Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Norður-Ronaldsay er nyrsta eyjan í Orkneyjaklasanum.
Norður-Ronaldsay er nyrsta eyjan í Orkneyjaklasanum.
Fréttir 21. janúar 2020

Lykillinn að vistvænni búskap

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hjá breska ríkisfjölmiðlinum BBC var umfjöllun þann 3. janúar síðastliðinn um sauðfé á Norður-Ronaldsay sem er nyrst í Orkneyjaklasanum norður af Skot­landi. Er talið  að þangát fjárins geri að verkum að það losi mun minna af metangasi en jórturdýr sem einungis nærast á grasi.
 
Um 50 manns búa nú á Norður-Ronaldsay og þar eru 2.000 kindur. Síðan á 19. öld, þegar Eyjamenn byggðu steinvegg til að takmarka hjörðina við ströndina, hefur hún lifað á þangi einu saman – og nú virðist sem þessi sérstaka fæða geti verið lykillinn að því að gera búfjárrækt grænni og loftslagsvænni.
 
Þetta er í samræmi við rannsóknir sem BBC bendir á og gerðar hafa verið í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum. Áður hefur verið greint frá þeim í Bændablaðinu. 
 
Fé í fjörubeit á Norður-Ronaldsay. 
 
Sauðfé haldið frá túnbeit
 
Í Bændablaðinu hefur áður verið fjallað um búskaparhætti í þessari eyju þar sem sauðfé er nær ein­göngu haft í fjörubeit. Í 17. tbl. Bændablaðsins 2014 var rætt við fjárbóndann og verkfræðinginn Sinclair Scott frá Norður-Ronaldsay, sem þá hélt fyrirlestur á Blönduósi á ráðstefnunni  „North Atlantic Native Sheep and Wool Conference“.  
 
Sagði Sinclair m.a. að á North Ronaldsay sé hlaðinn steingarður í kringum nær allt ræktarland eyjunnar. Er kindunum haldið á litlu undirlendi utan garðsins og lifa þær að verulegu leyti á fjörubeit og þangi. Í gegnum tíðina hafa þær aðlagast mikilli fjörubeit, þannig að þeim verður ekki meint af þeirri efnasamsetningu sem í þaranum er sem íslenskar kindur myndu t.d. ekki þola í sama mæli. 
 
Sinclair sagði að um árið 1700  hafi búið á eyjunni um 200 manns. Þar sem jarðnæði var ekki mikið þurfti að nýta allt land sem hægt var undir nautgripi og annan bústofn og þá var ekki eftir neitt pláss fyrir sauðféð. Var því allt ræktarland girt af og mönnum vísað með féð niður í fjöru og á þá litlu grasbala sem þar voru. Það var því fátt annað fóður í boði fyrir sauðféð en þari.
 
Steinefnainnihald þarans er mjög ólíkt því sem er að finna í grasinu sem var á eyjunni. Grasið iniheldur kopar en þarinn ekki sem getur valdið vandamálum við fóðrun sauðfjár. Eins og menn þekkja á Íslandi þá myndi fé sem lifir mikið á þara fljótlega veikjast af koparskorti og fá það sem kallað er fjöruskjögur. Kindurnar á Norður-Ronaldsay aðlöguðust þessu umhverfi þó á tiltölulega skömmum tíma og virðast nú lausar við þetta vandamál.
 
Hér má sjá útlínur garðhleðslunnar sem halda fénu frá ræktarlandi eyjunnar þannig að féð hefur einungis beitarland í og við fjöruna. 
 
Hættar að þola grasbeit
 
„Þangið inniheldur mikið af steinefnum en skortir þó kopar. Ef við myndum beita fénu í dag á graslendi eyjunnar, þá myndi það hreinlega drepast af kopareitrun, þrátt fyrir að koparinnihald í grasinu sé ekki mjög mikið,“ segir Sinclair.
 
„Féð er orðið svo aðlagað fæð­unni sem fæst í fjörunni sem er nær eingöngu þari. Ef við fóðruðum þær á blöndu af grasi og þara, þá tæki það kindurnar væntanlega ekki nema nokkur ár að aðlaga sig að grasinu á nýjan leik. Við höfum reynslu af slíkri aðlögun hjá fé sem var með gin- og klaufaveiki og var sent í einangrun til Englands. 
 
Þegar komið er fram undir lok sumars er enga grasbeit að hafa fyrir kindurnar og þær lifa því nær eingöngu á þara. Þarinn er mestur á haustin og þá fitnar sauðféð mest. Úti fyrir ströndinni eru rif þar sem mikið vex af þara á sumrin. Þegar veður versnar slíta öldurnar upp þennan þara og hann berst á land þar sem kindurnar ná honum. Þær verða þó að sæta sjávarföllum því um sjö metra munur er á sjávarstöðu á milli flóðs og fjöru.“
 
Aðeins eitt lamb fær að lifa undan hverri kind
 
Sinclair Scott, fjárbóndi og verkfræðingur frá Norður-Ronaldsay. Mynd / HKr. 
Sinclair var sjálfur með um 100 kindur í samvinnu við bróður sinn. Hann sagði í viðtalinu 2014 að þá hafi verið um 2.400 kindur á eyjunni, en nú eru þar um 2.000 fjár samkvæmt greininni í BBC. Taldi Sinclair að fjörubeitin gæti alveg borið 3.500 fjár. 
 
Ærnar eru flestar tvílembdar við burð, sem venjulega fer fram í apríl, aðallega frá 15. apríl til loka mánaðarins. Til að tryggja að ærnar geti örugglega komið lömbum á legg við erfið lífsskilyrði, þá hefur skapast sú venja að drepa annað lambið við burð. Er það kallað „culling“ sem merkir eiginlega hvort tveggja að færa lömb frá við burð og drepa. 
 
Ástæðan fyrir þessu er líka sú að á Norður-Ronaldsay er  lömbum ekki slátrað á haustin eins og þekkist á Íslandi, enda yrði fallþungi dilkanna vart meiri en 11 kg að sögn Sinclairs og í allra mesta lagi 15 kg. Lömbin eru því alin áfram og er kindunum þá ekki slátrað fyrr en þær eru fullvaxnar og orðnar um fimm ára gamlar. Þá er fallþungi þeirra um 22 til 23 kg.  
 
Hrútarnir fá að lifa til hárrar elli
 
Sum hrútlömb sem látin eru lifa eru gelt undir lok fyrsta sumarsins og kallast þá „wethers“. Þeim er heldur ekki slátrað fyrr en um fimm ára aldur. Aðrir hrútar sem notaðir eru til að halda stofninum við fá að lifa allt þar til þeir drepast úr elli. 
 
„Þá eru þeir kannski 14 til 15 ára gamlir. Þá fær náttúran einfaldlega að sjá um hræið. Venjulega tekur sjórinn þau eða hræin verða að fæðu fyrir urmul sjófugla sem eru á eyjunni auk refs,“ sagði Sinclair í viðtalinu við Bændablaðið haustið 2014. 

Skylt efni: Orkneyjar | fjörubeit

Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...