Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Engir gæðastaðlar né eftirlit með íslenskri mold sem seld er til neytenda
Fréttir 20. maí 2020

Engir gæðastaðlar né eftirlit með íslenskri mold sem seld er til neytenda

Höfundur: Vilmundur Hansen

Mörgum blöskrar að flutt sé inn mold í neytendapakkningum og segja að íslensk mold sé sú besta í heimi. Aðrir segja íslensku moldina of þunga og þétta í sér og að innflutta moldin sé mun betri. Talsverðar kröfur eru gerðar um innihald erlendrar moldar sem flutt er inn en engir gæðastaðlar eru fyrir innlenda mold né eftirlit með framleiðslu hennar.

Samkvæmt reglum um innflutning á mold eru gerðar kröfur um að það sé svarðmold, spagnum, og að hún komi af óræktuðum svæðum og hafi aldrei verið notuð til ræktunar. Undanskilin er mold sem fylgir rótum plantna eða rótarávöxtum sé hún í óverulegum mæli. Í moldinni mega ekki finnast íblöndunarefni nema í mjög litlu magni og ekki efni sem eru á skjön við aðra þætti reglugerðarinnar og er þá átt við trjákurl, safnhaugamold, moltu eða húsdýraáburð svo dæmi séu tekin.

280 tonn af gróðurmold flutt inn

Á vef Hagstofu Íslands segir að flutt hafi verið inn tæp 280 tonn af mold árið 2019. Þar af eru 14,6 tonn af mómosamold, 39 tonn önnur mold og tæp 226 tonn af því sem kallast „önnur jarðefni ótalin annars staðar“. Við nánari skoðun og með aðstoð Hagstofunnar kom í ljós að það sem kallast önnur mold og önnur jarðefni ótalin annars staðar er í raun mómosa­mold, eða spagnum, sem hefur verið ranglega skráð í tollflokka.

Brynjar Rafn Ómarsson, fag­sviðsstjóri plöntuheilbrigðis hjá Matvælastofnun, segir að til þessa hafi ekki komið upp sú staða að beiðni hafi borist um að flytja inn mold sem er íblönduð með tilbúnum áburði en að það yrði þá skoðað í samvinnu við áburðareftirlitið.

Ekkert eftirlit með innlendri mold

Að sögn Brynjars veit hann ekki til þess að til séu reglur um innlenda mold sem seld er í garða eða í neytendaumbúðum.

„Mér vitandi eru ekki til neinir staðlar um innihald eða íblöndunarefni í íslenskri mold né það sem má kalla mold til sölu. Aðkoma Mast að málum af þessu tagi snýst fyrst og fremst um plöntuheilbrigði og það er ekki þar með sagt að ef það finnist líf í mold að það tengist plöntusjúkdómum. Stofnunin hefur því ekki eftirlit með innlendri framleiðslu á mold og ég veit ekki til þess að neitt slíkt eftirlit sé í framkvæmd.“
Samkvæmt þessu þá eru ekki til neinar reglur né gæðastaðlar um hvað teljist mold sem má selja í garða eða í neytendaumbúðum fyrir pottaplöntur.

Samkvæmt upplýsingum á vef Gæðamoldar býður fyrirtækið upp á þrenns konar mold í garða. Um er að ræða það sem er kallað moltumold og er hún sögð vera bland af  60% mold, 20% moltu og 20% skeljasandi og hins vegar sandblandaða mold sem er 70% mold og 30% vikursandur. Auk þess sem boðið er upp á grjóthreinsaða mold, en ekki eru gefin upp nein hlutföll um hvernig hún er blönduð.

Georg Ottósson, eigandi Flúða- og Hreppamoldar, segir að opinbert gæðaeftirlit með framleiðslu á íslenskri mold sé ekki til staðar og eftirlitið hjá honum felist í að reyna að framleiða eins góða mold og hann getur.

„Yfirleitt fæ ég hrós fyrir moldina en ég hef líka fengið kvartanir um að hún, sérstaklega Flúðamoldin, geti verið svolítið þung og klessist saman. Grunnurinn í Flúðamold er rotmassi sem fæst úr svepparækt Flúðasveppa. Massinn er blandaður með nýrri mómold sem við fáum úr moldarnámu við Hvítárholt í Hrunamannahreppi og þurrkum. Hlutföllin í Flúðamoldinni eru 30% sveppamassi og 70% mómold.
Sveppamassi er gerður úr hálmi, hænsnaskít, kalki og vatni og ókosturinn við rotmassann er að það getur verið erfitt að þurrka og því um þurrkunarvandamál að ræða sem hægt er að bæta með betri tækjabúnaði. Flúðamold er því talsvert öðruvísi en innflutta spagnum-moldin“.

Hreppamold er aftur á móti búin til úr mómold og vikri í hlutföllunum 90% mómold og 10% vikur.“

Georg segir að miðað sé við að sýrustig eða pH gildi Hreppamoldarinnar sé 5,5 til 6,5 og að það sé mælt reglulega. „Sýrustig sveppamassans er 7,0 en um 4,5 í mómoldinni og við reynum að halda Flúðamoldinni í pH 5,5. Við létum efnagreina moldina fyrir nokkrum árum og síðan þá hefur blandan verið sú sama.“

Stikkprufur af innfluttri mold

Margir hafa áhyggjur af að með innflutningi á mold, bæði í pokum og á plöntum með rót, geti fylgt fjöldi lífvera, smádýr, örverur og sveppir, sem ekki þekkist hér á landi og teljast ekki æskilegar í vistkerfinu. Þetta þarf þó ekki að vera algilt og í raun er mold lítils virði ef ekki leynist í henni líf.

Brynjar segir að ef Mast berist ábendingar um að framandi lífverur finnist í innfluttri mold sé brugðist við því.

„Mast skoðar ekki hverja og eina sendingu af mold sem kemur til landsins en við tökum stikkprufur og skoðum þær. Heilt yfir hefur verið litið svo á að innflutt mold sé réttilega spagnum-mold og að hún uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir innflutningnum enda fylgir henni í öllum tilfellum gilt heilbrigðisvottorð frá útflutningslandinu sem staðfestir að hún uppfylli þær kröfur sem í gildi eru hér á landi. Sé þannig staðið að innflutningnum á hætta á því að eitthvað óæskilegt berist með moldinni að vera lítil án þess að hægt sé að tryggja það 100% viss.“ 

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...