Vaðlaheiðargöng voru formlega opnuð með hátíðlegri athöfn um liðna helgi. Um borðaklippingar sáu eldri borgarar sveitarfélaganna hvort sínum megin ganganna.
Fréttir 23. janúar 2019

Gjörbreytir samgöngum á svæðinu og leysir af hættulegan veg um Víkurskarð

Margrét Þóra Þórsdóttir
Vaðlaheiðargöng voru formlega opnuð með hátíðlegri athöfn um liðna helgi. Vaðlaheiðargöng eru á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals og er ætlað að leysa af veginn um Víkurskarð sem getur verið mjög erfiður og hættulegur yfirferðar á vetrum. 
 
Heildarlengd ganganna með vegskálum er um 7,5 kílómetrar. Með tilkomu þeirra styttist þjóðvegur 1 frá Akureyri til Húsavíkur um 16 kílómetra.
 
Framkvæmdir hófust við gerð ganganna sumarið 2013 og hafa þær staðið yfir síðan, eða í fimm og hálft ár. Forsaga gangagerðarinnar nær aftur til ársins 2002 þegar unnin var skýrsla um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði og ári síðar stóð Eyþing fyrir stofun Greiðrar leiðar, félags um framkvæmd og rekstur Vaðlaheiðarganga, en að því stóðu þau 20 sveitarfélög sem mynduðu Eyþing auk 10 fyrirtækja.
 
 
Fornbílar óku um nýju jarðgöngin við opnunina.  
 
Fordæmalausar tafir
 
Félagið Vaðlaheiðargöng var stofnað árið 2011 um gangagerðina, Vegagerðin með 51% hlut og Greið leið með 49%. Upphaflega stóð til að opna göngin fyrir umferð síðla árs 2016, en fordæmalausar aðstæður, m.a. mikið rennsli bæði á heitu og köldu vatni, töfðu framkvæmdir verulega. ÍAV hf/Marti Constractors lts - Ósafl var aðalverktaki við gerð ganganna, Vegagerðin stýrði hönnun þeirra og veglínu, en verkfræðistofurnar Mannvit, Verkís, Efla og Verkfræðistofa Norðurlands veittu ráðgjöf við hönnun. Framkvæmdaeftirlit var í höndum GeoTek og Eflu. Hönnun og tæknileg útfærsla á gjaldtökukerfi var í höndum verkfræðistofunnar Raftákns og Stefna hugbúnaðarhús sá um forritun. 
 
Endurgreiðsla á tæpum 30 árum
 
Heildarkostnaður við gerð Vaðlaheiðarganga er um 17 milljarðar króna og ráð fyrir því gert að hann verði endurgreiddur á 28 árum. Vegfarendur greiða veggjald fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng og er það greitt í gegnum vefsíðuna veggjald.is eða tunnel.is og þar er að finna upplýsingar um gjaldskrá en eitt stakt gjald fyrir fólksbíl kostar 1.500 krónur. Hægt er að lækka þann kostnað með því að kaupa fleiri ferðir í einu. Stakt gjald fyrir bíla yfir 3.500 kíló er 6.000 krónur.