Heimaslátrun hefur ýmsa kosti í för með sér og ekki síst þá að ekki er verið að flytja gripina langan veg í sláturhús og valda þeim alls konar óþægindum á meðan.
Fréttir 15. júní 2020

Sláturhús á hjólum

Vilmundur Hansen

Í Þýskalandi er leyfilegt að slátra gripum í færanlegum sláturhúsum og selja síðan afurðirnar ferskar á matarmörkuðum. Heimaslátrum er sögð hafa þann kost að ekki þurfi að flytja gripi langar leiðir fyrir slátrun.

Umræða um heimaslátrun hefur verið talsvert í umræðunni undanfarna mánuði og unnið er að mótun tilraunaverkefnis um heimaslátrun sem líklega mun fara af stað í haust.

Í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar hafa komið upp sýkingar af völdum COVID-19 í sláturhúsum og afurðastöðvum með þeim afleiðingum að loka hefur þurft vinnslunum.

Kjötið alltaf ferskt

Þýskur slátrari tók skrefið í hina áttina og innréttaði sendibíl sem lítið sláturhús og afurðastöð á hjólum og hefur haft yfirdrifið nóg að gera í framhaldinu. Til þess að tryggja að kjötið sé alltaf ferskt heimsækir slátrarinn býli og slátrar dýrunum á staðnum. Að því loknu eru afurðirnar unnar í bílnum og ekið með þær á matarmarkaði og seldar þar.

Margir kostir við heimaslátrum

Að sögn þeirra sem að verkefninu standa hefur heimslátrun ýmsa kosti í för með sér og ekki síst þá að ekki er verið að flytja gripina langan veg í sláturhús og valda þeim alls konar óþægindum á meðan. Þess í stað eru dýrin heima við og á fóðrum til hins síðasta.

Reynslan af sláturbílnum hefur verið góð og á einu ári hefur hann unnið á 350 býlum og slátrað og unnið einn til fjóra nautgripi, tvö til þrjú svín og allt að 38 kindur á hverju býli.

Löng hefð er fyrir minni sláturhúsum og heimaslátrun í Þýskalandi og víða í Evrópu en litlum sláturhúsum og kjötkaupmönnum hefur þrátt fyrir það fækkað mikið og orðið undir í baráttunni við stærri afurðastöðvar.