Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Einbreiðar brýr geta reynst óvönum ökumönnum hættulegar. Þær eru víða á Austurlandi.
Einbreiðar brýr geta reynst óvönum ökumönnum hættulegar. Þær eru víða á Austurlandi.
Mynd / Úr safni Austurbrúar
Fréttir 18. ágúst 2017

Nauðsynlegt að samgöngukerfið innan fjórðungsins sé boðlegt

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Við Austfirðingar þekkjum mæta­vel þá stöðugu samkeppni sem ríkjandi er um mannauð og atvinnutækifæri, höfum þurft að horfa á eftir fólki sem leitar betra lífs annars staðar.  Þessu viljum við með öllum ráðum breyta,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.  
 
„Hér er í gangi markviss stöðugreining og markaðssetning á Austur­landi sem ákjósanlegu svæði til búsetu, til að starfa í, heimsækja og til fjárfestingar. Á vegum Austurbrúar, sveitarfélaga á Austurlandi og fleiri aðila á fjórðungnum hefur á undanförnum árum verið unnið að verkefninu Áfangastaðurinn Austurland og er innleiðing þess nú í fullum gangi.“
 
Samgöngumál í brennidepli
 
Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmda-stjóri Austurbrúar.
Austurbrú er sjálfseignarstofnun, stofnaðilar eru 32 talsins, m.a. sveitarfélög á Austurlandi, háskólar landsins, helstu fagstofnanir, stéttarfélög, hagsmunasamtök atvinnulífs og framhaldsskólar. Austurbrú var stofnuð 8. maí 2012 og fagnaði því fimm ára afmæli sínu nýverið. Markmið með stofnun hennar var að vinna að hagsmunamálum íbúa Austurlands og að veita samræmda og þverfaglega þjónustu í tengslum við atvinnulíf, menntun og menningu. Austurbrú var fyrsta stofnun sinnar tegundar hér á landi. Á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofnun hennar hafa skipst á skin og skúrir, það hefur gefið á bátinn á stundum, jafnvel svo duglega að tvísýnt var um reksturinn um skeið. Hin síðari ár hefur ágætis jafnvægi náðst og reksturinn skilað hagnaði. Starfsmenn Austurbrúar eru 21 talsins og hefur Jóna Árný veitt félaginu forstöðu í þrjú ár.
 
Austurland nær yfir stórt landssvæði, frá Djúpavogi til Vopnafjarðar, og eru þéttbýlisstaðirnir á svæðinu alls 12. Til að svæðið virki sem ein heild þurfa samgöngur innan þess að vera greiðar og segir Jóna að samgöngumálin séu ávallt í brennidepli í fjórðungnum enda sé víða pottur brotin þegar að þeim málaflokki kemur. Fjölmörg brýn verkefni á sviði vegamála bíða úrlausnar áður en sá draumur Austfirðinga rætist að komast greiðfært á milli staða.
 
Staðirnir þurfa að tengjast saman
 
Íbúar Austurlands eru um 10.300 og sveitarfélögin innan fjórðungsins eru fimm talsins: Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Fjarðabyggð, Fljóts­dalshérað, Fljótsdalshrepp­ur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðis­fjarðarkaupstaður og Vopnafjarðar­hreppur. „Það skiptir okkur meginmáli að samgöngur milli staða séu eins og best verður á kosið, að staðirnir tengist saman og íbúar geti nokkuð óhindrað sótt atvinnu, heilsugæslu, nám, þjónustu og annað hvar sem er innan fjórðungsins. Góðar samgöngur eru forsenda þess að samfélagið fyrir austan virki og því leggjum við mikla áherslu á þann málaflokk, en vissulega er víða pottur brotinn og margt sem þarf að vinna til að staðan geti talist viðunandi.“ Jóna Árný bendir á að um 25% af vöruútflutningi landsins, m.a. sjávarfang, ál og fleira, komi frá Austurlandi „og því er nauðsynlegt að samgöngukerfið innan fjórðungsins sé boðlegt,“ segir Jóna.
 
Ný Norðfjarðargöng verða bylting
 
Nú hillir undir að ný Norðfjarðargöng verði tekin í notkun og segir hún að um verði að ræða byltingu í samgöngumálum fjórðungsins. Efnt var til málþings eystra í lok liðins árs þar sem m.a. var fjallað um þau áhrif sem göngin hefðu á atvinnulíf og samfélag. Jóna Árný var í hópi frummælenda og tók þann pólinn í hæðina að leita eftir sjónarmiðum unga fólksins, nemenda við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Það sé hópur sem mikið er á ferðinni og horfi oft á annan hátt á málin en hinir eldri. „Það verður gríðarleg samgöngubót þegar ný göng verða tekin í notkun og við hlökkum mikið til. Við opnun ganganna skapast fjölmörg tækifæri en ekki síst verður auðveldara fyrir okkur íbúa fjórðungsins að komast á milli staða. Fjórðungssjúkrahúsið er í Neskaupstað, eina skurðstofa landshlutans og fæðingardeild, þannig að brýnt er að aðgengi íbúa að staðnum sé gott,“ segir hún.
 
Samgöngur stækka atvinnu- og þjónustusvæði
 
Opnun nýrra Norðfjarðarganga, líkt og Fáskrúðsfjarðarganga áður, mun stækka atvinnu- og þjónustusvæðið á Mið-Austurlandi. „Fyrir okkur hér á svæðinu er mikilvægt að tengja byggðir saman með góðum samgöngum, það þarf að rjúfa þá einangrun sem oft verður að vetrarlagi þegar ófært er og að efla svæðið svo það virki sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði.  Aðstæður á Seyðisfirði eru þannig að vetrarlagi að við það verður ekki unað lengur. Það er afskaplega brýnt að haldið verði áfram rannsóknum á jarðgangakostum til að leysa einangrun Seyðisfjarðar. Það er næsta stóra verkefni á sviði jarðgangamála hér um slóðir,“ segir Jóna Árný.
 
Margir vegir beinlínis hættulegir
 
Á óskalista Austfirðinga eru ekki einungis jarðgöng. Mörg verkefni á sviði vegamála eru á þeim lista sem nauðsynlegt er að ráðast í og nefnir Jóna Árný þar m.a. lagningu slitlags á malarvegi sem víða er að finna og endurbyggingu vega, alltof margir vegakaflar séu beinlínis hættulegir vegfarendum, t.d. kaflar í kringum suðurfirðina, um Breiðdal og í Borgarfirði eystra, sama gildi um ýmsa vegi á Upphéraði. Umferðarþungi hafi vaxið í takt við aukinn straum ferðamanna og öryggi vegfarenda sé langt í frá viðunandi á þessu slóðum. Þá séu einbreiðar brýr of margar í fjórðungnum með tilheyrandi hættu.
 
Góðar samgöngur loftleiðina mikilvægar
 
Hún nefnir einnig annan samgöngumáta, flugið, sem einnig verði að horfa til þegar rætt er um samgöngumálin og er Austfirðingum afar mikilvægt. Greiðar samgöngur loftleiðina þurfi að vera fyrir hendi við höfuðborgarsvæðið, sem margir eigi erindi við s.s. vegna atvinnu  eða læknisþjónustu. Skipti því máli að tíðni flugferða sé næg og verðið fari ekki upp úr öllu valdi. „Það er nauðsynlegt að tíðni flugferða sé þannig að við getum nýtt okkur að fara dagsferðir suður til höfuðborgarinnar okkar, farið að morgni og komið að kvöldi. Á þessu getur verið misbrestur. Fjarlægðin milli okkar og höfuðborgarsvæðisins landleiðina er of mikil til að hægt sé að aka samdægurs fram og til baka,“ segir Jóna Árný. Hún nefnir að flugverð sé hátt, það dragi úr ferðagleðinni, færri ferðist því flugleiðis sem aftur verður til að dregið er úr tíðni. „Þetta verður vítahringur og mikil hindrun. Þessi staða er einmitt uppi núna og kemur sér illa fyrir samfélagið fyrir austan sem og annars staðar á landinu.“
 
Þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið
 
„Önnur lönd hafa unnið á þessu vandamáli og áhugaverðasta lausnin sem ég hef skoðað hefur verið nefnt „skoska leiðin“. Í henni felst að íbúar með lögheimili á svæðunum fái sérstakan stuðning til að nýta flug í félagslegum tilgangi og rökstuðningurinn er sá að þetta snúist um jafnrétti til þess að njóta þess sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða. Stuðningurinn nær bara til þess þegar fólk af þessum svæðum er að nýta flug í félagslegum tilgangi en ekki þegar fólk flýgur á vegum fyrirtækja eða stofnana. Þetta er mjög áhugaverð útfærsla sem Skotar hafa notað og það er mín skoðun að það sé þess virði að skoða með hvaða hætti hægt væri að útfæra hana fyrir Ísland. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið. Reynslu annarra landa eigum við að vera duglegri að nýta okkur til að vinna að uppbyggingu blómlegrar byggðar um allt land,“ segir Jóna Árný.
 
Nú í haust, í október, standa atvinnu­þróunarfélög á landsbyggð­inni, þ.m.t. Austurbrú og Byggða­stofnun, fyrir ráðstefnu þar sem sjónum verður beint að innanlandsfluginu sem almenningssamgöngum á Íslandi. Dagskráin er í mótun en líkt og yfirskriftin gefur til kynna verður rætt um mikilvægi flugs sem samgöngumáta fyrir landsbyggðina. 
 
Sameiginleg gátt að Austurlandi
 
Nú í mars síðastliðnum var opnaður nýr vefur; austurland.is sem er afrakstur verkefnisins Áfanga­staður­inn Austurland. Það hófst haustið 2014 og þá á vegum Ferðamála­samtaka Austurlands og snérist í fyrstu um ferðaþjónustu, en tók að sögn Jónu breytingum í vinnuferlinu. Fleiri komu að og verkefnið varð víðtækara, m.a. varð þáttur heimamanna í fjórðungnum ekki síður mikilvægur en það sem snéri að ferðafólki. Fengin var til liðs sænskur ráðgjafi sem unnið hafði að svipuðum málum erlendis. Afrakstur þessa verkefnis má sjá á hinum nýja vef, sameiginlegri gátt að Austurlandi, þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um landshlutann sem gagnast bæði heima- og ferðamönnum.
 
„Þessi vefur veitir innsýn í líf okkar og við væntum þess að hann muni með tímanum þróast í einskonar sameiginlega rödd okkar sem hér búum. Það má segja að kjarni þessa verkefnis sé sú trú okkar að við höfum frábæra náttúru, sögu, menningu, samfélög og fólk, að fjórðungurinn sé og verði okkur áfram endalaus uppspretta innblásturs. Við erum stolt af því að vera íbúar Austurlands,“ segir Jóna.
 
 

7 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...