Lúsin Mesophthirus engeli sem lifði á risaeðlum fyrir um 99 milljónum ára.
Fréttir 06. janúar 2020

Fiðraðar og lúsugar

Vilmundur Hansen

Nýlegur fornleifafundur bendir til þess að risaeðlur eða vissar tegundir af þeim hafi verið með fjaðrir og að lýs hafi lifað góðu lífi í og undir fjöðrunum.

Vísindamenn hafa verið að rannsaka nýlega fundinn amber-klump frá Búrma, sem talinn er vera að minnsta kosti 99 milljón ára gamall, og í klumpinum er að finna risaeðlufjaðrir og tíu smádýr sem líkjast lúsum. Við smásjárskoðun má svo sjá að lúsin eða lýs hafa nartað í fjaðrirnar.

Fundurinn er meðal annars áhugaverður fyrir það að þetta er elsta þekkta dæmið um lýs eða lúsalík kvikindi sem éta fjaðrir og færir tilkomu þeirra aftur um 55 milljón ár.

Tegundin, sem hefur verið óþekkt fram til þessa, hefur fengið latneska heitið Mesophthirus engeli og eru kvikindin sem fundust 0,14 til 0,23 millimetrar á lengd en áætlað er að fullvaxin ættu þau að ná um 0,5 millimetrum að lengd. Þau eru vængjalaus, kjaftur þeirra er sagður sterkbyggður og með að minnsta kosti fjórum tönnum.

Erlent