Mynd/Guðrún María Björnsdóttir Á myndinni er heimasætan, Heiðdís Guðrún Jóhannsdóttir, kampakát með eitt þessara snemmbornu lamba í fanginu.
Fréttir 18. apríl 2019

Snemmbærur á Snartarstöðum

H.Kr.
Í byrjun apríl voru fimm ær bornar á bænum Snartarstöðum í Lundarreykjadal í Borgarfirði. Þykir það nokkuð snemmt og vonaðist Guðrún María Björnsdóttir bóndi til að þær yrðu ekki fleiri í bili.
„Þetta eru kindur sem við heimtum seint heim í haust og hafa þær því lifað frekar frjálslyndu lífi,“ sagði Guðrún í samtali við Bændablaðið. 
 
Guðrún, eða Gunna Mæja eins og kunningjarnir kalla hana, tók við búinu af föðursystkinum sínum í ársbyrjun 2016 ásamt eiginmanninum, Jóhanni Páli Þorkelssyni.
 
Fækkuðu fé vegna stöðunnar í sauðfjárræktinni
 
„Við erum núna með um 150 fjár eftir að hafa fækkað svolítið vegna stöðunnar í greininni. Áður vorum við með um 320 kindur, en það hefur ekki verið mikið upp úr þessu að hafa að undanförnu. Annars erum við líka með 39 kýr í básafjósi sem okkur þykir alveg passlegt og nokkrar geitur.“
 
Hafa hug á að koma sér upp mjaltagryfju
 
Guðrún segir að þau séu með brautarkerfi í fjósinu en þau vonist til að geta komið sér upp mjaltagryfju. 
„Okkur langar ekkert sérstaklega í róbót. Enda sé ég heldur ekki fram á að við fáum þriggja fasa rafmagn hér alveg á næstunni.“
 
Mjaltaþjónar eru flestir hannaðir til að anna 60 til 70 kúm á sólarhring. Segir Guðrún ekki ætlunina að fjölga kúm, enda þurfi þá að vera hægt að heyja ofan í þær líka og vont að þurfa að stóla á aðra með hey.
Víða um land hafa kúabændur verið að endurnýja fjós og stækka um leið vegna innleiðingar á nýjum aðbúnaðarreglugerðum. Þess gerist ekki þörf á Snartarstöðum þar sem fjósinu var breytt 2007 og básarnir þá hafðir rýmri en þáverandi reglugerð krafðist. Sú framsýni kemur nú að góðum notum og standast básarnir vel nýjar reglugerðir.  
 
Slitlagslagningu frestað um nokkur ár yfir Uxahryggi
 
Í gegnum Lundarreykjadal liggur vegur upp á Uxahryggi og yfir á Þingvelli. Stóraukin umferð ferðamanna hefur verið um þessa leið og því hefur verið ákall um endurbætur. Búið er að byggja upp veginn að verulegu leyti, en enn verður líklega bið á slitlagi yfir heiðina.
 
„Við förum stundum þarna yfir til að versla á Selfossi á sumrin til tilbreytingar. Það er komið samfellt slitlag til okkar af veginum í Borgarfirði og upp að Brautartungu eftir lagfæringar í fyrrasumar. Það átti að fara í að klára lagninguna á þeim kafla sem eftir er yfir Uxahryggina á þessu eða á næsta ári, en ég held að það sé búið að fresta því til 2024. Ég veit ekki af hverju þessu var frestað, en mér finnst við oft sitja dálítið á hakanum hér í Lundarreykjadal. Sama á við um fjarskiptasamband sem verið hefur upp og ofan,“ segir Guðrún María Björnsdóttir.