Fréttir 19. október 2015

Tíu milljónir manna gætu soltið til dauða

Vilmundur Hansen

Þurrkar sem tengjast veðurfyrirbærinu El Nino hafa valdið uppskerubresti í Afríku og Suður-Ameríku á árinu. Talið er að 10 milljónir manna á fátækustu svæðum heims geti soltið í hel berist þeim ekki aðstoð.

Verst er ástandið talið vera í Eþíópíu þar sem um 4,5 milljónir manna berjast við matarskort. El Nino-fyrirbærið hefur valdið löngum þurrkaskeiðum í löndum í Afríku eins og Eþíópíu og Malaví og uppskerubresti í kjölfarið. Eftir að þurrkaskeiðinu lauk í Malaví rigndi um tíma svo mikið að flóð eyðilögðu um 30% af væntanlegri maísuppskeru í landinu. Á sumum svæðum í Suður-Ameríku hafa þurrkarnir staðið í tvö ár og víða ekki stingandi strá að finna. Mælingar sýna einnig að farið er að draga úr lengd regntímabila á Indlandi og í Suðaustur-Asíu.

El Nino-veðurfyrirbærið sem veldur þurrkunum hefur verið að færast í aukana undanfarna áratugi og er það talið tengjast auknum loftslagshita. Talið er að El Nino ársins 2015 sé það öflugasta frá 1998 en í kjölfar þess brutust út skógareldar og uppskerubrestur varð víða um heim.