kynningu frá Slow Food Europe kemur fram að  tilgangurinn með þessu sam­­stillta átaki sé að krefjast þess að við stefnu­mótun fyrir matvæla­fram­leiðslu í Evrópu­sambandinu verði innleiddar nýjar áherslur sem styðji við smáframleiðslu bænda og dreifbýlisupp­byggingu, verndun jarðvegs, vatns, vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni. 
 
Slow Food-snigillinn.
 
Skilaboðum komið til þingmanna í Strasbourg
 
Á árvekni­viðburðunum var skila­boðum safnað saman frá þátt­takendum í formi póstkorta, þar sem óskum um betri land­búnaðar­hætti og mat­væla­framleiðslu er komið á framfæri. Þeim var síðan dreift til þing­manna Evrópu­þingsins á fundi þeirra í Strasbourg síðast­liðinn þriðjudag. 
 
Þess er að vænta að Evrópu­þingið og þjóðþing Evrópu­sambands­landanna muni á næstunni taka afgerandi ákvarðanir um framtíð hinnar sameiginlegu land­búnaðarstefnu.