Mynd/TB
Fréttir 07. desember 2019

Jón Gnarr stýrir hlaðvarpsþætti um smáauglýsingar Bændablaðsins

Ritstjórn

Jón Gnarr ríður á vaðið með fyrsta hlaðvarpsþátt Bændablaðsins þar sem hann ræðir um smáauglýsingar og viðskipti með nýja og notaða hluti. Þátturinn, sem ber heitið Kaupfélagið, verður á dagskrá í kjölfar prentútgáfunnar og mun Jón fara yfir smáauglýsingarnar, ræða sín hugðarefni og jafnvel hringja í nokkra auglýsendur sem hafa eitthvað áhugavert fram að færa.

„Margt sem ég hef séð auglýst í Bændablaðinu eru hlutir sem ég veit ekkert hvað er. Hvað er haugsuga? Ég veit ekkert almennilega hvað haugsuga er en ég er alveg til í að spjalla við einhvern sem getur sagt mér allt um haugsugur,“ segir Jón.

Hann segir það ekkert launungarmál að hann sé dyggur lesandi Bændablaðsins. „Það er í raun eina blaðið sem gefið er út á Íslandi í dag sem ég tek og les. Ég tek Bændablaðið og ég sest niður með Bændablaðið og les það. Mér finnst áhugaverðrar greinar í Bændablaðinu og mér finnst vitrænar greinar í því og oft inni á mínu áhugasviði, sem er líf og tilvera á Íslandi, um hluti sem mér eru hugleiknir.“ Í fyrsta þætti Kaupfélagsins kemur m.a. fram einlægur áhugi Jóns á moltugerð sem hann sinnir af mikilli innlifun og festu.


Jón Gnarr er dyggur lesandi Bændablaðsins.

Myndi aldrei kaupa notuð nærföt

Jón segir að það sé ástríða hjá honum að kaupa notaða hluti og hann hafi hingað til fengið fá tækifæri til þess að tala um hana. „Ég hef þráhyggju fyrir því að kaupa notað og að gera góð kaup. Það er bara þráhyggja sem ég hef og ef mig vantar eitthvað, það getur eiginlega verið hvað sem er, nema kannski nærföt, þá reyni ég að kaupa það notað. Ég mundi aldrei kaupa notuð nærföt, ég held ekki. En ég væri alveg til í að tala við einhvern sem væri að selja notuð nærföt, bara til að heyra hvers konar manneskja það væri.“

Eiginkonan samþykkir ekki öll kaup

Kaupfélagsstjórinn segir frá því í þættinum að hann hafi síðast farið í Góða hirðinn til þess að leita að etanólbrennara en komið heim með brauðrist. Það hafi reynst góð kaup og eiginkonan, Jóga, hafi verið hæstánægð með gripinn. „Ég er virkur á Bland og ég er líka á Brask og brall og fer reglulega í Góða hirðinn og kaupi eitthvað þar,“ segir Jón sem viðurkennir í þættinum að fá ekki alltaf blíðar móttökur á heimilinu eftir leiðangra í Góða hirðinn.

Hlaðvarp Bændablaðsins hefur nú göngu sína en á næstu vikum munu bætast við fleiri þættir um fjölbreytt málefni sem snúa að landbúnaði. Þættirnir verða í fyllingu tímans aðgengilegir í helstu hlaðvarpsveitum og á bbl.is.