Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Nýtt met var sett á árinu í innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum en hlutfallið fór úr 31,1% árið 2013 í 37,2% nú. Er þetta hlutfall það hæsta sem vitað er um í heiminum.
Nýtt met var sett á árinu í innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum en hlutfallið fór úr 31,1% árið 2013 í 37,2% nú. Er þetta hlutfall það hæsta sem vitað er um í heiminum.
Mynd / HKr.
Fréttir 16. febrúar 2016

Íslensk mjaltaþjónabú settu nýtt heimsmet 2015

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Nýtt met var sett á árinu í innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum en hlutfallið fór úr 31,1% árið 2013 í 37,2% nú og er þetta hlutfall það hæsta sem vitað er um í heiminum.
 
Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2015 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna en uppgjör sem þetta hefur verið gert annað hvert ár undanfarin ár í tengslum við vinnslu á skýrslu um þróun fjósgerða og mjaltatækni hér á landi. Alls voru um áramótin 135 kúabú með mjaltaþjóna en árið 2013 voru þau 109. Er þetta gríðarlega mikil aukning á einunigs tveimur árum og til marks um þann þrótt sem er í íslenskri mjólkurframleiðslu um þessar mundir. 
 
Á þessum tveimur árum hefur mjaltaþjónunum sjálfum fjölgað enn hraðar en árið 2013 var fjöldi mjaltaþjóna 129 en var nú um áramótin 165. Nýtt met var því sett á árinu í innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum en hlutfallið fór úr 31,1% árið 2013 í 37,2% nú. Er þetta hlutfall það hæsta sem vitað er um í heiminum. Á nýliðinu ári bættist við ein ný tegund mjaltaþjóns hér á landi er fyrsta fjósið með GEA mjaltaþjón leit dagsins ljós en fyrir voru tegundirnar Lely og DeLaval.
 
37,2% mjólkurinnar
 
Undanfarin ár hefur hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum aukist jafnt og þétt en í fyrra var  þó í fyrsta skipti í langan tíma sem annað land komst upp fyrir Ísland þegar horft er til hlutfalls mjaltaþjónamjólkur og voru þar á ferð sænsk mjaltaþjónabú. 
 
Árið 2015 bar með sér mikla aukningu á hlutfalli mjaltaþjónamjólkur og nam innvitgtun alls 54,3 milljónum lítra af þeim 146,0 milljónum lítra sem voru vegnir inn í afurðastöðvar landsins eða alls 37,2%. 
 
Um óstaðfest heimsmet er að ræða þar til heildaruppgjör helstu samanburðarlanda liggur endanlega fyrir en fyrstu tölur benda þó til þess að ekkert annað land hafi náð þessu hlutfalli á liðnu ári. 
 
Þetta kemur endanlega í ljós í júní í sumar þegar aðalfundur NMSM, sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna um mjólkurgæðamál, verður haldinn en Norðurlöndin hafa verið leiðandi í hlutfallslegri notkun mjaltaþjóna í rúman áratug.
 
Með 403 þúsund lítra að jafnaði
 
Að jafnaði var hvert mjaltaþjónabú að leggja inn 403 þúsund lítra á síðasta ári en til samanburðar má geta þess að önnur bú á landinu lögðu inn að jafnaði 190 þúsund lítra. 
Þar sem hvert bú er með að meðaltali 1,22 mjaltaþjóna (24 bú með 2 mjaltaþjóna og 3 bú með 3 mjaltaþjóna) nemur innvigtunin 329 þúsund lítrum frá hverjum mjaltaþjóni og hefur nýting þeirra aukist umtalsvert frá uppgjöri sem gert var í árslok 2013 þegar hver mjaltaþjónn skilaði að jafnaði 297 þúsund lítrum. 
 
Afar mikill munur er á milli búanna og nam t.d. mesta innvigtunin 541.053 lítrum frá einum mjaltaþjóni sem er nýtt Íslandsmet. 
 
Alls voru 10 aðrir mjaltaþjónar sem skiluðu frá sér 450–541 þúsund lítrum og er það einnig einsdæmi í sölu mjaltaþjónanotkunar hér á landi, þ.e. að jafn hátt hlutfall mjaltaþjóna hafi verið nýttir svona vel. 
Árið 2013 voru 6,2% mjaltaþjónanna sem skiluðu meira en 400 þúsund lítrum í afurðastöð en síðastliðið ár voru það 22,4% sem segir mikið um stórbætta nýtingu mjaltaþjónanna hér á landi.
 
Enn má auka nýtinguna
 
Ef horft er til hámarksframleiðslugetu (miðað við innlagða mjólk) árið 2015 mætti auka framleiðslu mjaltaþjónabúanna í 89,3 milljónir lítra án a.m.k. nýfjárfestinga í mjaltatækninni sem slíkri, en vissu-lega þyrftu aðrar aðstæður einnig að vera til staðar. Í raun svarar þetta til þess að nýting mjaltatækjanna í dag nemi um 60,9% sé horft til þess afurðasemi þess mjaltaþjóns sem mestu skilar á landinu öllu. 
 
Sé horft út fyrir landsins steina og rýnt í innvigtunartölur afurðahæstu búanna með mjaltaþjóna erlendis þá er algengt að meðal innvigtun sé í kringum 720–800 þúsund innvegnir lítrar og allt upp í eina milljón lítra, sem þó er fremur sjaldséð framleiðslugeta.
 
94,7% innvigtunarhlutfall
 
Þegar skoðaðar eru niðurstöður skýrsluhalds Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðar­ins og þær bornar saman við skráningar búa með mjaltaþjóna kemur í ljós að af þessum 135 búum taka 127 þeirra þátt í skýrsluhaldinu eða 94,1%. Í raun sætir undrun að búin séu ekki öll með í skýrsluhaldinu enda búa þau öll að tölvutækum gögnum um bæði kýr og afurðir og því leikur einn að senda inn upplýsingar. Meðal­nýtingar­hlutfall þessara búa, þ.e. innvegið mjólkurmagn miðað við reiknaða skýrsluhaldsnyt, var 94,7% á liðnu ári og er það í góðu samræmi við væntingar um innvigtunarhlutfall mjólkur. 
 
Nokkur bú víkja þó nokkuð hraustlega frá reiknaðri framleiðslu, miðað við skýrsluhaldsnyt og fjölda árskúa, og þeirri mjólk sem lögð er inn í afurðastöð. Frávik þetta er í báðar áttir, þ.e. nokkur bú leggja inn afar lágt hlutfall ætlaðrar framleiddrar mjólkur á búinu miðað við skýrsluhaldið og önnur leggja inn mun meiri mjólk í afurðastöðina en skýrsluhaldsafurðirnar segja til um. Augljós skýring á þessum mun er að afurðamælingarnar eru ekki réttar og er því afurðasemin vanmetin á sumum búum og of-metin á öðrum. 
Afar brýnt er að allir bændur, óháð þeirri mjaltatækni sem er notuð við mjaltir, fylgist sjálfir vel með því að skýrsluhaldsnytin haldist vel í hendur við innlagðar afurðir enda er fóðurgjöf miðuð við afurðasemi kúnna og séu afurðirnar ranglega metnar, verður kjarnfóðurskömmtunin einnig kolröng.
 
35,2% árskúa landsins
 
Svo unnt væri að áætla heildar árskúafjölda allra mjaltaþjónabúa var nauðsynlegt við þetta uppgjör að setja inn áætlun um fjölda kúa á þeim búum sem ekki taka þátt í skýrsluhaldinu. Var það gert út frá upplýsingum um heildar innvigtun búanna í afurðastöð og svo reiknað meðalnýtingarhlutfall allra búa á þessi umræddu bú. Svo var miðað við að þau væru öll með „meðalkýr“ annarra mjaltaþjónabúa. Með þessum hætti var hægt að ætla heildarfjölda árskúa í mjaltaþjónum árið 2015 en ætla má að fjöldi þeirra hafi verið 9.423 en árið 2013 var þessi fjöldi 6.983. Sé miðað við að árskúafjöldinn á Íslandi 26.800 kýr (uppreiknaður fjöldi miðað við skýrsluhaldsupplýsingar að viðbættum upplýsingum um þau bú á landinu sem ekki eru í skýrsluhaldi) er hlutfall kúa í mjaltaþjónafjósum 35,2% en árið 2013 var þetta hlutfall 28,2%. 
 
Meðalfjöldi árskúa á hverju mjaltaþjónabúi var á liðnu ári 69,8 kýr en önnur bú á landinu voru hins vegar með 36,0 árskýr að jafnaði eða rétt um helmingi minni að jafnaði. Eins og fram kom hér að framan eru 1,2 mjaltaþjónar að jafnaði á hverju mjaltaþjónabúi og sé horft til árskúafjöldans svarar fjöldinn til þess að 57,1 árskýr hafi verið um hvern mjaltaþjón á síðasta ári. Árið 2013 var fjöldinn 54,1 árskýr á hvern mjaltaþjón og sést hér ein af skýringum þess að nýting mjaltaþjóna er að verða betri og betri.
 
6.163 kg að meðaltali
 
Líkt og vænta má er meðalnyt kúabúa með mjaltaþjóna nokkuð hærri en annarra búa hér á landi. Skýringin felst m.a. í tíðari mjöltum og virkara framleiðslustýringarkerfi. Í því uppgjöri sem þessi úttekt nær til var notast við skýrsluhaldsupplýsingar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins frá september 2015 auk þess sem notaðar voru skýrsluhaldsupplýsingar um nokkur bú frá því fyrr á árinu. Ekki er hér því um nákvæmlega sömu tölur að ræða og liggja fyrir um ársafurðir íslenskra kúa 2015 en í þessu uppgjöri voru vegnar meðalafurðir allra kúa í skýrsluhaldinu 5.773 kg. 
 
Þegar búið er að draga skýrsluhaldsafurðir kúa mjaltaþjónabúa frá afurðum kúa á öðrum búum er meðalnyt kúa annarra búa 5.557 kg en meðalnyt kúa mjaltaþjónabúanna 6.163 kg. Munar þarna 9,8% á milli þessara ólíku fjósgerða og ólíku mjaltatækni sem notuð er og sem skýra má sem fyrr segir með bæði tíðari mjöltum og góðri bústjórn.
 
Átta bú með frumutölu lægri en 150 þúsund
 
Þegar horft er til mjólkurgæða frá búum með mjaltaþjóna kemur margt áhugavert í ljós. Margfeldis-meðaltal frumutölu allra 135 búanna var árið 2015 242.358 og margfeldismeðaltal líftölunnar 42.472. Af þessum búum voru alls 36 bú með frumutölu sem var lægri en 200 þúsund og 8 bú með lægri frumutölu en 150 þúsund og þarf af voru 6 bú sem lögðu inn meira en 350 þúsund lítra mjólkur eftir hvern mjaltaþjón svo þessum mjólkurgæðum má vel ná með tiltölulega mikla framleiðslu. Þá reyndust 30 bú hafa frumutölu sem var hærri en 300 þúsund að meðaltali árið 2015, en það er allt of há frumutala og óásættanleg fyrir alla kúabændur. Enda bæði dregur það úr afurðasemi kúnna auk þess sem mikill kostnaður fylgir hárri frumutölu að jafnaði. 
 
Eins og sjá má af tölunum hér að ofan eru til fjöldamörg bú sem geta framleitt mjólk með mjaltaþjóni og frumutölu sem er lægri en 150 þúsund svo það ætti að vera hvati til þess að gera betur. Svo til enginn munur var á frumutölunni eftir því hvaða tegund mjaltaþjóns var notuð og bæði Lely og DeLaval mjaltaþjónar skipuðu sér í efstu og neðstu sæti listans.
 
19 bú með meðaltal líftölu lægri en 20 þúsund
 
Það hefur loðað við mjaltaþjónatæknina að líftala er oft á tíðum hærri en á þeim búum sem nota hefðbundna tækni við mjaltir en líftala ræðst að stórum hluta af tæknilegum þáttum eins og kerfis- og tankþvotti en einnig af þáttum sem lúta beint að bústjórn og almennri umgengni við mjaltaþjónana eins og daglegum þrifum þeirra, fyrirbyggjandi viðhaldi og eftirliti. Að vera með líftölu sem er í hærra lagi er þó ekki lögmál og voru t.d. 19 kúabú með líftölu að jafnaði sem var lægri en 20 þúsund/ml á síðasta ári og mátti sjá öll mjaltaþjónamerkin á meðal þessara líftölulágu búa, með öðrum orðum þá er einnig hægt að framleiða hágæða mjólk með mjaltaþjónum. Á hinn bóginn voru einnig mörg bú með líftölu sem var hærri en 50 þúsund/ml eða alls 29 bú og þar af voru 7 með líftölu sem var að jafnaði hærri en 100 þúsund/ml og aftur mátti hér sjá eins jafna skiptinu stóru merkjanna á markaðinum og unnt var (4:3). 
Rétt er að minna aftur á að þessi bú nota nákvæmlega sömu tækni og búin sem eru efst á listanum og því dagljóst að það eru til bæði tæknilegar og bústjórnarlegar lausnir sem geta komið böndum á líftöluna.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku
 
Samantekt þessi byggir á upplýsingum frá Auðhumlu og Mjólkurafurðastöð KS auk þess sem notuð voru gögn sem aflað var hjá Fóðurblöndunni, Bústólpa, VB landbúnaði, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Búnaðarstofu, MS og Landssambandi kúabænda.

5 myndir:

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...