Mynd/Andreas Jacobsen Í Ögri við Ísafjarðardjúp hefur um aldur verið stórbýli og þingstaður Ögurhrepps. Þar hefur undanfarin ár verið rekin ferðaþjónusta þar sem gestum hefur m.a. verið boðið upp á kajaksiglingar og kaffi með þjóðlegu meðlæti.
Fréttir 05. júlí 2020

Þjóðlegt með kaffinu og kajakferðir í Ögri

HKr.
Í Ögri við Ísafjarðardjúp hefur verið rekið ferða­þjónustu­fyrirtækið Ögurferðir síðan 2011. Starf­semin snýr að kajakferðum í Ísafjarðardjúpi og rekstri kaffihúss í samkomuhúsinu í Ögri sem var byggt 1925.
 
Kaffihúsið er rekið undir nafninu „Þjóðlegt með kaffinu“, en Guðfinna og Jóna Símonína Bjarnadóttir standa þar vaktina. Þær hafa einnig gefið út bækur undir sama nafni og þýtt á nokkur erlend tungumál.
Ferðafólk sem sækir í hreina náttúru og kyrrð á fáförnum slóðum eru helstu viðskiptavinir Ögurferða. Kajakferðirnar eru frá stuttum og fjölskylduvænum ferðum nálægt landi upp í dagsferðir og jafnvel nokkurra daga ferðir í Djúpinu og í Jökulfjörðum. 
 
Í samkomuhúsinu í Ögri er einnig haldið árlega sveitaball. Ögurballið á sér fastan sess í dagskrá margra og hefur verið fastur liður í tilveru Djúpmanna um áratuga skeið. Af ballinu fer enginn heim nema að fá sér rabarbaragraut með rjóma.  
 
Ögur var stórbýli um aldir og kirkjustaður í Ögurvík í Ísafjarðar­djúpi, en Ögurkirkja var reist 1859. Í Ögri var þingstaður Ögurhrepps og frá 15. til 17. aldar bjó þar hvert stórmennið á fætur öðru. Má þar helst nefna Björn Guðnason sýslumann, Magnús Jónsson (prúða) sýslu­mann og síðar Ara son hans, Björn Markússon og Erlend Ólafsson málafylgjumann. 
 
Fyrsta rafstöð á sveitaheimili við Djúp var reist í Ögri 1928. Í Ögurnesi var verstöð og þurrabúðir héldust þar allt fram á 20. öld. Þá var þar lengi landsíma- og póstafgreiðsla, sem og læknissetur frá 1932 til 1951.