Ástandinu í svínaeldi í Nígeríu um þessar mundir er lýst þannig að sprenging hafi átt sér stað í útbreiðslu afrískrar svínapestar.
Fréttir 09. júlí 2020

Milljón svínum lógað í Nígeríu

Vilmundur Hansen

Talið er að um milljón svínum hafi verið lógað í Nígeríu undanfarna daga í einu versta svínapestartilfelli sem komið hefur í langan tíma. Lítið eftirlit í landinu er sögð helsta ástæða þess að pestin hafi náð mikilli útbreiðslu á skömmum tíma.

Ástandinu í svínaeldi í Nígeríu um þessar mundir er lýst þannig að sprenging hafi átt sér stað í útbreiðslu afrískrar svínapestar. Pestarinnar varð fyrst vart í nágrenni höfuðborgarinnar Lagos fyrr á þessu ári en hefur síðan þá breiðst út um nánast allt landið.

Talsmaður stærsta svínaræktanda í Vestur-Afríku segir að á búum fyrirtækisins sé þegar búið að lóga um hálfri milljón svínum og hátt í milljón í landinu öllu.

Svínapest er engin nýlunda í Afríku og vitað er um að minnsta kosti 60 misalvarleg tilfelli hennar frá 2016 til 2019 en ekkert þeirra er sagt viðlíka útbreitt og faraldurinn sem gengur yfir Nígeríu núna.

Dæmi eru um að bú hafi þurft að lóga öllum sínum svínum og kemur slíkt verst niður á fátækum smábændum sem reiða sig á svínaræktina til að sjá sér og sínum farborða.

Svínapestin í Nígeríu í kjölfar COVID-19 er ekki við bætandi í landi þar sem fátækt er mikil og heilsugæsla og matur er víða af skornum skammti.