Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bíll smáframleiðenda á Norðurlandi vestra. Alls taka þrettán framleiðendur þátt í verkefninu og bjóða varning sinn til sölu í bílnum sem er á ferðinni frá Borðeyri og að Ketilási í Fljótum.
Bíll smáframleiðenda á Norðurlandi vestra. Alls taka þrettán framleiðendur þátt í verkefninu og bjóða varning sinn til sölu í bílnum sem er á ferðinni frá Borðeyri og að Ketilási í Fljótum.
Mynd / Aðsent
Fréttir 10. ágúst 2020

Ekið um með gæðavarning

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það hefur gengið alveg glimrandi vel, viðtökur hvarvetna mjög góðar og við fáum hrós fyrir þetta framtak,“ segir Þór­hildur M. Jónsdóttir, verkefna­stjóri hjá Vörusmiðju BioPol á Skaga­strönd, en hún stýrir verkefninu Framleiðendur á ferðinni sem nú stendur y­fir. 
 
Verkefnið fékk styrk úr Sóknar­áætlun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Ákveðið var í kjölfar kórónuveirufaraldurs á liðnum vetri að styrkja aukalega nokkur verkefni í héraði til að fá hjólin til að snúast hraðar og var verkefnið Smáframleiðendur á ferðinni eitt þeirra sem hlutu styrk.
 
Þórhildur M. Jónsdóttir.
Alls taka þrettán smáfram­leið­endur í landshlutanum þátt í verkefninu í samstarfi við Vörusmiðju BioPol, sem hefur yfir að ráða vottuðu vinnslurými sem margir úr hópi framleiðendanna nýta sér til að útbúa sína vöru. Í boði í bílnum er fjölbreytt gæðavara, grænmeti, blóm, bætiefni, krem og kjöt, blóm og garn svo dæmi séu tekin. Smáframleiðendurnir eru Breiðar­gerði, Gandur, Garð­yrkju­­stöðin Laugamýri, Grill­lausnir Kambakoti, Gróðurhúsið Starra­stöðum, Hraun á Skaga, Kaldakinn ll, Kjötvinnslan Birkihlíð, Pure Natura, Rúnalist, Skrúðvangur og Sölvanes. „Allir þessir framleiðendur vinna með sína frumframleiðslu og hráefni úr heimabyggð. Þeir hafa að leiðarljósi fullnýtingu hráefnis til að skapa gæðavöru,“ segir Þórhildur.
 
Frá Borðeyri að Ketilási
 
Þórhildur segir að verkefnið standi yfir í tvo mánuði, júlí og ágúst, og er fyrirkomulagið þannig að ekið er á milli staða í héraðinu aðra hvora viku. Hver ferð tekur fimm daga, hefst á mánudegi og lýkur á föstudegi, og er staldrað við á tveimur stöðum á hverjum degi, í þrjá tíma í senn. Eftir vikuna hefur bíll því haft viðkomu á tíu stöðum í fjórðungnum, frá Borðeyri í vestri til Ketiláss í Fljótum í austri. Leiðarkerfið er hægt að skoða inni á heimasíðu Vörusmiðjunnar. 
 
„Þetta er mjög mikilvæg leið fyrir þá framleiðendur sem taka þátt til að koma vöru sinni á framfæri, koma framleiðslunni á kortið og gera hana sýnilega. Þetta gerir einnig að verkum að aðgengi að vörunum verður auðveldara og betra en áður. Við erum á ferðinni og komum með vörurnar til fólksins og þannig skapast tengsl á milli framleiðenda og viðskiptavina,“ segir Þórhildur. 
 
 
Grundvöllur fyrir framhaldi?
 
Hún segir að viðbrögð hafi farið fram úr björtustu vonum, fólk kunni svo sannarlega að meta það að fá bíl fullan af alls kyns kræsingum nánast heim á hlað til sín. „Við fengum þennan styrk núna til að halda verkefninu úti í tvo mánuði. Að þeim loknum munum við fara yfir málið, gera tímabilið upp og meta stöðuna. Líklega verður skoðað hvort grundvöllur er fyrir framhaldi, það er ómögulegt að segja fyrir um það núna hvort framhald verði á en hægt að fullyrða að þetta hefur gefið góða raun,“ segir Þórhildur. 
Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...