Einungis um 3,3% býla innan ESB eru með um eða yfir 100 hektara jarðir og hafa þannig undir sínum handarjaðri 52,7% af öllu jarðnæði í landbúnaði í sambandinu. Slíkum risabúum hefur verið að fjölga á undanförnum árum.
Fréttir 28. janúar 2019

Um 3,3% býla ráða 52,5% af öllu landbúnaðarlandi í ESB

Hörður Kristjánsson
Í yfirlitsskýrslu um landbúnað í ESB ríkjunum sem kom út hjá Eurostat í nóvember 2018 kemur fram að búum er stöðugt að fækka innan sambandsins og voru þau komin í 10,5 milljónir árið 2016. Hafði búum þá fækkað frá 2005 um 4,2 milljónir. 
 
Hlutfallslega hafa flest bú lagst af í Póllandi frá 2005 og var fækkunin þar 1,1 milljón, eða 43%. Þá hefur hefur einnig fækkað um 34% á Ítalíu en þar er fjöldi búa sem hætt hafa rekstri  um 600 þúsund.  Í Rúmeníu hafa 800 þúsund bú hætt starfsemi á fyrrnefndu tímabili sem er um 20% af heildarfjöldanum. 
Flest búin inna ESB svæðisins eru mjög smá í sniðum og tveir þriðju með innan við 5 hektara jarðnæði. Minnsta fækkun búa hefur verið á Írlandi. 
 
Um fjórðungur, eða 25,1%, allra bænda í ESB sérhæfðu sig í dýraeldi á árinu 2016. Þá var rétt rúmlega helmingur, eða 52,5%, að stunda akuryrkju. Í öðrum og blönduðum búgreinum voru 21,1% bænda.  
 
 
Heildarnýting landbúnaðar á landi í ESB löndunum er 47,1%
 
Um 9,7 milljónir manna störfuðu við landbúnað í ESB ríkjunum á árinu 2016. Í heild eru bændur í Evrópusambandslöndunum að nýta 173 milljónir hektara undir sína framleiðslu, en það er 38,8% af landrými ESB landanna. Þar við bætist reyndar skógrækt með 6,2% og annar landbúnaður með 2,1%. Í heild er því verið að tala um að 47,1% landnýtingar í Evrópu­sam­bands­lönd­unum að meðaltali sé vegna land­búnaðar.  
 
Sum lönd með allt að 70% landrýmis undir landbúnað
 
Landbúnaðar­land í sumum ESB landanna er yfirgnæfandi hlutfall alls lands eins og á Írlandi þar sem það er um 70%, í Bretlandi 65,7% og 60,9% í Danmörku. Þessu er öfugt farið í löndum eins og Finnlandi, þar sem ræktarland annað en skógrækt er ekki nema 6,5% lands og í Svíþjóð er hlutfallið litlu meira, eða 6,9%. Þessi tvö norrænu ríki innan ESB eru reyndar einu löndin í sambandinu þar sem skógræktarhluti landbúnaðarins er að nýta meira land en annar landbúnaður. 
 
Stórbýlin ráða ríflega helmingi lands
 
Einungis um 3,3% býla innan ESB eru með um eða yfir 100 hektara jarðir og hafa þannig undir sínum handarjaðri 52,7% af öllu jarðnæði í landbúnaði í sambandinu. Slíkum risabúum hefur verið að fjölga á undanförnum árum. Þó stórbúin ráði ríflega helmingi landbúnaðarlandsins, þá eru fjölskyldubúin samt enn ríkjandi í evrópskum landbúnaði. 
 
Landbúnaður ESB skilar sama hlutfalli af landsframleiðslu og á Íslandi
 
Landbúnaður innan Evrópu­sambandsins skilaði um 1,2% af vergri landsframleiðslu (GDP) ESB ríkjanna á árinu 2017 samkvæmt tölum Eurostat. Það er nákvæmlega sama hlutfall og á Íslandi samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
 
Viðskipti með landbúnaðar­vörur voru þá í heild 7,4% af heildar vöruskiptum Evrópu­sam­bands­­ins á heims­vísu. Hafa slík viðskipti tvö­fald­ast á 15 árum og námu 275 milljörðum evra á árinu 2017.  Hlut­fallslega mest milli­ríkjaviðskipti með landbúnaðar­vörur voru við Bandaríkin, eða sem nam 33,3 milljörðum evra. Þangað fóru líka um 16% af öllum útflutningi landbúnaðarframleiðslu ESB á ári 2017. Mest var hins vegar flutt inn af landbúnaðarafurðum frá Brasilíu.
 
Hlutfallslega flest bú og minnst framleiðni í Rúmeníu
 
Hlutfallslega er mestur fjöldi býla í Rúmeníu en þar er einnig hlutfallslega langminnst framleiðni í landbúnaði. Þar á eftir kemur Pólland. Framleiðnin er aftur á móti mest á hvert býli í Hollandi, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Bretlandi og í Tékklandi.
 
Um 310 milljónir tonna af korni
 
Á árinu 2017 voru framleidd 309,9 milljónir tonna af korni sem var 8,2 milljóna tonna aukning frá árinu áður, en á 1,6 milljónum hektara minna landsvæði. Þar af voru framleidd um 142,6 milljónir tonna af hveiti. 
 
Um 45 milljónir tonna af kjöti
 
Þá voru framleidd 45,2 milljónir tonna af kjöti á árinu 2017 og um helmingur, eða 23,4 milljónir tonna, af því var svínakjöt. Mjólkurframleiðslan nam svo 170,1 milljón  tonna. 
 
Framleiðsla á nautgripakjöti stóð þá í stað á milli ára, en aukning var í öllum öðrum greinum landbúnaðarframleiðslunnar á árinu 2017, nema í svínakjötsframleiðslunni sem dróst um 0,9%. 
 
Verð á landbúnaðarafurðum hækkar
 
Verð á landbúnaðarafurðum hækkaði talsvert á árinu 2017. Þannig hækkaði meðalverð á mjólk um 17,1%, svínakjöt um 8,3% og korni um 3%. Einnig hækkaði verð á nautakjöti um 2,2% og kjúklingi um 1%. Verð á kinda- og geitakjöti hefur hins vegar verið á niðurleið og lækkaði um 1,4% á árinu 2017. 
 
Níu af hverjum tíu bændum eru eldri karlar
 
Þegar litið er til kynjaskiptingar og aldurs í landbúnaði í ESB ríkjunum, þá voru um 71,5% bænda eldri karlar á árinu 2016 og einungis 10,6% þeirra voru 40 ára eða yngri. Fram kemur í skýrslunni að mikill munur er á milli landa hversu hátt verð er á jörðum og leigu jarða.