Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hugrún Hjörleifsdóttir og Einar Gíslason á Brúnum í Eyjafjarðarsveit reka ferðaþjónustuna Brúnir Horse.
Hugrún Hjörleifsdóttir og Einar Gíslason á Brúnum í Eyjafjarðarsveit reka ferðaþjónustuna Brúnir Horse.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 22. júlí 2020

Horfa með bjartsýni til næsta sumars

Höfundur: MÞÞ
„Reksturinn var kominn á mjög gott skrið hjá okkur og síðastliðið sumar kom vel út og allt benti til þess að þetta sumar yrði enn betra. En það er ekki neitt við því að gera þó áætlanir hafi ekki farið eins og ráð var fyrir gert vegna kórónuveirunnar. Við eins og aðrir í þessari atvinnugrein verðum að taka því og horfa bjartsýn fram á veginn og vona að allt komist í samt lag með tímanum,“ segja þau Hugrún Hjörleifsdóttir og Einar Gíslason á Brúnum í Eyjafjarðarsveit.
 
Þau opnuðu síðsumars árið 2017 ferðaþjónustuna, Brúnir Horse, sem er fjölskyldufyrirtæki sem þau hjónin standa að. Þau stunda hrossarækt á bæ sínum, bjóða ferðamönnum upp á sýningar á íslenska hestinum, reka veitingahús sem býður upp á heimabakstur og vörur beint frá býli og úti vappa íslenskar landnámshænur sem leggja til egg í baksturinn. Þá er Einar menntaður myndlistarmaður og rekur vinnustofu sína einnig heima við. Sýningarsalur er í kjallara veitingastaðarins og við hlið vinnustofunnar, þar sem jafnan að sumarlagi er boðið upp á metnaðarfullar sýningar. 
 
Búfræðingur, járnsmiður, myndlistarmaður og kennari
 
Einar hefur frá því á yngri árum haft áhuga fyrir hestum þó svo að engin hefð væri fyrir hestamennsku í fjölskyldu hans. Kynni hans af hrossum komu í gegnum vini og þá segist hann hálfur Skagfirðingur sem eflaust eigi sinn þátt í áhuganum. Hann hafði mikla löngun til að gerast bóndi en fór nokkrar krókaleiðir að því markmiði sínu. Lauk reyndar fyrst búfræðiprófi frá Hólum en til að hafa vaðið fyrir neðan sig fór hann einnig í nám í járnsmíði, lauk því og starfaði um árabil við þá iðn. Myndlistin átti þó meira í huga hans en járnsmíðin og varð úr að hann hélt til náms við Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem var og hét og lauk þar námi frá grafíkdeild. Síðar lauk hann að auki námi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda og hefur kennt myndlist við Hrafnagilsskóla frá árinu 2001.
 
Veitingastaðurinn er í 350 fermetra húsi, veitingasala er á jarðhæð, vinnustofa og Listaskálinn í kjallaranum og í risi er koníaksstofa.
 
Gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og námsstjóri
 
Hugrún fór hefðbundnari leið með stúdentsprófi og síðan hjúkrunarnámi við HA. Hún hefur einkum unnið á gjörgæsludeildum og aflaði sér menntunar sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur. Meðfram þeirri vinnu starfaði hún einnig sem skólahjúkrunarfræðingur um tíma. Undanfarin 10 ár hefur hún gegnt starfi fræðslustjóra og nú námsstjóra við Sjúkrahúsið á Akureyri, en það felur í sér utanumhald og umsjón með öllum nemum sem koma á Sak.
 
Samtvinna ástríðuna í einu pakka
 
Undanfarin ár hafa þau Hugrún og Einar unað glöð við sitt heima á Brúnum og stundað sína vinnu að auki utan bús. Einhvern veginn kviknaði þó sú hugmynd í kolli þeirra að bæta við sig og hefja ferðaþjónustu. „Það má segja að í okkar tilviki sé þetta þríþætt, okkar helsta áhugamál og ástríða eru hestar og listir og hér hefur ævinlega verið gestkvæmt. Við vildum samtvinna þetta þrennt í einum pakka,“ segir Hugrún. Þau hjónin veltu vöngum yfir hvernig best færi á að samtvinna þessa þætti, laða að sér gesti sem í senn gætu notið lista og eða hestanna.
 
Frambærilegir listamenn 
 
Úr varð að reist var 350 fermetra hús á bæjarhlaðinu, að hluta til ofan á gamalli vélaskemmu sem fyrir var. Í kjallaranum hefur Einar hreiðrað um sig með sína vinnustofu, þar eru fyrir hendi tæki og tól til að vinna grafíkmyndir og myndlist almennt. Inn af vinnustofunni er sýningarsalur og þar er listamönnum boðið að sýna verk sín. „Við höfum verið svo lánsöm að fá til okkar verulega frambærilega myndlistarmenn og verðum ekki vör við annað en að þeir hafi ánægju af því að sýna hér. Það hafa allir sem rætt hefur verið við verið meira en tilbúnir að koma. Listamönnum hefur gengið vel og sala verið góð, þannig að allir eru glaðir,“ segir Einar. 
 
Veitingasalur fyrir 50 manns
 
Á jarðhæð er veitingasalur sem rúmar um 50 manns í sæti. Stórir gluggar eru til norðurs og vesturs sem gefa gestum færi á að njóta útsýnis á meðan þeir gera sér veitingar að góðu. Kaldbakur blasir við í norðri og Kerling vestan megin. Hross á beit í haga rétt við bæinn. „Það er auðveldlega hægt að komast í svona núvitundarástand bara með því að horfa út um gluggana í hvaða veðri sem er,“ segir Hugrún.
 
Veitingasalurinn rúmar um 50 manns í sæti.
 
Risið er tvískipt, öðrum megin hefur verið sett upp koníaksstofa þar sem útsýni er  suður yfir sveitina en í norðurhlutanum er lítil íbúð sem leigð er út á AirB&B og stendur hún einnig listamönnum hvarvetna úr heiminum til boða ef áhugi er fyrir hendi.
 
Íslenski hesturinn á heimavelli
 
Fyrir neðan húsið var gerður 170 metra langur reiðvöllur þar sem efnt er til hestasýninga. Gott hljóðkerfi var sett upp og fá áhorfendur innsýn í sögu íslenska hestsins og ýmsan fróðleik um hann, svo sem gangtegundir, liti og fleira á meðan sýningin stendur. „Við sýnum íslenska hestinn á heimavelli og drögum fram hans helstu kosti, leggjum áherslu á að sýna fjölhæfni hans og fjölbreytileika,“ segir Einar. Hægt er að horfa á hestasýningarnar bæði inni í húsinu, á svölum sem gengið er út á úr veitingasalnum og í áhorfendabrekkum sem eru við völlinn.
 
„Þessar sýningar voru fjölmargar hjá okkur í fyrra og oft margt um manninn, fór upp í 100 manns á sýningu,“ segir Einar. Engin skemmtiferðaskip eru á ferðinni nú og því liggja sýningar svo til alveg niðri. „Við komum tvíefld til leiks næsta sumar, það voru verulega góðar bókanir fyrir sumarið í sumar og því ekki um annað að ræða en bíða bara og vera bjartsýn. Þetta gengur yfir og allt verður gott á ný.“
 
Fór hægt af stað en er að glæðast
 
Líkt og aðrir í ferðaþjónustu hafa upplifað á þessu sumri hefur umferð verið mun minni en áður, júní fór hægt af stað en eftir því sem á líður júlímánuð fer fjöldi gesta vaxandi. Útlendinga vantar þó enn, en landinn er töluvert á faraldsfæti og hefur að sögn Hugrúnar verið mikið að gera um helgar. Þá hefur verið töluvert að gera í mótttöku á hópum sem gjarnan koma utan hefðbundins afgreiðslutíma og eins hefur salurinn verið leigður út til veislu- og fundahalda en mörgum þykir gott og árangursríkt að halda fundi í kyrrðinni í sveitinni. 
 
Fjölbreytt ferðaþjónusta í Eyjafjarðarsveit
 
Ferðaþjónusta í Eyjafjarðarsveit hefur vaxið og fjölbreytileikinn er þó nokkur, kaffihús og veitingastaðir með ýmsar kræsingar, sem og afþreying. Ferðaþjónusta skipar töluverðan sess í atvinnustarfsemi innan sveitarfélagsins og fer ef eitthvað er vaxandi. Þau Hugrún og Einar segja að íbúar í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu starfi vel saman innan Ferðamálafélags Eyjafjarðar og styðji við bakið hver á öðrum. „Það er jákvætt og hefur reynst okkur öllum vel.“ Nú hefur verið hleypt af stokkunum nýju verkefni sem miklar væntingar eru gerðar til, en það er Matarstígur Helga magra og eru þau hjón á Brúnum innan þess. Þau selja m.a. lambakjöt af eigin býli. 
 
Einar segist hafa gengið með bændadrauma í maganum sem ungur maður  en hann fór nokkrar krókaleiðir að því markmiði sínu. Lærði m.a. myndlist og lauk námi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þessi myndarlegi hrútshaus varð til á vinnustofunni á Brúnum.   
 
„Það er alltaf eitthvað í gangi og mikið að gerast. Við horfum til þess að ferðaþjónusta verði æ öflugri hér í sveitarfélaginu í náinni framtíð og teljum okkur eiga töluvert inni,“ segir Einar og bendir m.a. á að Kerling, eitt hæsta fjall í byggð á Íslandi, sé innan sveitarfélagamarka og þá séu um 10 fjöll í byggðarlaginu yfir 1.000 metrar að hæð. „Þetta er óplægður akur, að ná til fjallgöngufólks og þeirra sem unun hafa af því að ferðast um íslenska náttúru án þess að fara um langan veg úr byggð,“ segir hann. 
 
Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...