Mynd/HKr. Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda var haldinn í Bændahöllinni 4.–5. apríl 2019.
Fréttir 12. apríl 2019

LS skorar á Alþingi að beita sér af fullum þunga til að tryggja lýðheilsu

HKr.
Aðalfundur Landssamtaka sauð­fjárbænda (LS), sem haldinn var á Hótel Sögu 4.–5. apríl 2019, harmar niðurstöðu EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar varðandi innflutning á ófrosnu kjöti til landsins. Fundurinn skorar á Alþingi Íslendinga að beita sér af fullum þunga fyrir aðgerðum sem tryggja lýðheilsu þjóðarinnar og vernda einstaka sjúkdómastöðu íslenskra búfjár­stofna við meðferð frumvarps til laga, mál nr. 766 um innflutning búfjárafurða o.fl. 
 
Á aðalfundinum var samþykktur fjöldi ályktana er varðar hagsmuni bænda. Þar á meðal hafnaði aðalfundurinn hugmyndum um sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS rann­sókn­arsjóðs í sjávarútvegi undir hatti matvælasjóðs. Segir í álykt­uninni að Framleiðnisjóður hafi mikilvægu hlutverki að gegna í byggðalegu samhengi, sérstaklega í tengslum við styrkveitingar til nýsköpunarverkefna á vegum bænda. Þá segri í greinargerð með samþykktinni:
 
„Í greinargerð lagafrumvarps um afnám frystiskyldu kemur fram að unnið sé að sameiningu m.a. Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi með það að markmiði að koma á fót einum öflugum matvælasjóði sem styður betur við nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu. Framleiðnisjóður styður ýmis viðfangsefni önnur en þau er lúta beint að matvælaframleiðslu, t.a.m. uppbyggingu ferðaþjónustu í dreifbýli, námsstyrki til masters­nema á sviði landbúnaðar, skógræktar- og landgræðsluverkefni og mikilvæg framfarverkefni á ýmsum sviðum landbúnaðar, sem ekki koma öll matvælaframleiðslu beint við.“