Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Guðmundur Haukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vistorku, við undirritun samkomulagsins við starfsstöð Skógræktarinnar á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Guðmundur Haukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vistorku, við undirritun samkomulagsins við starfsstöð Skógræktarinnar á Akureyri.
Mynd / Akureyrarbær - Ragnar Hólm
Fréttir 27. maí 2020

Molta verður nýtt í landbúnaði, skógrækt og við landgræðslu

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Ráðist verður í tilrauna- og átaks­verkefni um nýtingu moltu í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi. Auk­inn kraftur verður settur í gróður­setningu Græna trefilsins ofan Akureyrar og grunnur verður lagður að Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.
 
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku, undirrituðu samkomulag um þetta samstarfsverkefni sem er hluti af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum og hefur verið flýtt vegna COVID-19 en með landgræðslu og skógrækt er stuðlað að aukinni bindingu kolefnis. 
 
Átakið er þríþætt og snýst um að nota moltu til skógræktar og landgræðslu í umhverfi Akureyrar, til landgræðslu á Hólasandi og við repjurækt í Eyjafirði. 
 
Af þessum verkefnum er skógrækt og landgræðsla í kringum Akureyri einna stærst að umfangi. Leggja á grunn að Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli þar sem gerð er tilraun til trjáræktar og landgræðslu á rýru svæði yfir 500 metrum.
 
Háskólanemar ráðnir í átaksvinnu
 
Einnig á að leggja grunn að 135 ha skóglendi á um 700 ha landsvæði til útivistar við Græna trefilinn sem Akureyrarbær hefur skilgreint við efri bæjarmörkin. Stefnt er að því að ráða allt að 10 háskólanema í sumar í átaksvinnu sem felst meðal annars í undirbúningi svæða, gróðursetningu, girðingavinnu og dreifingu á moltu. Gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta um 1.800 m³ af moltu á Glerárdal í þessum hluta verkefnisins. 
 
Þá verður molta flutt á valda staði á Hólasandi og nýtt þar sem áburður á birki. Þriðja verkefnið snýst um repjuræktun í Eyjafirði og er þar um að ræða tveggja ára verkefni sem hefst í júlí næstkomandi. Molta verður notuð við repjurækt og gert ráð fyrir ræktun bæði sumar- og vetrarrepju. 
 
Umhverfis- og auðlindaráðu­neytið styður verkefnin fjárhags­lega en Vistorku er falið að framkvæma þau í samstarfi við Akureyrarbæ, Orkusetur, Moltu, Skógræktina, Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands.
 
Að undirritun lokinni gróðursetti ráðherra vefjaræktaða rauðblaða birkiplöntu í garðinn við Gömlu Gróðrarstöðina. Ásthildur bæjarstjóri og Brynjar Skúlason frá Skógræktinni fylgjast með. Myndir / Akureyrarbær - Ragnar Hólm
 
 
Bann við urðun lífræns úrgangs í farvatni
 
Stjórnvöld stefna að banni við urðun lífræns úrgangs, enda er hún kostnaðarsöm og veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Mikill meiri­hluti losunar vegna meðhöndlunar úrgangs kemur til vegna losunar metans og annarra gróðurhúsalofttegunda við niðurbrot lífbrjótanlegra efna. Stórbæta má nýtingu á lífrænum úrgangi, m.a. með því að vinna úr honum moltu. Molta hefur verið prófuð í landgræðslu og skógrækt en skoða þarf nánar hvernig hún reynist við mismunandi aðstæður. 
 
80% heimila á Akureyri flokka lífrænan úrgang
 
Kraftmolta er lífrænn áburður og jarðvegsbætandi efni sem verður til þegar lífrænn úrgangur rotnar. Framleiðslan á Norðurlandi fer fram hjá Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit og er Akureyrarbær meðal stærstu eigenda félagsins. Hráefni fæst einkum frá kjötvinnslum, sláturhúsum, fiskvinnslum auk lífræns úrgangs frá heimilum.  Akureyringar hafa náð góðum árangri í flokkun og endurvinnslu. Á undanförnum árum hafa um 80% heimila á Akureyri flokkað allan lífrænan úrgang.
Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...