Fréttir 18. júlí 2019

Fimmti hver frosinn kjúklingur í Brasilíu sýktur af salmonellu

Vilmundur Hansen

Brasilía er stærsti útflytjandi frosins kjúklingakjöts í heiminum og flytur út um 4,3 milljón tonn á ári. Rannsóknir benda til að einn fimmti af kjötinu sé sýkt af salmonellu sem getur valdið alvarlegri matareitrun og jafnvel dauða. Stór hluti kjötsins er fluttur til Evrópu þar sem hluti hans er unninn og seldur áfram.

Samkvæmt því sem segir í frétt sem Guardian vann ásamt Bureau of Investigative Journalism hafa verið flutt út frá Brasilíu þúsundir tonna af salmonellusmituðu kjúklingakjöti síðastliðin tvö ár. Þar af hafa yfir milljón frosnir og heilir kjúklingar verið seldir til Bretlandseyja.

Brasilía er stærsti útflytjandi frosins kjúklingakjöts í heiminum og flytur út um 4,3 milljón tonn á ári sem seld eru í verslunum um allan heim.

20% kjötsins sýkt

Yfirvöld matvælaheilbrigðismála í Brasilíu hafa viðurkennt að 20% salmonellusýking í frosnu kjúklingakjöti sé allt of hátt hlutfall og að grípa verði til aðgerða til að draga úr sýkingum. Benda yfirvöld á að salmonellusýkingin sé hættulaus sé kjötið rétt matreitt en að fólk geti sýkst ef það meðhöndlar hrátt kjöt.

Árið 2017 voru ellefu starfsmenn við matvælaeftirlit í Brasilíu handteknir og dæmdir fyrir mútuþægni. Í ákæru á hendur mönnunum voru þeir sagðir hafa þegið fé frá stórum kjötvinnslum til að líta fram hjá notkun á skemmdu kjöti og kjöti sem sýkt var af salmonellu í tilbúna rétti og til frystingar til útflutnings.

Salmonella hefur greinst í 370 tilfella þegar gerðar hafa verið stikkprufur á frosnu kjúklingakjöti frá Brasilíu við tollskoðun inn í Evrópusambandið síðan í apríl 2017. Að öllu jöfnu eru gerðar stikkprufur á fimmtu hverri kjúklingakjötsendingu sem berst frá Brasilíu til landa Evrópusambandsins.