Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hvetur bændur til álaveiða
Fréttir 20. október 2015

Hvetur bændur til álaveiða

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Fisksölufyrirtækið North Atlantic ehf. á Ísafirði hefur stundað vinnslu og útflutning á ál til Japans. Áll þykir herramannsmatur og er orðinn mjög eftirsóttur en framboðið er mjög takmarkað.

Víðir Ísfeld Ingþórsson hjá North Atlantic ehf. segir að állinn sé verkefni sem hófst hjá fyrirtækinu í fyrra með þreifingum á markaði í Japan.

„Við höfum sent út tilraunasendingar við góðar undirtektir. Í vetur verður stærri állinn reyktur og seldur innanlands fyrir jólamarkaðinn. Íslenski állinn vex hægar en áll annars staðar og eru veiðisvæði því viðkvæm fyrir ofveiði. Þess vegna leggjum við áherslu á skynsamlega nýtingu á stofnum sem hér er að finna,“ segir Víðir.

Hann segist telja að állinn sé vannýtt auðlind, en þessa fisktegund er að finna víða um land, en þó síst á Norðurlandi og á Austfjörðum. Helstu veiðisvæðin eru í vatnasvæðum á láglendi sunnan- og vestanlands og talsvert við Breiðafjörð.

Slitróttar veiðar en ýmsar hugmyndir

Ýmsar hugmyndir hafa komið upp í gegnum tíðina um stórtækar álaveiðar sem minna hefur þó orðið úr. Veiðar á ál voru þó stundaðar á Íslandi í einhverjum mæli  frá 1960 til 1964 og þá aðallega í gildrur. Einnig er hægt að veiða ál í sjó og þá kemur fyrir að stangveiðimenn fái ál, einkum ef beitt er á krók.

Árið 1995 var Álafélagið hf. stofnað og var markmiðið að hefja álaveiðar og eldi sem skila átti 200 tonna framleiðslu á ári. Fékk félagið m.a. styrk frá atvinnumálanefnd Reykjavíkurborgar það sama haust en lítið heyrðist þó af frekari framgangi málsins. Félagið fékk virðisaukaskattsnúmer 1997 sem var síðan lokað 1998. Í grein í Morgunblaðinu við stofnun fyrirtækisins var viðtal við Guðmund Þóroddson, formann félagsins. Þar kom fram að álaeldi í heiminum á þeim tíma hafi numið um 200.000 tonnum. Þar af hafi um 10–15 þúsund tonn farið á Evrópumarkað og um 180 þúsund tonn á Japansmarkað. Einnig kom fram að kílóverð á reyktum ál á flugvellinum í Kaupmannahöfn væru um 3.000 krónur.

Eftirsótt neysluvara

Áll er víða veiddur erlendis þar sem hann er eftirsótt neysluvara og selst á háu verði. Framboð á ál hefur minnkað mjög og er talið að áll sem nær ströndum Evrópu hafi fækkað um 90% frá 1970. Er talið að skýringar sé m.a. að leita í breyttu hitastigi sjávar, breytinga á vatnasvæðum í Evrópu vegna mannvirkjagerðar og vegna mengunar. Líklegt er talið að áll kunni að leita í ríkari mæli til Íslands vegna hlýnunar sjávar.

Gæti orðið ágæt búbót fyrir bændur

Víðir Ísfeld Ingþórsson hjá North Atlantic segir að álaveiði geti verið ágæt búbót fyrir bændur og landeigendur. Verkefnið sé þó enn á tilraunastigi hjá fyrirtækinu en óskað hafi verið eftir fleiri samstarfsaðilum og hefur hann reynt að virkja fólk til álaveiða. Í því augnamiði auglýsti hann í Bændablaðinu í vor eftir veiðimönnum til að veiða ál til vinnslu.

„Okkar markmið er að koma álaveiði á Íslandi í góðan farveg þannig  að hægt sé með reglubundnum hætti að nýta auðlindina á skynsaman hátt og skapa verðmæti fyrir þátttakendur,“ segir Víðir. Hann segir að þar sem um þróunarverkefni sé að ræða, þá sé enn ekki kominn almennileg reynsla á markaðinn. Állinn sé seldur í mismunandi stærðarflokkum og fituprósentan skipti líka miklu máli fyrir kaupendur. Reglulega eru sendar út prufusendingar þar sem fituprósentan er mæld í hverjum einasta ál. Verður það gert út þetta ár til að fá yfirsýn yfir árstíðabundna fituprósentu í ál á Íslandi. Þrátt fyrir óvissu um söluverð segist Víðir hafa verið að bjóða veiðimönnum eitt þúsund krónur fyrir kílóið.

Reyndur álaveiðimaður af Suðurlandi

Sigurjón Vídalín Guðmundsson á Stokkseyri, sem er einn fremsti álaveiðimaður á Íslandi í dag, gaf sig fram þegar Víðir auglýsti eftir álaveiðimönnum. Hefur hann stundað veiðar á ál, einkum í og við Ölfusá. Hann segir að Suðurlandið henti vel til álaveiða sem einkum er veiddur í gildrur. Hann þekkir vel til álsins frá unga aldri en hann er fæddur og uppalinn á Eyrarbakka. Eiginkonan, Helena Sif Zóphoníasdóttir, er honum líka stundum til aðstoðar við álaveiðarnar.

Áhuginn á álnum kviknaði við stangveiði í Ölfusánni

„Hjá mér vaknaði þessi áhugi á sínum tíma þegar maður var að veiða á stöng í Ölfusánni og veiddi með beitu og stöng á letingja.  Þá var maður stundum að fá ál og ég fór að velta því fyrir mér hvort hann væri hér í einhverju magni. Ég hafði þá einhverja hugmynd um að þetta væri frekar verðmætur og eftirsóttur fiskur. Framhaldið kom svo skemmtilega á óvart. Oftast hef ég þó verið einn að veiða þetta, en einstaka sinnum með öðrum. Í Ölfusinu hefur maður stundum hitt á mjög góð ár.

Állinn gengur upp Ölfusána og upp í vatnasvæðin í Flóanum. Hann gengur upp í flestar sprænur sem ganga til sjávar. Maður hefur heyrt af því að hann fari líka upp í Þjórsána þótt ég hafi aldrei veitt á því svæði. Ég hef verið mest í Flóanum og Ölfusinu.“

Áhugaverð fisktegund

Lífshlaup álsins, þessa sérkennilega fisks, hefst í Sargossa-hafi í rúmlega 4.000 kílómetra fjarlægð frá Íslandi. Áll er afar lífseigur. Þótt það fjari undan honum við ströndina lifir hann af á þurru landi þar til flæðir að nýju. Þá segir Sigurjón að hann skríði auðveldlega milli vatnasvæða og um flæðiengjar og geti verið klukkustundum saman á þurru landi án þess að verða meint af. Álar ferðast einnig um á þurru landi og skríða jafnvel upp kletta til að sneiða hjá fossum.

Sigurjón segir að veiðin hafi verið ágæt sum árin, en minna þess á milli.

„Það er þannig með álinn að veiðin er sveiflukennd. Ég setti mig í samband við Víði í vor  þegar hann auglýsti eftir veiðimönnum í Bændablaðinu og setti þá út nokkrar gildrur til að kanna hvort állinn væri svo snemma á ferðinni. Það fengust einhverjir álar en ekkert til að tala um. Þó sýndist mér að svona könnun snemma að vori geti gefið vísbendingar um ál á svæðinu, en þá getur verið ágætt að beita í gildruna, enda ekki mikið æti í ánum á þeim tíma.“

Áll er birtufælinn og veiðist lítt yfir hásumarið

„Yfir bjartasta tíma sumarsins dettur veiði alveg niður, enda állinn birtufælinn og hreyfir sig þá ekki mikið. Með minnkandi birtu þegar kemur fram á haust og heldur fer að kólna, þá virðist koma meiri hreyfing á hann. Sem dæmi var ég með nokkrar gildrur í hinum ýmsu vötnum í sumar og var að kroppa einhver 40 til 50 kíló samtals yfir tímabilið. Oft og tíðum var ekkert í gildrunum, enda hefst veiðitíminn ekki af viti fyrr en eftir mánaðamót júlí-ágúst.  Besti tíminn er í september og fram í október. Síðasta hálfa mánuðinn komu aftur á móti 40 kíló í tvær gildrur.

Á haustin er eins og állinn fari að hópa sig saman og hreyfa sig meira. Þá fer hann jafnframt að vera veiðanlegri en á sumrin. Ef maður hugsar til þess að bændur hafi áhuga á að stunda þetta sem aukabúgrein eða sem tómstundagaman, þá er mesta veiðin á hentugum tíma eftir að heyönnum lýkur. Þá þarf ekki að vitja um gildrur nema á fimm til tíu daga fresti. Í flestöllum tilfellum sem aðrar fisktegundir koma í gildrurnar þá er hann sprelllifandi þegar vitjað er og lítið mál að sleppa honum.“

Álaveiðar hemja líka viðgang minksins

Sigurjón segist hafa óttast talsvert að minkur sem álpaðist í gildrurnar myndi rífa þær og tæta. Það hafi hins vegar aldrei gerst og svo virðist sem minkurinn drepist strax eftir að hann kemur í gildrurnar.

„Það má segja að minkaveiðin sé aukahagur við álaveiðarnar og fækkar honum þá við ár og vötn um leið. Það kemur oft minkur í gildrurnar en hann hefur aldrei skemmt hjá mér gildrur í þau tíu ár sem ég hef stundað þetta. Þó hef ég fengið tugi minka og einu sinni kom ég að gildru með fimm dauðum minkum.“   

Dvelur í íslenskum vötnum og ám í 10 til 12 ár

Állinn gengur í íslenskar ár sem gleráll eftir langt ferðalag frá hrygningarstöðvunum í Þanghafinu (Sargasso). Fljótlega eftir að hann kemur í árnar umbreytist hann í það sem kallað er guláll.  Álar vaxa um 5–6 sentímetra á ári, en kjörhiti þeirra til vaxtar er 22–23 °C. Aðstæður á íslenskum vatnasvæðum bjóða sjaldnast upp á slíkan hita svo vaxtarhraðinn verður hægari og hann verður seinna kynþroska en í ám  á meginlandi Evrópu. Þegar áll hefur náð um 35– 100 sentímetra lengd þá sækir hann aftur suður í Þanghafið til að hrygna og drepst að lokinni hrygningu að talið er. Þá er hann búinn að dvelja í íslenskum ám og vötnum í 10 til 12 ár og orðinn 500 til 1.000 grömm að þyngd.

„Það er einmitt þessi niðurgönguáll sem maður vill helst fá, sem orðinn er 500 til 1.000 grömm að þyngd,“ segir Sigurjón.

Hann segir miklar líkur á að állinn fari að sækja meira til Íslands með hlýnandi sjó. Ekki  síður við hlýnandi loftslag og hækkun á hitastigi vatnasvæðanna. Hingað berst glerállinn með Golfstraumnum og ræður það dreifingu áls um landið. Því er lítið um ál í kalda sjónum fyrir Norðurlandi og Norðausturlandi en þeim mun meira vestan- og sunnanlands.

Lífseigur með eindæmum

Að sögn Sigurjóns er lyginni líkast hversu lífseigur állinn er.

„Ég salta álinn yfirleitt til að drepa hann og læt hann þá liggja í salti í fjóra tíma. Eftir það er hægt að gera að honum, en mjög oft eru þeir samt ekki alveg dauðir eftir þessa fjóra tíma. Ef maður tekur slíkan ál, sem legið hefur í salti í fjóra til fimm tíma og er með einhverju lífsmarki, og setur hann í rennandi ferskt vatn, þá  er eins og ekkert hafi í skorist. Hann verður sprelllifandi með það sama.“

Bændur sáu oft iðandi ál við engjaslátt

„Þegar ég var að byrja í álaveið­inni fyrir rúmum tíu árum var ég að ræða þetta við menn á svæðinu og hvort þeir vissu um góð veiðisvæði meðfram bökkum Ölfusár að austanverðu. Þá sögðu þeir mér að þegar þarna var stundaður engjasláttur og þeir að ganga heim yfir engin að dagsverki loknu, þá fannst mönnum oft eins og jörðin væri á hreyfingu í rökkrinu. Þegar menn brugðu ljósum á loft sáu menn oft ál sem var að skríða í áttina að ánni. Hann fer því létt með að skríða á milli vatnasvæða. Þá myndar hann utan um sig slímhjúp sem ver hann, en hann getur samt tekið upp súrefni í gegnum hann.“

Orðatiltækið að vera háll sem áll er dregið af því að slímið gerir hann hálan og því erfitt að hafa hendur á honum. Í slímhúð álsins er eitur sem getur reynst varasamt, komist það í opið sár. Eitrið brotnar niður og verður skaðlaust þegar állinn er reyktur eða soðinn.

Álar þykja fínir til átu í Kína og hefur verðið á glerálum farið yfir fimm þúsund dollara fyrir kílóið í Hong Kong.

Í Kóreu eru álar sagðir stinnandi fyrir karlmenn sem eru farnir að linast. Auk þess eru álar borðaðir með bestu lyst um alla Evrópu og í Bandaríkjunum.

Sagt er að Hinrik I. Eng­lands­konungur hafi étið yfir sig af áli og drepist og Ágústus Rómarkeisari er sagður hafa átt tjörn fulla af álum sér til ánægju.

Lengsti áll sem mældur hefur verið hér á landi var 130 sentímetrar og vó 6,5 kíló. Fullvaxnir álar á Íslandi verða þó sjaldan lengri en metri á lengd og fjögur kíló að þyngd. Hængar eru minni en hrygnur og sjaldnast lengri en 50 sentímetrar hér á landi.

Getur skilað ágætum tekjum

Sigurjón segir að hjá sér hafi þetta  mest verið tómstundaiðja og áhugamál í gegnum tíðina. Hann hafi eitthvað dundað sér við að reykja ál fyrir sig og láta menn hafa í prufur. Ef menn vilji aftur á móti fara að stunda þetta af alvöru, þá sé öruggt að hægt sé að fá ágætis verð fyrir álinn. Þá geti álaveiðar hentað bændum mjög vel, þar sem þær er helst hægt að stunda eftir að heyskap lýkur.

„Álaveiðar í Evrópu hafa dregist saman um 90% en eftirspurnin er mikil. Evrópusambandið hefur nánast bannað álaveiðar vegna minnkandi stofnstærðar. Þá eru einhver höft í gangi í Evrópu við innflutningi á evrópska „Anguilla anguilla“ álnum. Það má hins vegar flytja inn til Evrópu eins mikið og manni sýnist af ameríkuálnum „Anguilla rostrata“, en sú tegund veiðist eitthvað hér líka.“

Samkvæmt upplýsingum í blaðinu Fishermen‘s Voice hefur veiði á ál þó einnig dalað mikið í Bandaríkjunum. Í ríkinu Main hefur veiðin fallið frá því að vera mest nærri 190 þúsund kíló (190 tonn) af fullvöxnum ál árið 1974 í það að vera vel undir 2.000 kílóum árið 2011. Á austurströnd Bandaríkjanna hafa menn mikið veitt af örsmáum glerál í fínriðin net. Hann hefur síðan verið alinn upp í markaðsstærð fyrir Japansmarkað á 12 til 18 mánuðum. Líklegt er talið að mikil veiði á örsmáum glerál valdi mestu um versnandi afkomu stofnsins sem og mengun. 

Hlýnandi loftslag gæti aukið álagengd til Íslands

Sigurjón segir miklar líkur á að állinn fari að sækja meira til Íslands með hlýnandi sjó. Ekki  síður við hlýnandi loftslag og hækkun á hitastigi vatnasvæðanna. Hingað berst glerállinn með Golfstraumnum og ræður það dreifingu áls um landið. Því er lítið um ál í kalda sjónum fyrir Norðurlandi og Norð-Austurlandi en þeim mun meira vestan- og sunnanlands.

„Það er sérlega mikil eftirspurn  eftir ál í Asíu og einkum í Japan. Állinn sem ég er að veiða fyrir Víði og North Atlantic fer allur til Japans. Þá vilja Japanir frekar smærri álinn og það hentar okkur ágætlega. Hér á norðurslóðum erum við kannski ekki með kjöraðstæður fyrir ál og hann verður því ekki eins stór og sunnar í álfunni.

Misjafnt er eftir löndum hvernig ál menn vilja helst. Þannig vilja Frakkar frekar minni ál en t.d. Bretar og aðrar þjóðir í kring. Þá er misjafnt hvernig menn verka álinn og Bretar reykja hann t.d. frekar en Hollendingar og Danir.

Ég setti einu sinni að gamni mínu auglýsingu á „Business to business“ síðu á netinu til að kanna áhugann á álnum sem ég var að veiða. Skemmst er frá að segja að það settu sig strax í samband við mig aðilar frá Hollandi, Frakklandi og Bandaríkjunum sem allir voru mjög áhugasamir.“

Sigurjón segist vita til að eitthvað sé flutt inn af reyktum ál, en þar séu vissulega tækifæri fyrir íslenska framleiðslu á ál.

„Állinn er að mínu mati klárlega vannýtt auðlind og það er mun meira af honum en margur heldur. Fólk veit ekki af honum vegna þess að hann grefur sig í botnleðjuna þannig að aðeins hausinn stendur upp úr.
Það má segja að alls staðar þar sem vatn kemst í sjó við Suður- og Vesturland, þar finnist áll. Menn hafa verið að segja mér að þeir hafi verið að fá ál í kolbrúnum pollum þar sem menn héldu að nær ekkert líf væri. Ég held ég hafi aldrei sett álagildrur niður í polla sem ekki hafa einhver álakvikindi álpast í. Það er ótrúlegt hvað hann er víða. Það er t.d. áll í öllum vötnum í kringum Reykjavík. Á árum áður var t.d. veitt talsvert af ál í Vífilsstaðavatni."

Skylt efni: Áll | veiðar |

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...