Mynd/TB Guðrún Schmidt fræðslufulltrúi Landgræðslunnar.
Fréttir 21. febrúar 2020

Nægjusemi er ein af forsendum þess að ná tökum á loftslagsvandanum

Ritstjórn

Gestur í hlaðvarpi Landgræðslunnar að þessu sinni er Guðrún Schmidt fræðslufulltrúi Landgræðslunnar. Guðrún ræðir um loftslagsmál frá ýmsum hliðum og segir að Íslendingar megi gjarnan temja sér meiri nægjusemi – enda sé nægjusemi ein af frumforsendum þess að mannkyni takist að ná tökum á loftslagsvandanum. Sömuleiðis, segir Guðrún, verður að endurskoða hagkerfið sem þrífst fyrst og síðast á neyslu og aftur neyslu.

Um langt árabil hefur Guðrún unnið að verkefnum sem tengjast fræðslu og umhverfismálum og hefur lagt kapp á að fræða börn um þau. Þá hefur hún menntað sig á þessu sviði og var á sínum tíma í meistaranámi sem tók á menntun til sjálfbærni.

Kennsluefni og námskeið um umhverfis- og loftslagsmál

Guðrún hefur m.a. útbúið kennsluefni sem tekur á umhverfis- og loftslagsmálum og segir í viðtalinu að grunnskólakennurum, hvar svo sem þeir búa á landinu, sé velkomið að hafa samband við hana ef þá skortir kennsluefni og/eða hugmyndir á þessu sviði.

Guðrún er ein margra sem hafa unnið að undirbúningi námskeiða sem ganga undir heitinu Loftslagsvænn landbúnaður. Þessi námskeið eru að fara gang og í viðtalinu fjallar hún um þau – sem og námskeiðaraðar sem hún kom að á sínum tíma og var nefnd Betra bú. Sjálfbærnihugtakið kemur til umræðu í viðtalinu sem og fjölmargt annað.

Umsjónarmaður þáttarins er sem fyrr Áskell Þórisson, kynningarfulltrúi Landgræðslunnar.