Fréttir 03. júlí 2020

Lúsmý

Vilmundur Hansen

Samkvæmt því sem ég heyrði á RÚV, útvarpi allra lands­manna, í vor fer lúsmý yfirleitt á stjá í júní. Útbreiðsla lúsmýs í heiminum er mest í Mið- og Norður-Evrópu og austur í Rússlandi. Á Íslandi er útbreiðsla þess mest á Suðvestur­landi, í Borgarfirði og í Fljótshlíð. Tími lúsmýs er frá því snemma í júní og til loka ágúst.

Á heimasíðu Náttúru­fræði-stofnunar Íslands er að finna greinargóðar og gagnlegar upplýs­ingar um lúsmý og útbreiðslu þess. Er það sem á eftir fer er að mestu fengið þaðan. 

Lúsmý er blóðsuga á mönnum og öðrum spendýrum. Kvendýrin þurfa blóð til að þroska egg sín. Að öðru leyti eru lífshættir þessarar tegundar nánast óþekktir. Ekki er vitað hvort um sé að ræða eina kynslóð yfir sumarið eða tvær en flugtíminn er langur og gæti bent til að um tvær kynslóðir sé að ræða.

Í lok júní 2015 fór að bera á óvæntum bitvargi í sveitum beggja vegna Hvalfjarðar. Á örfáum dögum varð fólk í sumarhúsum í Kjós og Svínadal fyrir skordýrabitum sem aldrei fyrr og kannaðist enginn við að neitt viðlíka hefði gerst áður.

Þegar lúsmý fyrst blossaði upp sem illvígur bitvargur sumarið 2015 beindist athyglin að Kjósinni og Svínadal norðan megin Hvalfjarðar. Í kjölfarið tóku ábendingar að berast víðar að af Suðvesturlandi, og Laugardal og Biskupstungum í uppsveitum Suðurlands.

Strax þótti ólíklegt að nýr landnemi birtist á þennan hátt á einu sumri. Var líklegra talið að breytingar á veðurfari hafi orðið þess valdandi að lúsmýið komst yfir þröskuld og náði sér á ærlegt flug. Í ljós kom að þetta skot var ekki bundið við þetta eina sumar. Sagan endurtók sig árið eftir og var þá sama svæði undir og útbreiðslusvæðið hafði stækkað og er lúsmý núna plága víða um land.

Lúsmý leggst einkum á fólk í svefni, sækir inn um opna glugga á kvöldin og nóttunni. Það þarf lognstillur til að athafna sig, hverfur ef vindur blæs. Þéttvaxinn garðagróður í byggð skapar skjól og hagstæð lífsskilyrði fyrir lúsmý, einnig hávaxinn trjágróður umhverfis sumarhús. Þekkt er tilfelli þar sem fólk í umgirtu sumarhúsi varð illa útleikið á meðan fólk í nálægu húsi þar sem enginn var skjólgarðurinn slapp að mestu.

Með ofurnæmum skynjurum skynja flugurnar koltvísýring frá útöndun fólks og staðsetur blóðgjafa sína. Líkamshlutar sem standa berir út undan sængum, svo sem andlit og herðar, handleggir og fótleggir gefa flugunum sóknar­færi.

Fljótlega eftir bit koma fram bólur og útbrot með tilheyrandi óbærilegum kláða sem staðið getur yfir í allnokkra daga. Þá er ráðlegt að bera á húðina kælikrem og jafnvel taka inn ofnæmislyf.

Til að verjast lúsmýi enn frekar er ráðlegt að hafa glugga lokaða, til vara að líma mjög fínriðið gardínuefni fyrir opnanleg fög á flugtíma mýsins. Vifta sem heldur lofti á hreyfingu í svefnherbergi kann að hjálpa, hugsanlega einnig vifta sem blæs út á móti opnum gluggum. Ráðlegt er að sofa í náttfötum. Því hefur verið haldið fram að þessar agnarsmáu og veikbyggðu mýflugur bíti í gegnum fatnað en svo er ólíklegt.