Fréttir 25. febrúar 2019

Tuttugu þúsund dauðar langvíur

Vilmundur Hansen

Líf- og fuglafræðingar í Hollandi hafa ekki enn fundið skýringu á dauða um 20 þúsund langvía sem skolað hefur á land eða hafa fundist út af ströndum landsins undanfarnar vikur.

Hundruð veikra fugla eru undir eftirliti dýralækna sem reyna að hlúa að þeim.

Langvíur eyða stórum hluta ævinnar úti á hafi og að sögn hollensks líffræðings hefur annar eins dauði innan stofnsins ekki sést síðan á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

Helsta skýringin á dauða fuglanna er talin vera slæm veður og eitthvað annað sem menn hafa ekki enn áttað sig á hvað er. Ekki er talið að um mengun sé að ræða en sagt er að fuglarnir séu horaðir og bendir það til fæðuskorts.

Þrátt fyrir að ekki sé talið að mengun hafi valdið dauða fuglanna hefur verið bent á að stórt gámaskip hafi misst 291 gám í hafið 2. janúar síðastliðinn vegna veðurs á þeim slóðum sem fuglarnir halda sig mest.

Búið er að endurheimta stóran hluta gámanna en ríflega fimmtíu er enn saknað og reiknað er með að þeir hafi sokkið til botns. Ekki hefur verið gefið upp hvað gámarnir innihéldu en talið er að hluti þeirra hafi innihaldið efni sem hættuleg eru lífríkinu.