Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Mantauté gerði vörur tilbúnar til að senda í verslanir, þegar ljósmyndari var á ferð.
Mantauté gerði vörur tilbúnar til að senda í verslanir, þegar ljósmyndari var á ferð.
Mynd / smh
Fréttir 12. nóvember 2015

Stjörnugrís: Kjötvinnsla tók nýverið til starfa við hlið sláturhússins

Höfundur: smh

Í Saltvík á Kjalarnesi rekur Stjörnugrís sláturhús og kjötvinnslu. Tvö gyltubú eru einnig rekin á Kjalarnesi. Kjötvinnslan er nýleg viðbót í rekstri fyrirtækisins og var tekin í gagnið í marsmánuði síðastliðnum. Með tilkomu hennar verður reksturinn heildstæðari og hagkvæmari.

Geir Gunnar Geirsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Stjörnugrís er þriðju kynslóðar fjölskyldufyrirtæki í eigu foreldra Geirs og afkomenda þeirra. Við fyrirtækið starfa einnig kona Geirs, Guðrún Ólafía Sigurðardóttir, og börn þeirra. Auk búanna á Kjalarnesi rekur Stjörnugrís blandað bú, gyltur og slátursvín í Grímsnesi og gyltubú á Skeiðum. Þá eru rekið bú með slátursvín á Melum í Hvalfjarðarsveit. „Kjötvinnslan var í byggingu síðasta vetur. Með því að reisa okkar eigin kjötvinnslu við hlið sláturhússins er framleiðslan öll orðin heildstæðari, skilvirkari og sparar flutningskostnað. Reksturinn er þar með orðinn hagkvæmari sem ætti að vera neytendum í hag. Þar vinnum við bara íslenskt kjöt og enn sem komið er eingöngu frá okkur. Þetta er okkar sérstaða; það er að segja íslenskt alla leið og þess vegna tek ég það sérstaklega fram, því ég held að fólk geri sér enga grein fyrir hversu mikið magn af grísakjöti streymir hér inn í landið. 

Mér finnst alveg ástæða til að benda á að í búðarhillum er í mörgum tilfellum grísakjötsafurðir, til dæmis skinka, sem getur innihaldið eingöngu erlent kjöt eða blandað við íslenskt,“ segir Geir Gunnar.

Með hreinleikann að leiðarljósi

„Það sem vakti fyrir okkur með því að koma þessari kjötvinnslu á fót er að reyna að selja sjálf eins mikið af svínakjöti og kostur er – og vera ekki háð neinum öðrum með það. Við vildum líka koma með vörur sem væru eins hreinar og kostur er og að kjötinnihaldið væri mjög hátt. Við gætum eflaust sparað eitthvað á hinni nálguninni en þar sem þetta eru okkar gripir og okkar kjötvörur fannst okkur einfaldlega nærtækast að selja það fyrst og fremst en ekki bæti og aukaefni. Skinkan okkar er 98 prósent kjöt og auk hennar erum við með beikon, pepperóní, salami og fleira. Þá keyptum við góðan tækjabúnað til hrápylsugerðar. Þarna vinnum við líka ýmsar steikur úr fersku kjöti; kótelettur og hnakkasneiðar svo eitthvað sé nefnt – og allar þessar vörur eru merktar Stjörnugrís sérstaklega. 

Varðandi uppskriftir á pepperóní og skinku fengum við aðstoð frá Sigurði í Kjötpól en við þekktum til vinnubragða hans og líkaði mjög vel. Auk þess erum við með afbragðs kjötiðnaðarmenn sem hafa staðið sig frábærlega að okkar mati.“

Svínaræktendur í naflaskoðun

Geir Gunnar segir að svínaræktendur á Íslandi hafi farið í ákveðna naflaskoðun eftir að Gyltuskýrslan svokallaða var gefin út í mars og greint var ítrekað frá í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum vikum, en heildarmyndin sem þar var dregin upp af svínaræktinni var ekki fögur. Hann segir að viðbrögð almennings séu skiljanleg upp að vissu marki. „Hlutirnir eru samt oft slitnir úr samhengi og því miður verður umræðan ofstækis- og fordómafull enda dýravelferð mikið tilfinningamál. Ný reglugerð fjallar um að betrumbæta aðbúnað í svínabúskapnum og hafa ber sömuleiðis í huga að nýjar aðbúnaðarreglugerðir hafa verið settar fyrir allar tegundir búfjár með það að markmiði að bæta aðbúnað í hvívetna. Það þýðir ekki að aðstæður hafi verið slæmar, sem þær eru sannanlega ekki, heldur það að hægt sé að gera betur en gert er í dag. Engin dýraníð hafa verið stunduð í svínabúum landsins eins og látið er í veðri vaka í umfjöllun um búgreinina. Slíkar fullyrðingar eru með öllu bæði ósannar og ósanngjarnar. Þessu til stuðnings þá er hægt að nefna það að miklu meira eftirlit er haft með grísaeldi en í flestum öðrum búfjárgreinum svo því sé haldið til haga. 

Það sem gerðist þegar myndirnar voru birtar úr Gyltuskýrslunni er að út frá tveimur til þremur ljótum myndum var öll greinin dæmd mjög harkalega af almenningi. Það hefur hins vegar komið fram að þar sem atriði voru ekki í lagi, fylgdi Matvælastofnun þeim eftir og í verstu tilvikum var beðið á meðan úrbætur voru gerðar. Slæm meðferð á dýrum á aldrei að líðast. Það er klárlega samhengi á milli þess hvernig búreksturinn gengur og hvernig aðbúnaður dýranna er – og það á við um allar búgreinar þar sem dýrahald er.“ 

Höfum góða stöðu að verja í keppni við innflutning

Eins og fram hefur komið standa svínabændur frammi fyrir því að þurfa að breyta húsakosti sínum heilmikið, til að mæta nýrri aðbúnaðarreglugerð. Um mjög kostnaðarsamar breytingar er að ræða og hefur verið áætlað að það muni kosta greinina yfir þrjá milljarða króna – en einungis 12 svínabú eru í landinu. „Við stöndum bara frammi fyrir því að þessi framleiðsluaðferð sem notuð hefur verið fram til þessa er úrelt og menn verða bara að horfast í augu við það. Þó það kosti talsverða fjármuni þá verður bara svo að vera, ef menn ætla að vera í þessu áfram. Ég hef verið að hugsa um þetta í þó nokkurn tíma og ég hef alltaf sannfærst um það betur og betur að það þarf að breyta aðbúnaðinum algjörlega. Það er bara þannig að þegar hlutirnir hafa alltaf verið stundaðir á ákveðinn máta þá finnst mönnum það bara eðlilegt og er viðtekið. Nú þegar aðrar betri leiðir eru í boði – og reglur hafa verið settar um bættan aðbúnað – þá finnst manni það rökrétt og sjálfsagt að breyta þessu þótt það kosti peninga. 

Það er þó ákveðin skekkja í þessu,“ segir Geir Gunnar og á þá við að hann hefði viljað sjá stjórnvöld gefa greininni meira svigrúm til að uppfylla þær kröfur sem gerðar hafa verið um bættan aðbúnað. „Nýr tollasamningur við Evrópusambandið (ESB) kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, það er að okkur er gert að keppa við stóraukinn innflutning frá löndum ESB á sama tíma og búgreinin stendur frammi fyrir milljarða fjárfestingum.  Ómögulegt er að ekkert komi í staðinn fyrir svona einhliða ákvarðanir.

Svo verðum við svínabændur líka að passa upp á að það sé allt í toppmálum hjá okkur, til þess að geta tekið slaginn við innflutta kjötið. Við erum með framúrskarandi stöðu varðandi heilbrigði búfjár og lyfjanotkun í landbúnaði og þá stöðu þarf að verja og viðhalda. Með því að uppfylla nýja aðbúnaðarreglugerð verðum við sömuleiðis skrefi framar en samkeppnisaðilar okkur í ríkjum ESB.“

Velferðarbú fyrir gyltur í bígerð á Kjalarnesi

Hann segir að á svínabúinu hans séu framkvæmdir við breytingar þegar komnar af stað. „Við erum byrjuð að taka út bása í tveimur húsum og þar verður lausagöngu komið á. Þetta er eiginlega fyrsta skrefið í umbyltingu á húsakostinum okkar – og eins konar millistig. Við stefnum á að byggja nýtt velferðarbú fyrir gyltur. Við munum þá breyta í það minnsta tveimur húsunum í uppeldishús fyrir grísina og reisa eitt stórt hús fyrir gylturnar sem mun duga okkur næstu áratugi. Þá er stefnan að ganga jafnvel lengra en ýtrustu kröfur aðbúnaðarreglugerðarinnar gera ráð fyrir. 

Ég var sjálfur í þessum starfshópi sem mótaði þessa reglugerð og ég get alveg sagt að það var gengið lengra í henni að ýmsu leyti en í sambærilegum reglugerðum á Norðurlöndum. Vonir standa til, ef öll tilskilin leyfi fást, að byrja að byggja þetta bú næsta sumar.  Drífa þetta bara af sem fyrst, þó að við eigum rétt á undanþágusvigrúmi. Ég hef engan áhuga á því að vera með gyltur á básum eða í lélegri lausagöngu lengur en nauðsynlegt er. Þetta snýst núna fyrst og fremst um velferð dýranna. Lausaganga getur verið alla vega – það er ekkert unnið með því að koma upp lausagöngu ef hún virkar ekki sem skyldi.  

Við tókum reyndar ákveðið skref í þessa átt fyrir um þremur vikum. Eftir lestur skýrslunnar og eftir fundarhöld með dýralækni búanna ákváðum við að hætta alfarið geldingum þar sem allir voru sammála um að sá háttur sem viðhafður er í dag, sumsé staðdeyfing, væri ekki að virka sem skyldi og ekki í samræmi við tilgang laganna um aukna dýravelferð.“

Við kjötvinnslu Geirs Gunnars á Vallá starfa hátt í 50 manns – og ásamt sláturhúsinu og starfsfólki á svínabúunum eru starfsmennirnir rúmlega 70. „Að vinna og pakka okkar eigin kjöti er skref sem við vildum taka til að vera nær neytandanum, auk þess sem þetta eru viðbrögð við öllum þessum innflutningi. Við gátum í raun ekki verið lengur bara venjulegur sláturleyfishafi og selt okkar gripi öðrum afurðasölum eða kjötvinnslum eingöngu. Við vorum farnir að finna tilfinnanlega fyrir minnkandi sölu á ýmsum kjöthlutum vegna síaukins innflutnings. Oftar en ekki var það án fyrirvara, sem gengur auðvitað ekki upp í svona framleiðslu eins og við erum í.“ 

9 myndir:

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...