Mynd/MHH
Fréttir 09. október 2019

Danskur skólahópur frá 127 manna eyju í heimsókn

Magnús Hlynur Hreiðarsson
Nemendur og starfsmenn Kerhóls­skóla í Grímsnes- og Grafningshreppi fengu nýlega skemmtilega fjögurra daga heimsókn þegar danskir grunnskóla­nemendur frá eyjunni Anholt heimsóttu skólann. Íbúar eyjunnar eru aðeins 127 en hún liggur á milli Danmerkur og Svíþjóðar.
 
Anholt skole er minnsti skólinn í Danmörku en í skólanum eru 14 nemendur í grunnskóladeild og 3 börn í leikskóladeild. Hann er eins og Kerhólsskóli að því leyti að í báðum skólum er  leik- og grunnskóladeild. Öll börn grunnskóladeildarinnar komu ti Íslands ásamt kennurum og nokkrum foreldrum, alls 31. „Þau höfðu samband við okkur í fyrra og langaði að koma af stað samstarfi. Við sóttum um styrk úr Nordplus en fengum ekki, þannig að þau söfnuðu fyrir sinni heimsókn í tvö ár hingað. Við ætlum að sækja um aftur á næsta ári og erum að skoða hvort við komumst þá til þeirra í heimsókn,“ segir Alice Petersen, kennari í Kerhólsskóla. 
 
Starfsmenn Kerhólsskóla skipulögðu fjölbreytta og skemmtilega dagskrá á meðan heimsóknin stóð, bæði í skólanum og svo var farið í nokkrar skoðunarferðir. Þema yngsta stigsins var söngur og samvera, miðstigið var með þjóðsögur og náttúruna og unglingastigið tók fyrir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Út frá þemunum var ákveðið að fara saman í ferðir en farið var einn daginn á Þingvöll og annan dag var farið að skoða orkusýninguna í Ljósafossvirkjun.  Þá var farið í sund á Borg. 
 
„Þar sem Kerhólsskóli er talinn lítill skóli með 73 nemendur í grunnskóla- og leikskóladeild fannst okkar börnum gaman að heyra frá gestunum, hvað væri gaman að vera í svona stórum skóla þar sem næðist í góð lið í fótboltanum. Nemendur og starfsmenn skólanna náðu vel saman og stefnir Kerhólsskóli á að heimsækja Anholt skole ef fást styrkir til fararinnar,“ segir Jóna B. Jónsdóttir, skólastjóri Kerhólsskóla.