Úr Skorradal. Mynd H.Kr.
Fréttir 27. apríl 2020

Skortur á vinnuafli í skógrækt

Vilmundur Hansen

Hætta er á að vinnuafl muni skorta til skógræktarstarfa í sumar. Undanfarin ár hafa 15 til 20 erlendir nemar starfað hjá Skógrækt ríkisins og fengið starfið metið til náms. Útlit er fyrir að ferðatakmarkanir vegna COVID-19 komi í veg fyrir að svo verði næstkomandi sumar.

Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktar Íslands, segir að undanfarin ár hafi verið talsvert eftirsótt af erlendum skógræktarnemum að koma til Íslands í eins konar starfsnám. Nemarnir fá dagpeninga auk fæðis og húsnæðis og vinnuna metna sem starfsnám.

„Vegna stöðunnar eins og hún er í dag eigum við ekki von á að þessir nemendur komi til okkar í sumar. Nemarnir hafa unnið margs konar og fjölbreytt störf og eftirsjá í þeim ef þeir koma ekki.“ Pétur segir að ríkisstjórnin sé að undirbúa einhverjar aðgerðir sem snerta skógrækt en ekki sé vitað enn hverjar þær eru.