Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kjúklingar af stofni Ranger Gold. Danski kjúklingaframleiðandinn Danpo hefur nú ákveðið að hætta að nota kjúklingategundina Ross 308 og í staðinn fyrir þá tegund að skipta yfir í tegund sem heitir Ranger Gold. Ástæðan er mótbyr dýravelferðarsamtaka gegn r
Kjúklingar af stofni Ranger Gold. Danski kjúklingaframleiðandinn Danpo hefur nú ákveðið að hætta að nota kjúklingategundina Ross 308 og í staðinn fyrir þá tegund að skipta yfir í tegund sem heitir Ranger Gold. Ástæðan er mótbyr dýravelferðarsamtaka gegn r
Á faglegum nótum 13. júlí 2020

Danir leggja nú áherslu á velferðarkjúklinga

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Danski kjúklingaframleiðandinn Danpo, sem er stærsti kjúklingaframleiðandinn í Danmörku, hefur nú ákveðið að hætta að nota kjúklingategundina Ross 308 og í staðinn fyrir þá tegund að skipta yfir í tegund sem heitir Ranger Gold. 
 
Líklega þekkja fæstir lesendur Bændablaðsins muninn á þessum tveimur tegundum, en tegundin Ross 308 er algengasta kjúklingategundin í heiminum og hefur haft mikla yfirburði yfir aðrar tegundir vegna hagkvæmni í framleiðslu þar sem tegundin er mjög hraðvaxta. Tegundin hefur hins vegar lent í ákveðnum mótbyr undanfarið vegna þess að dýravelferðarsamtök hafa bent á að hinn mikli og hraði vöxtur geti dregið úr velferð kjúklinganna og hafa nú nokkur dönsk matvælafyrirtæki og verslanir ákveðið að hætta að nota kjúklingakjöt sem framleitt er með þessari kjúklingategund.
 
12 daga munur
 
Eins og áður segir er tegundin Ross 308 mjög hraðvaxta og með einstaka fóðurnýtingu og tekur það kjúklinginn ekki nema 34 daga að ná sláturstærð, eða 2.200 grömmum. Ranger Gold kjúlingurinn nær því hins vegar ekki fyrr en að jafnaði á 46 dögum og því geta bændur sem nota þessa tegund ekki framleitt jafn mikið magn á hverju ári og þeir sem eru með Ross 308. 
 
Almennt lítið um afföll
 
Samkvæmt dönskum fjölmiðlum þá er umræðan um betri velferð hægvaxta kjúklinga byggð á tilfinningum eða skoðunum fólks en margir virðast tengja hægan vöxt við minni líkur á sjúkdómum eða dauðsföllum kjúklinga þar sem kjúklingarnir búa ekki við eins kraftmikið eldi. 
 
Eldi á hraðvöxnum Ross 308 kjúklingum hefur oft verið milli tannanna á dýraverndarfólki. Þar hefur þó fyrst og fremst verið deilt um eldi í búrum og þéttleika fugla í eldishúsum sem valdið hefur vandræðum. Ekkert liggur samt fyrir um að það sem deilt hefur verið um muni lagast við það að skipta yfir í hægvaxnari fugla af Ranger Gold stofni.
 
 
Samkvæmt dönskum rannsóknaniðurstöðum, sem reyndar eru ekki mjög umfangsmiklar, virðist þetta þó ekki vera tilfellið og þarlend gögn sýna að hraðvaxta kjúklingar eru ekki endilega líklegri til að fá framleiðslusjúkdóma, eða til að drepast vegna kröfugs eldis. Á það hefur þó verið bent að gera þurfi ítarlegri rannsóknir til að taka af allan vafa. Þá hefur verið bent á það að almennt sé það mjög sjaldgæft að kjúklingar fái framleiðslusjúkdóma eða drepist á eldistímanum og raunar benda gögn til þess að heldur hærra hlutfall af Ross 308 kjúklingum ljúki fullu eldi en einmitt Ranger Gold kjúklingarnir!
 
Sótspor Ranger Gold stærra
 
Vegna lengri eldistíma á Ranger Gold kjúklingunum, sem kallar á aukna fóðurnotkun sem nemur 300 grömmum af fóðri á hvern sláturfugl, er sótspor þessarar framleiðslu um það bil 20% stærra en sótsporið sem verður til við framleiðslu með Ross 308. Þar að auki er frjósemin hjá Ranger Gold verri þ.e. það eru fleiri fúlegg sem verða til þegar þessi kjúklingur er framleiddur. Þetta kallar einnig á heldur hærra sótspor þar sem við framleiðslu eggjanna þarf meira fóður, lýsingu, hita, loftræstingu og auðvitað vinnu.
 
Tekur gildi árið 2022
 
Þessi stefna Danpo tekur ekki gildi strax enda tekur töluverðan tíma að breyta framleiðsluháttum þó svo að eldistími á kjúklingum sé ekki langur. Skýringin felst í því að framleiðslugeta þeirra bænda sem framleiða eggin sem kjúklingarnir klekjast úr er takmarkandi þáttur þegar kemur að Ranger Gold kjúklingum. Fyrst þarf að fjölga fullorðnum varphænum og hönum til þess að geta aukið framleiðsluna á eggjunum og þetta tekur allt sinn tíma eða um níu mánuði. Svo þarf að auka framboðið jafnt og þétt og því gefur Danpo sér um tvö ár í ferlið. Þar til viðbótar gefa forsvarsmenn Danpo sér einnig að það taki tíma að vekja neytendur betur til vitundar um kosti þess að kaupa frekar kjúklingakjöt af hægvaxta fuglum en hraðvaxta.
 
Ekki allir sannfærðir
 
Vegna þess sem hér að framan hefur verið rakið eru ekki allir sannfærðir um að rétt sé að skipta unnvörpum úr því að framleiða kjúklingakjöt með hraðvaxta tegundinni Ross 308 og yfir í Ranger Gold. Umræða meðal neytenda skiptir þó höfuðmáli þegar kemur að markaðs­ákvörðunum og nú þegar hafa stórir notendur og seljendur á kjúklingum eins og skyndibitakeðjan KFC og þýska lágvöruverslunarkeðjan Lidl ákveðið að skipta yfir í kjúklingakjöt af hægvaxta kjúklingum. Aðrar stórar keðjur í Danmörku eins og Coop og Salling Group, sem rekur m.a. þekktar keðjur eins og Føtex, Bilka og Netto, hafa ekki tekið sömu ákvörðun en halda öllum möguleikum opnum og vilja sjá hvort þessi ákvörðun Danpo sé í raun rétt eða ekki.
 
Neytendur ráða
 
Vegna mikils innflutnings á ódýru kjúklingakjöti til Danmerkur er alls óvist hvort þessi nýja stefna Danpo reynist rétt eða ekki. Þegar allt kemur til alls eru það nefnilega neytendurnir sem í raun velja hvaða leið verður farin, enda er oft sagt að þeir velji leiðirnar með veskjunum sínum. Danpo er því í raun að veðja á það hvernig neytendur muni að tveimur árum liðnum haga sér þegar kemur að innkaupum á kjúklingakjöti. Dönsku kjúklingabændurnir vonast einnig til þess að með þessari aðgerð geti þarlendir neytendur betur tekið upplýsta ákvörðun um kjötkaup sín og stutt þarlenda framleiðslu frekar en að kaupa innflutt kjöt. Fari svo að neytendurnir kjósi heldur að kaupa dýrari kjúkling, með stærra sótspori en mögulega með betri dýravelferð, þá liggur fyrir að allar stórar verslunarkeðjur Danmerkur muni fylgja stefnu Danpo.
 
87% með Ross 308
 
Danir eru umfangsmiklir þegar kemur að kjúklingaeldi og -slátrun en árleg slátrun þar í landi er um 104 milljónir kjúklinga og þar af voru í fyrra 87% allra slátraðra kjúklinga af tegundinni Ross 308. Sé litið til landsins alls þá eru ekki nema 18 af um 200 kjúklingabændum sem eru í dag með Ranger Gold kjúklinga í framleiðslu. Danpo er eins og áður segir stærsta fyrirtækið í eldi, slátrun og vinnslu á kjúklingum og er með um 50% markaðshlutdeild í Danmörku. Þá er fyrirtækið einnig stærst á Norðurlöndunum á þessu sviði en kjúklingaframleiðendurnir sem standa að fyrirtækinu eru 70.
Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...