Mynd/Bbl Höfuðstöðvar Matís í Reykjavík.
Fréttir 24. september 2019

Nýr stjórnarformaður Matís ohf.

smh

Hákon Stefánsson er nýr stjórnarformaður Matís ohf. Aðalfundur félagsins var haldinn í dag þriðjudaginn 24. september, eftir að hafa tvívegis verið frestað þrátt fyrir að í samþykktum félagsins sé kveðið á um að hann sé haldinn fyrir lok júní ár hvert. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað nýja stjórn fyrir félagið sem er opinbert hlutafélag og alfarið í eigu íslenska ríkisins.

Ný stjórn verður áfram skipuð þeim  Arnari Árnasyni, Drífu Kristínu Sigurðardóttur, Helgu Sigurrós Valgeirsdóttur, Sigmundi Einari Ófeigssyni, Sigrúnu Traustadóttur og Sindra Sigurðssyni. Hákon kemur nýr inn í stjórn í stað Sjafnar Sigurgísladóttur, fráfarandi stjórnarformanns. Hákon er lögmaður og stjórnarformaður Creditinfo.

Á aðalfundinum kom fram að tæplega 37 milljón króna tap var á rekstri félagsins á síðasta ári. 

Staða forstjóra félagsins var auglýst laus til umsóknar á dögunum og rann umsóknarfresturinn út í gær mánudag. Starfandi forstjóri er Oddur Már Gunnarsson sem tók við stöðunni þegar Sveini Margeirssyni var sagt upp störfum í byrjun desember á síðasta ári.

Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði matvæla og líftækni í þágu atvinnulífsins, matvælaöryggis og lýðheilsu; þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu.

Skylt efni: Matís