Fréttir 09. desember 2019

Vilja ekki að Framleiðnisjóður verði lagður niður þrátt fyrir áform ráðherra

Vilmundur Hansen

Stjórn Bændasamtaka Íslands vill ekki að Framleiðnisjóður verði lagður niður og látinn renna inn í nýjan Matvælasjóð eins og Kristján Þór Júlíusson áformar að gera. Afstaða stjórnar Bændasamtakanna er skýr og þvert á áform ráðherrans en ráðherra hefur sagt að hann telji undarlegt ef menn ætli að láta endurskoðun rammasamnings standa í vegi fyrir þessu.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, segir að Framleiðnisjóður sé hluti af rammasamningi landbúnaðarins sem gildir til 2026 og getur ráðherra ekki lagt sjóðinn niður eða látið hann renna inn í nýjan Matvælasjóð nema semja um það við endurskoðun rammasamningsins.

Ráðherra segir sjóðinn innlenda matvælaframleiðslu

Í skriflegu svari við fyrirspurn Bændablaðsins um viðbrögð sín við afstöðu stjórnar Bændasamtakanna segir Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra: „Með stofnun Matvælasjóðs er verið að framfylgja aðgerð í þingsályktun um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Alþingi samþykkti ályktunina í júní síðastliðinn með 54 atkvæðum. Markmið þess að sameina þessa tvo sjóði í einn er að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu og styrkja þannig Ísland sem matvælaland. Til að ná því markmiði verður aukið fjármagn sett í sameinaðan sjóð en jafnframt mun það fjármagn sem fyrir er nýtast betur enda nokkur samlegðaráhrif í því að reka einn sjóð í stað tveggja. Gert er ráð fyrir að nýr Matvælasjóður taki til starfa 1. janúar 2021. Þegar er hafinn undirbúningur að stefnumótun fyrir hinn nýja sjóð í samráði við Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.“

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra.

Framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins samningsbundinn

„Afstaða stjórnar Bændasamtakanna er sú að framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins séu bundin í rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og að markaðar eru frekari áherslur fyrir starf sjóðsins á hverju samningstímabili. Fjárframlög og áherslur sjóðsins eru því hluti af samningi bænda við hið opinbera.

Framleiðnisjóðurinn styður við ýmis verkefni sem ekki snerta matvælaframleiðslu með beinum hætti en eru þýðingarmikil fyrir landbúnaðinn og dreifbýlið og má þar meðal annars nefna rannsóknar- og þróunarverkefni, nýsköpun og eflingu atvinnu á bújörðum, fræðslutengd verkefni, og starfsmenntasjóð BÍ og vörslu fjármuna vegna þróunarverk­efna í sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðyrkju og vörslu fjármuna Markaðssjóðs sauðfjárafurða.

Starfsemi sjóðsins fer fram á landsbyggðinni og innan sjóðsins er fólk sem hefur mikla reynslu og þekkingu af landbúnaði og er búsett í dreifbýli. Sjóðurinn er því mjög mikilvægur fyrir landbúnaðinn, bæði hvað varðar þróunar- og rannsóknarstarf, búsetustuðning og uppbyggingu atvinnutækifæra í sveitum landsins.

Við erum að sjálfsögðu til í að ræða við ráðherra og þá meðal annars um málaflokka sem tilheyra Framleiðnisjóði en falla ekki undir verksvið Matvælasjóðs og finna þeim nýjan farveg,“ segir Sigurður.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Um tvo kosti að ræða

Á fundi stjórnar Bændasamtaka Íslands greindi Guðrún Tryggva­dóttir, formaður samtakanna, stjórn­inni frá viðræðum sínum við landbúnaðarráðherra um stöðu Fram­leiðnisjóðs landbúnaðarins og fyrirætlana ráðherra um að sameina hann inn í nýjan Matvælasjóð án þess að endurskoðun á rammasamningi hafi farið fram.

Fram kom á fundinum að ráðherra sér tvo kosti í stöðunni. Annars vegar að Framleiðnisjóði verði haldið óbreyttum og hann verði ekki hluti af nýjum Matvælasjóði. Ráðherra mun þó áfram beita sér fyrir stofnun hins nýja sjóðs en BÍ mun þá ekki eiga hlut að því að móta stefnu og starfshætti hans. Hins vegar að áfram verði haldið með fyrri hugmyndir um að FL sameinist Matvælasjóði en BÍ muni þá eiga fulla aðild að því að móta stefnu og starfshætti nýja sjóðsins.

Stjórn samþykkti samhljóða að heppilegra væri að velja fyrri kostinn og halda Framleiðnisjóði óbreyttum. 

Guðrún Tryggva­dóttir, formaður Bændasamtaka Íslands. 

Erlent