Fréttir 07. júlí 2020

Metaðsókn í landslagsarkitektúr og lífræna ræktun matjurta

Vilmundur Hansen

Mikill fjöldi umsókna hefur borist Landbúnaðarháskóla Íslands bæði í háskólanám og starfsmenntanám skólans. Aðsóknin í grunnám (BS) við skólann jókst um 51,1% á milli ára.

Aukningin er hlutfallslega langmest í BS-nám í landslags­arkitektúr, þar nemur aukningin 240% á milli ára, fjölgun umsókna í garðyrkjunám á Reykjum nam 45% og  umsóknum í búvísindanám fjölgaði um 40%.

Við skólann er einnig boðið upp á framhaldsnám til meistara- og doktorsgráðu. Á meistarastigi er boðið einstaklingsmiðað rann­sóknanám og starfsmiðað meistara­nám í skipulagsfræði. Í skipulags­fræði er mikil aukning frá því í fyrra en 18 eru skráðir til náms á fyrsta ári í haust, en til saman­burðar voru sjö nemendur árið áður. Nemendum í doktorsnámi hefur fjölgað á undanförnu ári og hafa aldrei verið fleiri en nú. Þá vörðu tveir nemendur doktorsritgerðir sínar nú í júnímánuði.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, segir það mikið gleðiefni að sjá hversu mikinn áhuga ungt fólk sýnir námi í Landbúnaðarháskóla Íslands og hversu dreifing umsókna er mikil. „Það er gaman að sjá aukinn áhuga á búvísindanámi, en þar hefur orðið aukning um 40% milli ára. Mikilvægt er að fjölga vísindamönnum á breiðu sviði búvísinda, en þar hefur skort á nýliðun á undanförnum árum. Þá er greinilegt af umsóknum til brautar náttúru- og umhverfisfræða að áframhaldandi áhugi er á sjálfbærri þróun og jafnvægi verndunar og nýtingar. Þá gleður það mig sérstaklega að sjá þessa miklu fjölgun umsókna í starfsmenntanámið okkar, bæði á Hvanneyri og á Reykjum. Aldrei hafa fleiri sótt um að komast að í garðyrkjunámi á Reykjum og færri komast að en vilja í búfræði.

Það er því bjart fram undan hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og ljóst að öflugt starf, spennandi námskrár og markvisst kynningarstarf skólans er að skila góðum árangri.“

Landbúnaðarháskóli Íslands býr við þá sérstöðu að bjóða bæði upp á háskólanám og starfsmenntanám á framhaldsskólastigi. Aðsókn í starfsmenntanám skólans sló öll fyrri met í vor með samtals 280 umsóknum.

Má þar sérstaklega nefna góða aðsókn í garðyrkjunám á Reykjum þar sem 136 umsóknir bárust og hafa þær aldrei verið jafnmargar í sögu skólans. Flestir sækja um í lífræna ræktun matjurta en þar sóttu 45 nemendur um nám. Aðsókn er einnig góð í ylrækt, með 26 umsóknir, og 10 í garð- og skógarplöntuframleiðslu.