Fréttir 27. júlí 2020

Skuggaleg herlirfa nálgast Evrópu

ehg

Líklegt er að amerísk kornugla, öðru nafni herlirfa, festi rætur í Evrópu á þessu ári en í hlýju veðurfari fjölgar hún sér sexfalt á einu ári. Nú spá sérfræðingar því að kornuglan, sem er mölur, að aðeins tímaspursmál sé hvenær hún nái fótfestu í Evrópu.

Ef lirfan er ekki nú þegar komin til Evrópu þá er reiknað með að á þessu ári komi hún til Ítalíu. Lirfan er upprunalega frá Mið- og Suður-Ameríku en hefur dreift sér til Afríku og þaðan til Asíu. Í Kína er nú þegar mikill skaði af kornuglunni. Skordýrið hefur vetrarsetu á hlýjum suðrænum stöðum en getur flutt sig yfir stór svæði. Ef hún á að lifa af á Norðurlöndunum yrði það einna helst í gróðurhúsum því hún þolir ekki frost.