Fréttir 27. desember 2018

Kjarreldar og hvassviðri

Vilmundur Hansen

Íbúar og slökkviliðsmenn í Qeensland í Ástralíu berjast við fjölda skógarelda sem hafa kviknað vegna mikilla hita í fylkinu. Ekki bætir úr að hvassir vindar breiða eldinn hratt út og torvelda slökkvistarf.

Áætlað er að barist sé við yfir 110 misstóra kjarrelda sem loga vítt og breitt um mitt Qeensland í Ástralíu. Íbúum margra þorpa í fylkinu hefur verið gert að yfirgefa heimili sín og víða hafa hús brunnið.  Fulltrúi slökkviliðsmanna segir að erfiðast sé að hefta útbreiðslu eldanna yfir hádaginn þegar hitinn er mestur. Hvass vindur eykur einnig á útbreiðslu eldanna og erfitt að átta sig á hvar kvikni í næst. Vindurinn gerir það einnig að verkum að eldurinn getur farið hratt yfir stór svæði í snörpum hviðum. Til að gera slökkvistarfið enn erfiðara er víða skortur á vatni þar sem eldarnir loga.

Skylt efni: Ástralía | kjarreldar