Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Óttast að svínapestin stökkbreytist og geti þá smitað manneskjur
Fréttir 15. apríl 2020

Óttast að svínapestin stökkbreytist og geti þá smitað manneskjur

Höfundur: Bondebladet - ehg

Norski prófessorinn Tore Midtvedt var nýlega í viðtali hjá Norsk veterinærtidsskrift sem norska Bændablaðið birti einnig þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af óstöðugleika afríkanskrar svínapestar og hræðist mest að hún geti stökkbreyst og smitað manneskjur. Mörg dæmi eru um, að sögn prófessorsins, að örverur skipta um og ráðast á aðra hýsla þegar það borgar sig fyrir þær.

Tore Midtvedt.

Prófessorinn Tore Midtvedt er orðinn 85 ára gamall og hefur stóran hluta af sínu lífi unnið á Karólínsku stofnuninni í Svíþjóð en þrátt fyrir aldur stundar hann enn í dag rannsóknir. Hann er þekktur fræðimaður í Noregi og hefur unnið til ýmissa viðurkenninga en einnig er hann þekktur fyrir að koma fram með skoðanir sem samstarfsmenn hans hafa oftar en ekki rifið í hár sitt yfir.

„Kínversk stjórnvöld hafa slátrað fleiri hundruð milljónum grísa og sama sér maður í öðrum löndum í Asíu. Í Evrópu og þá sérstaklega í Austur-Evrópu dreifist svínapestin á ógnarhraða. Þýsk og dönsk stjórnvöld hafa tekið þessu mjög alvarlega og byggt girðingar til að hindra að smitið dreifist með villisvínum yfir þeirra landamæri,“ segir Tore.

Útbreiðsla afrísku svínapestarinnar í Evrópu í nóvember 2019. 

Dreifist hratt með villisvínum

Prófessorinn segir að vírusinn sé svo óstöðugur að hann geti stökkbreyst og smitað manneskjur.
„Afrísk svínapest hefur alltaf verið til í Afríku, ekki eingöngu í svínum, heldur einnig í öðrum dýrategundum. Á meðan lítið var um verslunarskipti milli afrískra landa og restinni af heiminum var þetta eingöngu vandamál í Afríku. Svínapestin dreifði sér síðan til Evrópu fyrir nokkrum tugum ára og þá fyrst og fremst til Íberíuskagans. Með ýmsum ráðum tókst að útrýma sjúkdómnum,“ segir Tore og bætir við:

„Undanfarin 10–15 ár hefur vírusinn komið aftur til Evrópu og dreift sér hratt með villisvínum. Ef svínabændur og -ræktendur fá svínapestina inn á sín bú hafa þeir ekkert val því þá verður allur flokkurinn að aflífast og urðast. Sjálfur þekki ég norskan svínaræktanda í Kaliningrad sem þurfti að slátra öllum flokknum hjá sér, yfir 100 þúsund grísum. Vandamálið er svo víðfeðmt að heil atvinnugrein getur tapað milljörðum króna. Ástandið er sérstaklega slæmt fyrir ræktendur í Kína sem hafa slátrað um 300 milljónum svína af samtals 400 milljónum svo þetta eru miklar hörmungar.“

Sýkt svín í Beihai í Guangxi Zhuang-héraði í Kína rekin í gryfju til slátrunar  og urðunar þann 19. febrúar 2019. 

Svínahjörtu mögulega grædd í mannfólk

Tore bendir á að allar örverur þurfi að hafa einhvern stað til að vera á og bendir á líkindi með malaríu.

„Fyrir fleiri hundruð árum var malaría ekki sjúkdómur í manneskjum. Með auknum mannfjölda í afrísku heimsálfunni réðst malarían á mannfólk og aðlagaðist. Svínapestin hefur aðlagast nokkrum dýrategundum í Afríku og það er ekki óhugsandi að hún geti stökkbreyst yfir á okkur mannfólkið. Stökkbreytingin verður að hafa nýjan einstakling til að lifa í og síðan þarf einhver að smitast til þess að vírusinn geti lifað áfram,“ útskýrir prófessorinn og segir jafnframt:

„Fyrir 200 árum flutti sænski kóngurinn inn villisvín til Sví­þjóðar en hann hafði verið á villi­svínaveiðum í Evrópu og fannst þessi veiðimennska svo spennandi að hann fékk með sér flokk til Öland.

Eftir því sem árin liðu var flokknum smyglað yfir til meginlandsins og dreifði sér þar. Villisvínin flytja sig stöðugt og fyrir nokkrum árum fóru þau yfir landamærin til Noregs svo nú er stofninn nokkur þúsund dýr í Noregi.

Ef svínapestin myndi koma hingað og dreifa sér yrði það hræðilegt fyrir norska svínaræktendur. Margt er líkt með svínum og mannfólki og nú er rannsakað hvort hægt sé að nota líffæri úr svínum í manneskjur.

Svínapestsvírusinn margfaldar sig ekki sjálfur heldur í dýrinu sem það smitar. Það er ekki ólíklegt að vírusinn geti farið yfir í manneskjur en í dag eru fáar vísbendingar um að það geti gerst.

Fyrir nokkrum árum var ég í nefnd stjórnvalda þar sem við áttum að rannsaka hvort það væri rétt að taka líffæri úr dýrum og græða í manneskjur. Niðurstaða okkar var að svín væru hinn fullkomni gjafi. Þyngd og stærð á svínahjarta er það sama og í okkur mannfólki, eini munurinn er að svín ganga á fjórum fótum en við á tveimur. Einnig sáum við að það eru í raun fá gen sem þarf að breyta til að skapa hið fullkomna gjafahjarta frá svínum. Með nútíma genatækni er mögulegt að aðlaga svínahjörtu til manna en með aukinni útbreiðslu svínapestarinnar getur verið mikil áhætta í að græða svínahjörtu í mannfólk.“

Skylt efni: svínaflensa | svínapest

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.