Fréttir 30. júlí 2020

Korta hafnar ásökunum um ólögmætar aðgerðir

Vilmundur Hansen

Bændablaðið leitaði til greiðslu­miðlunarfyrirtækisins Korta vegna fullyrðinga um að fyrirtækið héldi eftir kreditkortagreiðslum vegna fyrirframgreiddrar þjónustu.

Í yfirlýsingu frá Korta segir: „Korta bendir á að vegna COVID-19 faraldursins og áhrifa á ferðaþjónustuaðila hafi félagið kallað eftir upplýsingum um fyrirframsölu frá viðskiptavinum og framkvæmt nýtt áhættumat, sem í sumum tilvikum hafi haft áhrif á uppgjörstíðni.

Langflestir viðskiptavinir hafi sýnt þessum aðgerðum skilning. Aðeins hafi fáeinir aðilar neitað að skila gögnum.

Ástæða aðgerðanna er möguleg endurkröfuáhætta Korta vegna fyrirframsölu ferðaþjónustuaðila. Sú meginregla gildir í viðskiptum að neytandi sem hefur greitt fyrir þjónustu sem hann fær ekki notið, á eftir atvikum og að uppfylltum skilyrðum hverju sinni, rétt til endurgreiðslu. Þessi regla er meðal annars áréttuð í skilmálum alþjóðlegu greiðslukortafyrirtækjanna, Visa og Mastercard, sem færsluhirðar eins og Korta starfa eftir, og er grundvöllur þess trausts sem notkun greiðslukorta byggir á. Í þessu felst að korthafi getur gert kröfu um endurgreiðslu þjónustu sem greitt hefur verið fyrir, ef söluaðili getur af einhverjum ástæðum ekki veitt þjónustuna, burtséð frá afbókunarskilmálum bókunar.

Af þessum sökum áskilur Korta sér, líkt og aðrir færsluhirðar, rétt til að kalla eftir upplýsingum og framkvæma áhættumat til að meta endurkröfuáhættu. Korta hafnar því að aðgerðir félagsins stangist á við lög eða séu óeðlilegar. Þvert á móti eru heimildir til upplýsingaöflunar og til að halda eftir uppgjöri í fullu samræmi við lög um greiðsluþjónustu og reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Aðgerðirnar byggja á skýrum ákvæðum í skilmálum Korta og verklagi sem viðhaft er hjá færsluhirðum um heim allan. Slíkar heimildir eru enn fremur eðlilegar til að gera Korta kleift að hafa skýra yfirsýn yfir endurkröfuáhættu félagsins gagnvart söluaðila og til að takmarka áhættu.

Mikils misskilnings gætir í um­ræð­unni um eðli færsluhirðingar og endurkröfurétt korthafa. Félagið hefur fullan skilning á erfiðum aðstæð­um margra ferðaþjónustuaðila og hefur eftir fremst megni reynt að taka tillit til þeirra við úrlausn mála.

Korta áréttir að allir fjármunir sem félagið móttekur eru tryggilega varðveittir á sérgreindum vörslureikningi í samræmi við gildandi lög.“