Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Fisk- og kræklingaeldi er stór búgrein í Danmörku
Fréttir 22. maí 2014

Fisk- og kræklingaeldi er stór búgrein í Danmörku

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Fiskeldi er ört vaxandi búgrein í heiminum og mun brátt standa undir helmingnum af fiskneyslunni í heiminum. Eldi á fiski er einkar hagstætt þar sem fóðurnýting eldisfiska er einstök og betri en annarra skepna í framleiðslu. Danskir bændur eru framarlega í fiskeldi og þrátt fyrir smæð landsins og ekki beint ofgnótt áa og lækja þá er eldi í vatni í raun mjög stór búgrein í landinu, en í dag eru rúmlega 200 bú með ferskvatnseldi og um 20 bú með sjóeldi. Heildarframleiðsla búgreinarinnar á ári hverju nemur um 45 þúsund tonnum.

En hvernig má það vera að bændur frá þessu litla landi, sem sjáanlega hefur ekki mikið ferskvatn, eru jafn framarlega og raun ber vitni? Jú, svarið felst í meira en 100 ára reynslu og háu tæknistigi búgreinarinnar.

Ekki bara silungar

Til búgreinarinnar, sem kallast á dönsku „akvakultur“, heyrir allt eldi bæði í ferskvatni og sjó og til búgreinarinnar heyrir því eldi vatnafiska, annarra vatnadýra og helstu nytjastofna sjávar. Í dag er ferskvatnseldi á silungum og álum lang stærsti hluti búgreinarinnar en auk þess fer fram fiskeldi í sjó auk kræklingaframleiðslu.

Einfaldar tjarnir

Upphaf þessarar búgreinar í Danmörku má rekja aftur til þarsíðustu aldamóta þegar eldi á urriðum hófst í litlum tjörnum inni í landi. Tjarnir þessar voru grafnar út og svo leitt í þær vatn úr nálægum ám eða lækjum. Yfirfallinu var svo veitt aftur út í ána eða lækinn og í raun er stærsti hluti framleiðslunnar í dag enn með þessu formi. Þó nokkuð er enn um tiltölulega einfaldar tjarnir þó svo að steyptar þrær finnist einnig. Yfirfallið er þó allverulega breytt nú orðið, og í dag er notast við afar fullkominn hreinsibúnað sem hreinsar vatnið áður en því er aftur veitt út í ána eða lækinn. Í slíkum hreinsibúnaði eru möguleg næringarefni og önnur lífræn efni í vatninu botnfelld og svo er vatnið leitt frá kerfinu í gegnum þar til gerða síu svo tryggja megi að eldisfiskurinn nái ekki að berast út í náttúruna.

Regnbogasilungur algengastur

Algengasti eldisfiskurinn í Danmörku er regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss), en hann getur bæði lifað í ferskvatni og sjó. Auk regnbogasilungsins er nokkuð bæði um urriðaeldi (Salmo trutta fario) og bleikjueldi (Salvelinus alpinus). Þá er nokkuð um framleiðslu á ál (Anguilla anguilla), en hann hefur verið í útrýmingarhættu vegna ofveiði og breyttra lífsskilyrða. Gleráll er því veiddur og alinn við kjöraðstæður og svo oft sleppt í ár og vötn.

Aðrar fiskitegundir eru ræktaðar í mun minna mæli. Á ári hverju nemur framleiðsla regnbogasilungsins um 40 þúsund tonnum, en heildarframleiðsla á eldisfiski í Danmörku er um 45 þúsund tonn. Mestur hluti þess magns, um 75%, er framleiddur af bændum með ferskvatnseldi.

Mörg framleiðslustig

Vegna þess hve margir bændur eru í eldi á silungi, ál og kræklingi hafa með árunum þróast mismunandi framleiðslustig við eldið enda aðstæður misjafnar og ekki víst að öllum henti allt heildar ferlið. Ferillinn í silungaeldinu hefst oftast í sérstökum kynbótastöðvum sem frjóvga eggin og svo fara þau til dreifingar hjá bændum. Þegar seiðin hafa klakist út eru þau höfð í sérstakri aðstöðu og það er í raun fyrst eftir um tvo mánuði, er þau byrja að éta fóður, sem hinn eiginlegi eldisferill hefst sem þá getur farið í margar áttir. Þannig eru sumir bændur eingöngu í upphafseldi og selja frá sér smáa silunga, 300-350 grömm að stærð til áframeldis en til þess að ná þessari stærð á silungi þarf að ala hann í 8-12 mánuði. Aðrir eru í eins konar millieldi fyrir sjókvíaeldi en þá er silungurinn alinn í ferskvatni þar til hann verður um 1 kíló að þyngd. Enn aðrir framleiða silung til lifandi útflutnings. Þá ala sumir fyrir sleppitjarnir og fleiri framleiðsluform mætti nefna svo sem hrognaframleiðslu fyrir kavíargerð.

Endurvinnsla á vatni

Frá árinu 2005 hafa verið starfrækt ferskvatnsbú sem endurvinna stóran hluta af vatninu sem notað er við eldið. Bú þessi eru flokkuð í mismunandi gerðir eftir því hve mikið af vatninu er í raun endurunnið en í raun þýðir endurvinnsla vatnsins að bændurnir geta framleitt mun meira magn af fiski en áður þar sem vatnið nýtist miklu betur. Sem dæmi má nefna að áður en hreinsun á vatni hófst þurfti oft að nota um 4 sekúndulítra af vatni á hvert framleitt kíló en í dag þarf um 0,05 sekúndulítra!

Allt að 95% af vatninu er endurnýtanlegt þegar best lætur en það þýðir í raun að slík bú nota 10 til 15 sinnum minna magn af vatni við eldið en hefðbundin eldisbú. Eigi hins vegar að takast að hreinsa og endurvinna svona stórt hlutfall vatnsins þarf mikinn búnað til, en bæði þarf að hreinsa vatnið með síum og einnig með lífrænum aðferðum og niðurbroti. Þessi eldisbú eru þó með öllu óháð ám og lækjum enda kemur allt það viðbótarvatn sem þörf er á annað hvort úr drenræsum eða með rigningu. Þess má þó geta að vegna kostnaðar við uppsetningu á endurvinnslubúnaði eru þessi eldisbú ekki hagkvæm fyrr en framleiðslan nær a.m.k. 600 tonnum árlega.

Sjókvíaeldi

Sjókvíaeldi í Danmörku fer fram með svipuðum hætti og við þekkjum hér á landi, þ.e. í fljótandi hringlaga kvíar sem eru festar við botninn. Það er þó eingöngu regnbogasilungur sem er alinn í þessum kvíum en laxeldi þykir t.d. ekki heppilegt í Danmörku vegna hitastigs sjávarins umhverfis landið. Hafið við Danmörk hentar hins vegar einkar vel fyrir regnbogasilung, bæði hvað seltustig varðar en einnig vegna mikilla strauma við landið sem tryggir endurnýjun vatns og súrefnis í kringum fiskana. Eldið er þó einungis vertíðarbundið en á vorin eru 6-800 gramma hrygnur settar í kvíarnar og hafðar þar fram á haust. Þá eru þær búnar að ná 3-5 kílóa þunga að jafnaði og hrognafullar. Þá er þeim slátrað og kvíarnar svo dregnar á þurrt land áður en fyrsti vetrarstormurinn kemur, en reynslan hefur einfaldlega kennt dönsku bændunum að þar sem þeir hafa enga djúpa og skjólgóða innfirði þá þýðir ekkert að vera með vetrareldi.

Kræklingaeldi

Kræklingaeldi er sú grein innan vatnseldisbúgreinarinnar sem er í mestu vexti í Danmörku en framleiðslan á bláskel (Mytilus edulis) hefur aukist verulega á síðustu árum og er nú um 2.000 tonn. Lang stærsti hluti framleiðslunnar fer fram í Limafirði þar sem skilyrði þykja einstök til kræklingaeldis. Eldið fer fram með sama hætti og hér á landi, þ.e. á köðlum sem annað hvort eru látnir hanga lóðrétt í sjónum eða látnir liggja í löngum keðjulaga lögnum. Kostirnir við eldið eru að kræklingarnir sem vaxa á svona köðlum vaxa mun hraðar en þeir sem eru á sjávarbotninum þar sem mun meiri fæða er ofar í sjónum en á botninum. Það tekur u.þ.b. eitt ár fyrir línukræklinga að ná söluhæfri stærð en það er um þrefaldur vaxtarhraði á við kræklinga sem vaxa á sjávarbotninum.

Mest allt í útflutning

Af heildarframleiðslunni upp á um 45 þúsund tonn, nemur útflutningur um 75-80%. Síðasta ár nam útflutningurinn 33,3 þúsund tonnum og þar af voru afurðir úr silungaeldinu 30,9 þúsund tonn, en fiskurinn var bæði fluttur út lifandi, nýslátraður, slægður og heilfrystur, flakaður og reyktur. Þá voru flutt út 1.500 tonn af hrognum auk áls bæði lifandi til sleppingar en einnig var hann fluttur út bæði nýslátraður, frystur og reyktur. Heildarverðmæti útflutningsins nam rúmum 21 milljarði íslenskra króna en meðal skilaverðið var um 635 krónur á kílóið.

Frekara lesefni t.d.: www.lf.dk, www.danskakvakultur.dk og www.dst.dk

5 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...