Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Notkun á glýfósatefnum er stöðugt að aukast. Efnið berst í fæðukeðju manna m.a. í gegnum neyslu á sojaafurðum.
Notkun á glýfósatefnum er stöðugt að aukast. Efnið berst í fæðukeðju manna m.a. í gegnum neyslu á sojaafurðum.
Fréttir 2. mars 2020

Þúsundir tonna af glýfosati berast í fæðukeðjuna

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Vísindamenn í Evrópu eru áhyggjufullir út af auknu inni­haldi snefilefna úr gróður­eyðingar- og skordýraeitri í erfða­breyttum soja­­baunum sem hafa þol gegn virka efninu glýfó­sati. Þótt erfða­breytt soja sé ekki ræktað í Evrópu, þá er það flutt inn í stór­um stíl frá öðrum löndum. 
 
Greint var frá þessu á vefsíðu Food Navigator í síðasta mánuði.  Þar segir að erfðabreytt soja [Genetically modified – GM] hafi mikið þol gegn eiturefninu glýfósat sem er virka efnið í ýmsum illgresis- og sveppaeyðingarefnum sem og skordýraeitri. Það þýðir að bændur geta drepið „óæskilegt“ illgresi án þess að drepa sojabaunaplönturnar í leiðinni. 
 
Um 77% af öllum sojabaunum í heiminum eru erfðabreyttar
 
Erfðabreytt soja er mjög algengt í ræktun í fjölmörgum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum, Brasilíu og Argentínu. Um 350 milljónir tonna af sojabaunum eru framleiddar árlega í heiminum (samkvæmt tölum frá 2016–2017). Af þessu magni eru um 270 milljónir tonna af erfðabreyttum tegundum sem hafa þol gegn glýfósati, eða 77%.
 
Samkvæmt vísindamönnum í Noregi og Bretlandi, sem vitnað er til í fréttinni, hefur aukin ræktun á erfðabreyttu soja leitt til aukinnar úðunar á efnum yfir akrana sem innihalda glýfósat. Afleiðingin er að meira finnst af glýfósati í soja og ýmsum fæðutegundum. 
 
Vitnað er í Thomas Böhn hjá Marin Resaearch í Tromsö í Noregi. Hann upplýsti Food Navigator um að aukin notkun eiturefna yllu áhyggjum.
 
Yfir milljón tonna framleiðsla
 
Á árinu 2017 var framleiðlsugetan á glýfósati í heiminum 1.065.000 tonn, samkvæmt tölum Research And Markets. Mest var framleitt af efninu í Kína, eða 685.000 tonn, og 380.000 tonn voru framleidd á vegum Monsanto sem nú tilheyrir þýsku efnasamsteypunni Bayer. Á árinu 2017 var selt glýfósat í heiminum fyrir meira en 5 milljarða dollara.   
 
Glýfósat ætti ekki að finnast í fæðukeðjunni
 
„Þetta eitraða efni, glýfósat, ætti ekki að finnast í fæðukeðjunni,“ segir Böhn. 
Glýfósat var fyrst kynnt í Evrópu árið 1974 af bandaríska efnarisanum Monsanto. Í dag er Roundup, sem nú er reyndar farið að selja undir öðru vörumerki, eitt algengasta gróðureyðingarefnið sem notað er í álfunni og reyndar um allan heim. Þetta er þrátt fyrir að bæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Alþjóðlega krabbameins­rannsóknarstofnunin (IARC) hafi lýst krabbameinsvaldandi áhrifum glýfósats á menn. Þversögnin í öllu saman er að notkun á glýfósati var endurheimiluð síðla árs 2017 af fæðuöryggisyfirvöldum í Evrópu, European Food Safety Authority (EFSA), og ECHA efnarannsóknastofnuninni í Evrópu, (European Chemical Agency). Komust þessar stofnanir að því að ekki væru nægar sannanir fyrir því að tenging væri á milli notkunar glýfósats og aukinnar hættu á krabbameini. Var því ákveðið að framlengja heimild til notkunar á glýfósati um fimm ár. 
 
Soja leikur vaxandi hlutverk í fóðri dýra og fæðu manna
 
Í umfjöllun Food Navigator segir að soja leiki stórt hlutverk í fóðrun dýra og skipti dulin efni í fóðrinu því miklu máli. Þá sé soja líka neytt beint af mannfólkinu og veruleg aukning sé í neyslu á sojaafurðum vegna aukningar á veganisma og þeirra sem telja sig grænkera. Bent er á að bæði Thomas Böhn í Noregi og Erik Millstone í Sussex-háskóla í Bretlandi vari við því að snefilefni úr sojaafurðum geti borist í fæðukeðju Evrópubúa. Jafnvel þótt erfðabreytt soja sé ekki ræktað í Evrópu. 
 
Glýfósat berst í fæðukeðjuna
 
Í grein sem þeir félagar skrifuðu og birt var síðla á síðasta ári á vefsíðu Food Navigator kom fram að umtalsvert af glýfósatleifum eru í sojafurðum sem fluttar eru  til Evrópu frá Bandaríkjunum og Suður-Ameríku. Greinin er undir fyrirsögninni „The introduction og thousunds of tonnes og glyfphosat in the food chain – an evalution og glyfposate tollerant soyabeans,“ eða;  „Innleiðing þúsunda tonna glýfósats í fæðukeðjunni – mat á glýfósat-þolnum sojabaunum.“
 
Fram kemur í grein þeirra félaga að innihald glýfósats í fæðunni aukist stöðugt. Opinberar rannsóknir sýni verulega aukningu á notkun glýfósats í landbúnaði í Argentínu og Brasilíu frá 1996 til 2014. Notkun bænda á glýfósati í þessum löndum sé tvöfalt meiri en mælt er með á flestum stöðum þar sem slíkt er leyft.
 
Aukin tíðni eiturúðana
 
Úðað er yfir akrana samkvæmt eftirspurn og hefur sú úðun aukist frá því að vera tvisvar yfir vaxtartímann árið 2006 upp í fjórar úðanir á árunum eftir 2007. Segja þeir Böhn og Millstone að þetta þýði að meira sé nú úðað seint á vaxtartímanum og það hafi leitt til tíföldunar á magni snefilefna í sojauppskerunni. Þá benda þeir á að nú sé farið að beita forúðun í auknum mæli yfir akrana áður en sáð er til að drepa allt illgresi. Það leiði líka til aukinnar upptöku soja á glýfósati. 
 
Thomas Böhn og Erik Millstone leggja því til að alþjóðlegt sam­komulag verði gert um hámark snefilefna í fæðu manna og fóðri dýra. Þá þurfi að gera samanburðarrannsóknir á milli ræktunarsvæða til að fá áreiðanlegri gögn um notkun eiturefna. Skortur á gögnum valdi alvarlegri óvissu um stöðuna. 
 
Grípa verður til ráðstafana
 
„Grípa verður til allra mögulegra úrræða til að draga úr notkun á glýfósati,“ segir Thomas Böhn. „Þar þurfa bæði bændur að forðast notkun þessara efna, auk þess sem glýfósat ætti alls ekki að vera í fæðukeðjunni.“ 

Skylt efni: glýfosat | Roundup

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...