Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Dómur staðfestur í máli Ferskra kjötvara gegn ríkinu um innflutning
Mynd / smh
Fréttir 11. október 2018

Dómur staðfestur í máli Ferskra kjötvara gegn ríkinu um innflutning

Höfundur: smh

Í dag staðfesti hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Ferskra kjötvara gegn ríkinu, vegna þess að fyrirtækinu var bannað að flytja inn ferskt hrátt kjöt árið 2016.

Með dómnum er staðfest að ekki má setja skorður við innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum, en slíkar hömlur voru lögleiddar á Íslandi þegar matvælalöggjöf ESB var innleidd árið 2009.

Í tilkynningu frá Bændasamtökum Íslands er haft eftir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, að baráttu samtakanna sé hvergi lokið með þessu máli. Verndun íslensku búfjárkynjanna sem menningarverðmæta og erfðaauðlindar sé mál sem varði alla.

Dómurinn víkur ekki að viðkvæmri sjúkdómastöðu

Í tilkynningunni segir að í málsvörninni hafi íslenska ríkið lagt áherslu á að ákvarðanir stjórnvalda hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, og reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. „Jafnframt samræmist ákvarðanirnar 13. og 18. gr. EES-samningsins, þar sem kveðið er á um að samningsaðilar megi leggja á innflutning vara bönn eða höft til að tryggja almannaöryggi og vernd heilsu manna eða dýra, þegar kemur að mati á því hvaða áhætta sé ásættanleg eða óásættanleg þegar vernda skal almannaöryggi og vernd lífs og heilsu manna og dýra. Þá sé nauðsynlegt að tryggja að hrátt kjöt sem flutt er til landsins beri ekki með sér smitefni sem mönnum og/eða dýrum stafi hætta af. Þá var bent á að sjúkdómastaða íslensks búpenings sé óvenjuleg í samanburði við önnur ríki. Vegna aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna hafi dýrin lítið ónæmi fyrir fjölmörgum smitefnum sem algeng eru erlendis, en aldrei hafi orðið vart við hér á landi.

Dómurinn nú víkur í engu að þessum mikilvægu sjónarmiðum. Það var heldur ekki gert í dómi EFTA-dómstólsins í nóvember í fyrra heldur virðist hann eingöngu hafa byggt á því að þar sem markmið matvælalöggjafarinnar sé að samræma löggjöf á þessu sviði inna EES-svæðisins komi ekki til álita að heimilt sé fyrir einstök lönd sem eiga aðild að samningnum að beita fyrir sig 13. grein hans. Bændasamtök Íslands voru meðal þeirra sem gagnrýndu dóminn og telja að jafnvel hafa verið hægt að álykta sem svo að beinlínis væri verið að breyta EES-samningnum því að 18. gr. áskilur berum orðum að 13. gr. skuli gilda eins og fyrr segir. Vitaskuld verða ekki gerðar breytingar á EES-samningnum með þessum hætti heldur gerist það við samningaborð stjórnmálanna,“ segir í tilkynningunni.

Mikilvægi íslenskra búfjárkynja

Sindri segir að mikilvægt sé Ísland standi vörð um íslensku búfjárkynin. „Auk skuldbindinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni sé fjölbreytileikinn hluti af aðdráttarafli landsins fyrir ferðamenn og órjúfanlegur hluti af menningu landsbyggðarinnar.

Bændasamtök Íslands telja eðlilegt og sanngjarnt að íslensk stjórnvöld fari fram á það við ESB að áfram verði heimilt að að beita sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu manna og dýra, enda standa til þess full rök sem ekki hafa verið hrakin. 

Bændasamtök Íslands munu ekki láta hér staðar numið og heita á alla málsmetandi að veita því liðsinni áfram,“ segir Sindri.

Umsókn Íslands um tryggingar fyrir öryggi matvæla

Í viðbrögðum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að frá uppkvaðningu dóms EFTA-dómstólsins í nóvember í fyrra hafi það verið forgangsmál stjórnvalda að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. „Við þá vinnu hefur verið lögð áhersla á að tryggja öryggi matvæla og vernd búfjárstofna. Í júlí sl. sendi Ísland umsókn til Eftirlitsstofnunar EFTA um heimild til að beita reglum um viðbótartryggingar. Slíkar tryggingar, sem önnur Norðurlönd hafa þegar fengið, munu gera stjórnvöldum kleift að krefjast ákveðinna vottorða um að tilteknar afurðir séu lausar við salmonellu. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum aðgerðum, m.a. varðandi kampýlóbakter.

Frumvarp til breytinga á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er á þingmálaskrá 149. löggjafarþings 2018-2019. Stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpinu í febrúar,“ segir í tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands. Mynd / HKr.

Sýkingum mun fjölga

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands, hefur ítrekað varað við innflutningi á hráu kjöti vegna hættu á fjölgun sýkinga í fólki af ýmsu tagi. Á opnum fundi í Landbúnaðarháskóla Íslands 24. nóvember síðastliðins, í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins, sagði Karl að meiri áhætta tengd neyslu á erlendum en innlendum matvælum geti verið annars vegar vegna þess að viðkomandi matarsýklar eru ekki til á Íslandi eða hins vegar að viðkomandi sýklar eru sjaldgæfari í íslensku búfé og/eða landbúnaðarafurðum en erlendum. Hann sagði að á Íslandi væri ekki nema brot þeirra súnusjúkdómatilfella sem eru landlægar í Evrópu, en súnur eru sjúkdómar sem geta verið bæði í mönnum og dýrum.

Taldi Karl að áhrifin af innflutningi á fersku kjöti muni verða þau að kampýlóbaktersýkingum muni fjölga mjög mikið ef erlendir kjúklingaframleiðendur sem verslað er við, fylgi ekki sömu reglum og þeir íslensku þurfa að gera. Reikna megi líka með fjölgun salmonellusýkinga og tilfellum sýkinga af völdum „hamborgarabakteríunnar“ svokallaðrar, sem getur valdið blóðugum niðurgangi og nýrnabilun. Aðrir sýklar kunni einnig að gera vart við sig.

Dómur Hæstaréttar ásamt dómi Héraðsdóms


Umfjöllunin hefur verið uppfærð.

 

 

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...