Hermann Ingi Gunnarsson, nautgripa­bóndi í Klauf í Eyjafjarðasveit, er nýr í stjórn Bændasamtaka Íslands.
Fréttir 25. mars 2020

Mikilvægt að sameina bændur í eitt félag

Vilmundur Hansen

Hermann Ingi Gunnarsson, nautgripa­bóndi í Klauf í Eyjafjarðasveit, er nýr í stjórn Bændasamtaka Íslands. Hann telur mikilvægt að bændur þétti raðirnar og standi saman að málefnum stéttarinnar og landbúnaðar í landinu.

„Ég er fæddur og uppalinn á Svertingsstöðum. Ég kom að Klauf sem ungur vinnumaður og þar kynntist ég konunni minni, Ingibjörgu Leifsdóttur, og ílengdist og hef ekki farið héðan síðan.“

Tækifæri til að breikka stjórnina

Hermann segist lengi hafa haft áhuga á félagsmálum og unnið að þeim meðfram búskap.

„Ég er í sveitarstjórn og nefndum sem tengjast þeim. Það var svo sem ekki á langtímaplaninu að komast í stjórn Bændasamtakanna en svona geta málin þróast. Þegar ég frétti að fyrri stjórnarmenn ætluðu ekki að bjóða sig fram til endurkjörs sá ég fram á tækifæri á að breikka stjórnina og fá inn fulltrúa kúabænda og ákvað að bjóða mig fram.“

Að sögn Hermanns hafði hann áður lýst því yfir að hann væri til í að sitja í stjórn BÍ og að hann hafi boðið sig fram að þessu sinni og fengið kosningu.

Kýr og korn

„Við tókum við búinu fyrir sjö árum og erum með 60 kýr og eitthvað af kálfum í uppeldi. Auk þess sem við ræktun þó nokkuð af korni, hveiti og rúg og ræktunin hefur gengið vel. Hveitiræktunin gaf vel af sér í fyrra og þeir sem sem unnu úr því kjarnfóður fyrir okkur sögðu að það væri með því besta hveiti sem þeir höfðu séð hvað rúmþyngd varðar.“

Þurfum að þétta raðirnar

„Verkefnin fyrir nýja stjórn BÍ eru ærið mörg en í mínum huga er það mikilvægasta að sameina bændur í eitt sterkt, vel fjármagnað og vel starfhæft félag sem nær kröftum sínum aftur.

Önnur mál sem brenna á okkur eru kjör bænda, tollamálin, sala afurða, nýsköpun og menntun svo eitthvað sé nefnt. Allt skiptir þetta máli en til að byrja með þurfum við að þétta raðirnar og ákveða hvert við stefnum,“ segir Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi í Klauf og nýr stjórnarmaður Bændasamtaka Íslands. 

Erlent