Birgir S. Birgisson garðyrkjubónd.
Fréttir 05. apríl 2019

Það er galdur í græna litnum

Vilmundur Hansen

Áhugi á pottaplöntum hefur aukist mikið undanfarin misseri eftir að hafa verið í lægð í nokkur ár. Pottaplöntuframleiðendur hér á landi fagna þessum aukna áhuga enda galdur í græna litnum.

Skömmu fyrir síðustu áramót tóku íslenskir pottaplöntu­framleiðendur, kennarar og nemendur Garðyrkju­skólans og Bændablaðið saman höndum við að kynna pottaplöntur. Niðurstaðan varð sú að nemendur við Garðyrkjuskólann myndu skrifa greinar um einstakar pottaplöntur undir handleiðslu kennara og greinarnar birtar í Bændablaðinu. Afurðir samstarfsins hafa birst á síðum Bændablaðsins frá áramótum og munu, ef allt verður eftir áætlun, gera það að minnsta kosti út árið.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Garðyrkjuskólans að Reykjum.

Átak í kynningu pottaplantna

Birgir S. Birgisson, garðyrkjubóndi og pottaplöntuframleiðandi, segir aðdraganda kynningar­átaksins hafa verið að pottaplöntuframleiðendur og Samband garðyrkjubænda hafi fundað til að velta fyrir sér hvað mætti gera til að kynna íslenska pottaplöntuframleiðslu betur.

„Í þeirri umræðu kom upp sú hugmynd að vera með pottaplöntu mánaðarins. Seinna hitti ég Guðríði Helgadóttur hjá Garðyrkjuskólanum og nefndi hugmyndina við hana. Hún lagði til að skólinn kæmi að verkefninu á þann hátt að nemendur við garðyrkjuframleiðslu undir stjórn Ingólfs Guðnasonar skrifuðu greinar um pottaplöntur sem hluta af sínu námi. Katrín María Andrésdóttir, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, lagði svo hugmyndina fyrir ritstjórn Bændablaðsins og þar var vel tekið undir að birta greinarnar.

Að mínu mati hafa nemendur skólans staðið sig afskaplega vel við skrifin og kynningarnar mjög góðar og fólk tekur eftir þeim. Greinarnar segja meðal annars frá uppruna plantnanna, hvernig á að hugsa um þær og ýmsum sérkennum hverrar tegundar fyrir sig og af hverju það er gott að hafa pottaplöntur í kringum sig.“

Birgir segist auðvitað vona að aukin þekking og áhugi á pottaplöntum eigi eftir að auka söluna á íslensku plöntunum og um leið lyfta undir íslenska garðyrkju. „Innflutningur á pottaplöntum hefur aukist gríðarlega undanfarið með auknum áhuga fólks á ræktun. Þessi áhugi sést ekki síst á fjölda meðlima á Facebook-síðum eins og Ræktaðu garðinn þinn og Stofublóm inniblóm en þeir skipta tugum þúsunda.“

Í dag eru þrír garðyrkjubændur á Íslandi sem eingöngu eða aðallega rækta pottaplöntur. Birgir segir að áður fyrr hafi þeir verið mun fleiri. „Eins og gefur að skilja eigum við fullt í fangi með að keppa í verði við innfluttar pottaplöntur. Garðyrkjustöðvarnar í Evrópu sem framleiða pottaplöntur eru margar hverjar gríðarlega stórar fabrikur sem framleiða plöntur fyrir Evrópumarkað og geta því boðið mjög lágt verð.

Til að halda verðinu niðri hef ég stundum keypt hálfstálpaðar pottaplöntur að utan til áframframleiðslu og merki því mína framleiðslu ekki með fánaröndinni en erfitt er að segja hvenær pottaplöntur teljast íslenskar eða ekki.“

Með puttann á pottaplöntupúlsinum

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Garðyrkjuskólans að Reykjum, segir að nemendur á garðyrkjuframleiðslubrautum við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa það sem af er árinu skrifað greinar um pottaplöntur í Bændablaðið. 

„Hugmyndin kom frá Birgi í Bröttuhlíð og Sambandi garðyrkjubænda og tók skólinn strax vel í að vera með í þessu samstarfsverkefni,  sem stefnt er á að standi til ársloka 2019. Við lítum á það sem gullið tækifæri fyrir nemendur að fá að spreyta sig á greinaskrifum um ræktun ákveðinna pottaplantna og umhirðu þeirra í Bændablaðið. Af sjónarhóli skólans hefur svona samstarf margþættan ávinning, nemendur fá tækifæri til að koma sér aðeins á framfæri í faginu, þurfa að kynna sér vel þær plöntur sem þeir skrifa um og til viðbótar metur skólinn þetta sem verkefnavinnu í viðeigandi áfanga. Ferillinn er þannig að nemandi velur sér tegund til umfjöllunar af lista sem garðyrkjubændur hafa lagt fram og skrifar um hana. Þegar greinin er tilbúin fara kennarar skólans yfir skrifin og lagfæra aðeins, ef þörf krefur.

Reyndar má alveg ljóstra því upp að slíkar lagfæringar eru í algjöru lágmarki hingað til, nemendur okkar eru svo sannarlega með puttann á pottaplöntupúlsinum. Ekki spillir svo að fá að vera með greinar í mest lesna blaði landsins. Við verðum líka vör við jákvæð viðbrögð við þessum greinum og það hvetur aftur nemendur okkar til enn frekari dáða.“