Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fulltrúar Íslands á Heimsmeistaramóti smalahunda í Hollandi voru þau Elísabet Gunnarsdóttur með tíkina Pöndu og Aðalsteinn Aðalsteinsson með tíkina Frigg.
Fulltrúar Íslands á Heimsmeistaramóti smalahunda í Hollandi voru þau Elísabet Gunnarsdóttur með tíkina Pöndu og Aðalsteinn Aðalsteinsson með tíkina Frigg.
Mynd / AJH
Fréttir 17. ágúst 2017

Íslenskir keppendur mættu til leiks á HM í fyrsta skipti

Höfundur: Aðalsteinn J. Halldórsson
Smalahundafélag Íslands (SFÍ) varð aðildarfélag að alþjóðlegum samtökum Border Collie fjárhunda (ISDS) árið 2015. Í kjölfarið var félaginu boðið, í fyrsta skipti í sögu félagsins, að senda fulltrúa fyrir Íslands hönd á ISDS heimsmeistaramót Border Collie fjárhunda sem að þessu sinni var haldið í Hollandi 13. til 16. júlí sl.
 
Er þetta í fyrsta skipti sem keppnin er haldin utan Bretlands. Heimsmeistaramótin eru haldin þriðja hvert ár en í ár voru 243 hundar skráðir frá 30 löndum. Fulltrúar Íslands voru Aðalsteinn Aðalsteinsson með tíkina Frigg og Elísabet Gunnarsdóttur með tíkina Pöndu.
 
Strangar reglur um flutning á milli landa
 
Yfirstíga þurfti ýmsar hindranir til að þátttaka Íslands gæti orðið að veruleika og einsýnt að þetta yrði bæði dýrt og tímafrekt. Íslensku keppendurnir voru engu að síður ákveðnir í að láta þetta ganga upp og leita lausna og leiða þannig að Ísland gæti nýtt þátttökurétt sinn. Reglur um innfluttning hunda til Íslands eru mjög strangar og því var ekki hægt að koma með hundana beint heim aftur að keppni lokinni. Fyrst þurfa þeir að dvelja í mánuð úti eftir keppnina og í kjölfarið, eftir að þeir koma heim,  þurfa hund­arnir að fara mánuð í einangrun. Frigg og Panda eru báðar með afar gott geðslag og virðast ætla að takast á við allt þetta umstang vel. 
 
Keppnin
 
Keppt var á þremur völlum í tvo daga. Þeir 7 (af 40 keppendum) sem voru með hæst skor eftir hvern dag á hverjum velli komust áfram í undanúrslit á þriðja degi, og þeir 16 sem voru stigahæstir þar komust áfram í úrslit á fjórða degi. Aðalsteinn keppti á velli 3 fyrsta daginn og Elísabet á velli 1 annan daginn. Alli hlaut 118 stig og Lísa 136. Stigin sem íslensku keppendurnir sáu hvað mest eftir töpuðust í úthlaupinu hjá Frigg sem krossaði og síðustu skiptingunni hjá Pöndu sem féll á tíma og varð til þess að lítið eða ekkert fékkst fyrir þessa liði. Annað gekk nokkuð vel og með smá meiri heppni hefði þetta stigaskor verið fljótt að breytast, en svoleiðis er það auðvitað alltaf. Að minnsta kosti 158–186 stig þurfti til að komast í undanúrslit en það var aðeins breytilegt eftir völlum og dögum. Tveir dómarar dæmdu hverja braut í forkeppninni og meðaltal mótsins í þessum forkeppnum var um 127 stig. Fullt hús stiga var 220 stig (2x110 stig) en hæst voru gefin 202 stig. Dómgæslan var ströng eins og við var að búast og refsað fyrir allt sem var minna en fullkomið. Fimm nýir dómarar dæmdu síðan í undanúrslitunum og úrslitunum.
 
Íslensku keppendurnir reynslunni ríkari
 
Það var mjög lærdómsríkt fyrir íslensku keppendurna bæði að undirbúa sig fyrir og að taka þátt í keppninni. Þeir koma heim reynslunni ríkari, búnir að fá að prufa að fara á stórt alþjóðlegt mót og kynnast umgjörð stórmóta, kindum með skott, dómgæslu á heimsmælikvarða og máta sig við allra bestu smala heims. Þessa reynslu taka þeir með sér heim og geta vonandi miðlað einhverju af henni þar. Þátttakan sannfærir að sama skapi vonandi aðra íslenska smala um að þetta er vel hægt og að slegist verði um sæti í liðinu að þremur árum liðnum.
 
Æfingin skapar meistarann
 
Á mótinu voru margir afar flinkir smalar og góðir hundar. Það er engin spurning að hæfileikar og ástundun skipta máli í þessu sem öðru. Þeir sem eru að skila sér í efstu sætin eiga góða hunda,  æfa stíft og keppa í fjölmörgum keppnum á ári. Við á Íslandi eigum góða hunda og góða smala sem við getum verið stolt af og eiga fullt erindi í svona keppnir, en við þurfum að spýta í lófana ef við ætlum að glíma við þá allra bestu. Til þess að sá árangur náist þurfa íslenskir smalar að fá meiri keppnisreynslu. Því miður er ekki raunhæft fyrir Íslendinga að sækja keppnir úti reglulega út af einangruninni og kostnaðinum við hana, en við gætum verið duglegri að halda keppnir hér heima. Á undanförnum árum hafa yfirleitt verið haldnar tvær keppnir á ári. Í besta falli hafa þær verið þrjár. Til þess að ná upp enn meiri metnaði í greinina og fleiri þátttakendum þyrftu keppnirnar að vera fleiri en það.
 
Margir lögðu hönd á plóg
 
Á mótinu ríkti mikil samkennd og samstaða í bland við samkeppnina. Þarna var kominn saman hluti af stóru samfélagi sem tengir Border Collie eigendur um allan heim og Ísland er núna hluti af í gegnum ISDS.  Íslensku nýliðarnir mættu velvild í hvívetna og í huga keppenda yfir vafa hafið að Ísland á að rækta tengslin við þetta alþjóðlega samfélag og nýta sér keppnisrétt sinn í framtíðinni. Keppendur og SFÍ vilja koma á framfæri þökkum til Bústólpa, Norðlenska, Landsbankans, 66 norður, Fjallalambs, Landstólpa, Dýrey, Tjörneshrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Kvenfélagsins Öldunnar,  sem styrktu þáttökuna og einnig öllum þeim sem hafa sýnt þessu áhuga og stuðning.
 
Norskur heimsmeistari
 
Þegar dómarar höfðu skilað inn sínu lokaáliti varð það Jaran Knive frá Noregi með tíkina sína Gin sem var krýndur heimsmeistari. Jaran er þekkt nafn í heimi smalahundanna og hefur verið sigursæll á mótum í gegnum tíðina. Árangur hans í þetta skipti er sérlega glæsilegur í ljósi þess að tíkin hans Gin er ekki nema rúmlega tveggja ára. Í næstu tveimur sætum þar á eftir komu tveir kappar sem einnig eru kunnuleg nöfn í þessum geira, þeir Kevin Evans frá Wales með hundinn sinn Ace og Serge van der Zweep frá Hollandi með hundinn sinn Gary. Þess má geta að Gary er faðir heimsmeistarans Gin.
 
Í flokki ungra smala 21 árs og yngri var Karianne Buer frá Noregi hlutskörpust með hundinn sinn Allie. Í öðru sæti var Logan Williams frá Wales með hundinn sinn Ned og í þriðja sæti Sverre Kvinnesland frá Noregi með tíkina sína Heather.
 
England sigraði liðakeppnina, Kanada var í öðru sæti og Noregur í því þriðja.
 
 

11 myndir:

Skylt efni: Border-Colle | smalahundar

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...