Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
„Það er að mínu mati hægt að auka verðmæti íslenskra landbúnaðarvara með því að breyta þeim á þá vegu að þær falli betur í kramið hjá viðskiptavinum,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar og nýr formaður Matvælasjóðs.
„Það er að mínu mati hægt að auka verðmæti íslenskra landbúnaðarvara með því að breyta þeim á þá vegu að þær falli betur í kramið hjá viðskiptavinum,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar og nýr formaður Matvælasjóðs.
Mynd / TB
Fréttir 21. júlí 2020

Aukin verðmætasköpun verður rauði þráðurinn í starfsemi Matvælasjóðs

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar, er formaður nýs Matvælasjóðs. Hún var ekki lengi að ákveða að taka verkefnið að sér þegar haft var samband við hana úr atvinnuvegaráðuneytinu, rétt eftir að hafa yfirgefið framkvæmdastjórastarf hjá Krónunni sem fól í sér mikil samskipti við matvælaframleiðendur. Bændablaðið ræddi við Grétu Maríu um starfið fram undan og helstu áherslur Matvælasjóðs.
 
Matvælasjóður varð til við sameiningu AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins með nýjum lögum frá Alþingi sem samþykkt voru fyrir skömmu. Ákveðið var að flýta stofnun sjóðsins til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins og veita þannig aukna viðspyrnu í matvælageirann. Sjóðurinn mun fyrst og fremst hafa það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Til stofnunar sjóðsins verður varið 500 milljónum króna sem verður úthlutað á þessu ári. 
 
„Eftir að ég hætti í vinnunni minni var haft samband og ég spurð hvort ég hefði áhuga á að leiða stofnun Matvælasjóðs. Ég hitti ráðherra fljótlega [Kristján Þór Júlíusson] og þakkaði traustið. Þetta er málefni sem ég hef mikinn áhuga á, hvernig við getum nýtt betur þær afurðir sem við eigum og gert landið okkar sjálfbærara. Ég þurfti því ekkert að hugsa mig lengi um þegar kallið kom,“ segir Gréta María.
 
Áhugi á skilvirkni og vöruþróun
 
„Ég er verkfræðingur og hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á vöruþróun. Bæði hef ég verið leiðbeinandi í gegnum viðskiptahraðla og síðan gerði ég lokaverkefni í verkfræðinni um vöruþróun. Þannig að ég hef fylgst vel með því sem er að gerast í tækninýjungum og því sem við Íslendingar erum framarlega í. Ég tók BS-próf í vélaverkfærði og meistarapróf í iðnaðarverkfræði á sínum tíma. Í náminu lærði ég m.a. um gæðastjórnun, framleiðslu og stjórnun. Ég hef áhuga á verkferlum og hvernig hægt er að gera þá skilvirkari og betri. Áður en ég réðist til Krónunnar var ég í fjármálageiranum, var m.a. í Arion banka þar sem ég hafði umsjón með viðskiptaáætlun bankans. Annars elst ég upp í litlu sjávarþorpi, á Flateyri, og það gefur manni ákveðna tengingu við náttúruna sem er allt um kring. Þú ert svo nálægt henni, bæði uppi í fjöllum og niðri í fjöru og þar á milli. Það hefur mótað mig og þess vegna hef ég áhuga á náttúrunni og afurðum hennar.“ 
 
Skiptumst á þekkingu og aukum verðmætasköpun
 
Spurð út í þau tækifæri sem felist í sameiningu AVS og Framleiðnisjóðs segist Gréta María binda vonir við að fólk í báðum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, vinni meira saman og læri af hvað öðru.
 
„Ég tel að það séu ýmis tækifæri fólgin í sameiningunni sem felast meðal annars í þekkingaryfirfærslu. Í báðum atvinnugreinum er verið að gera svo flotta hluti á mörgum stöðum. Við þurfum að horfa á hvað við getum gert sem þjóð til þess að yfirfæra þekkingu og reynslu af því sem hefur gengið vel yfir á annað.“ 
 
Gréta María hélt erindi á ráðstefnu Matvælalandsins og Landbúnaðarklasans í fyrrahaust þar sem fjallað var um áhrif neyslubreytinga á matvælaframleiðslu.  
 
Minnkum sóun
 
Gréta segir að margt sem falli til í framleiðslu sé hægt að nýta betur en gert er í dag. „Þetta á bæði við um sjávarútveginn og landbúnaðinn. Það er t.d. verið að framleiða vítamín og snyrtivörur úr afurðum úr báðum atvinnugreinum. Þetta eykur gríðarlega verðmæti afurðanna sem oft og tíðum er erfitt að sækja, hvort heldur sem er fiskur í sjó eða búskapur með skepnur eða grænmetisrækt. Það eru miklar fjárfestingar í greinunum og þess vegna er lykilatriði að auka verðmætin eins og mögulegt er af því sem er aflað. Aukin verðmætasköpun er rauði þráðurinn. Það þarf líka að einblína á að minnka sóun og búa til verðmæti úr því sem er jafnvel hent í dag. Mér finnst þetta ótrúlega spennandi.“
 
Hver verða mikilvægustu verkefni sjóðsins og hvaða sýn hefur þú á nýjan Matvælasjóð?
„Ég held að mikilvægustu verkefnin snúi að því að gera Ísland samkeppnishæfara í báðum þessum atvinnugreinum. Hvað getum við gert til þess að verða meira samkeppnishæf? Af hverju á sú tækni og hugmyndir sem hér verða til og eru þróaðar ekki að vera til sölu erlendis? Við ætlum að vera tækniþjóð og tæknisamfélag og eigum að geta nýtt okkur mun betur tæknina til þess að ná forskoti. Ísland er frábær tilraunamarkaður vegna þess að við erum svo fá og nálægðin er svo mikil. Þróun á vörum getur oft verið hraðari og við eigum að nýta okkur það að vera lítil þjóð. Við erum með hreint vatn, hreina orku og hreint land. Með þessu getum við náð samkeppnisforskoti og flutt það út í formi vöru eða þjónustu.“
 
Tækifærin óteljandi í landbúnaðinum
 
Gréta María hefur fulla trú á því að við getum flutt meira út af búvörum og segir að með aukinni vöruþróun geti landbúnaðarvörur náð miklum árangri á markaði, bæði hér heima og erlendis. 
 
„Það er ekki spurning. Fyrst þurfum við auðvitað að anna heimamarkaðnum og gera hlutina á hagkvæman og góðan hátt. Við getum jafnframt nýtt tæknina til að gera framleiðsluna umhverfisvænni. Þar höfum við tækifæri til að vera leiðandi. Svo er fullt af tækifærum fyrir búvörur sem við getum lært af öðrum. Það er að mínu mati hægt að auka verðmæti íslenskra landbúnaðarvara með því að breyta þeim á þá vegu að þær falli betur í kramið hjá viðskiptavinum. Þá er ég að tala um vöruþróun á neytendamarkaði.“
 
Fjölbreyttir styrkjaflokkar
 
Stjórn sjóðsins er þessar vikurnar að þróa starfsemina fram undan, móta reglur og skipuleggja kynningu. Gréta María segir að aðsetur sjóðsins verði í atvinnuvegaráðuneytinu og umsýslunni verði stjórnað þaðan. Það verður hægt að sækja um á netinu en unnið er að lausnum í þeim efnum sem verða kynntar síðar í sumar.
 
„Reglur sjóðsins eru komnar á blað en stjórnin er að klára að móta stefnu og starfsreglur fyrir sjóðinn. Við erum líka að móta styrkjaflokkana sem verða fjölbreyttir, allt frá rannsóknastarfi til markaðssetningar. Það er flokkur sem snýr að háskólum og opinberum aðilum og fyrirtækjum sem stunda langtímarannsóknir. Síðan er flokkur sem rúmar vörur á hugmyndastigi. Maður veit að margir ganga með hugmyndir í maganum og eru alltaf að spá í hvort þær eigi séns á markaði. Þeir aðilar geta fengið styrki til að meta fýsileika hugmynda eða gera viðskiptaáætlanir. Einnig verða styrkir fyrir tilbúnar vörur sem ætlaðir eru m.a. til markaðssetningar. Fjórði flokkurinn á að rúma allt þarna á milli – þar sem hugmyndin er klár en varan er ekki alveg tilbúin. Við erum að miða að því að hugmyndastyrkir séu fyrir mjög ung fyrirtæki og einstaklinga sem geta þá tekið sér launalaust leyfi í nokkra mánuði til að skoða hvort hugmynd sé fýsileg,“ segir Gréta og bætir við að ekki sé gert ráð fyrir að styrkir séu til lengri tíma en eins árs og að verkefnin klárist á 12 mánaða tímaramma. „Markmiðið er að úthluta núna í haust, í september eða október. Við munum opna fyrir umsóknir fljótlega eftir verslunarmannahelgi ef allt gengur vel. Svo vonandi náum við að úthluta aftur næsta vor en það er miðað við að úthluta einu sinni á ári.“
 
Vonast eftir góðum undirtektum
 
Gréta María segir að stjórnin renni blint í sjóinn varðandi umsóknafjölda en vonandi fái Matvælasjóðurinn góðar undirtektir. Umsækjendur eigi ekki að gefast upp þótt þeir fái ekki styrkvilyrði í fyrstu atrennu. 
 
„Ég segi oft við fólk sem er að sækja um svona styrki að það sé ekki heimsendir að fá nei. Þá gefst oft tími til að gera umsóknina betri og reyna aftur. Það gæti orðið gríðarleg ásókn. Oft þegar umsóknir koma í annað eða þriðja skiptið þá eru þær orðnar betri. Þá hefur fólk fengið tíma til að melta þær og móta meira. Það munu allar umsóknir fá umsögn þannig að umsækjendur fá viðeigandi rökstuðning fyrir ákvörðun sjóðsins.“ 
 
Verða einhverjir útundan?
 
Bændur höfðu m.a. áhyggjur af því við niðurlagningu Framleiðnisjóðs að hætt yrði að veita styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar á bújörðum. Gréta segir að þær áhyggjur séu óþarfar en að eðli Matvælasjóðsins sé þó annað en Framleiðnisjóðs. Til að mynda verði hætt að veita náms- og fræðslustyrki og A-úthlutanir Framleiðnisjóðs verði ekki vistaðar innan Matvælasjóðs. A-úthlutanir eru þróunarfjármunir búgreinanna en við endurskoðun rammasamnings landbúnaðarins verður ákveðið hvernig fyrirkomulagið verði í framtíðinni. Líklegast er talið að þeir fjármunir verði færðir inn í ráðuneytið og miðlað þaðan til þróunarverkefna búgreinanna.
 
Sjóðurinn ekki deildaskiptur
 
Í aðdraganda sameiningar kom það m.a. fram í áliti stjórnar Bændasamtakanna, að sjóðurinn yrði deildaskiptur. Menn óttuðust að það myndi halla á landbúnaðinn í samkeppni við sjávarútveginn. Í tilkynningu frá ráðuneytinu við stofnun sjóðsins kom fram að gætt yrði að skiptingu fjármagns til landbúnaðar og sjávarútvegs og að hún yrði með sambærilegum hætti og verið hefur. 
 
Gréta María segir að horfa þurfi á úthlutanir sjóðsins út frá verkefnum en síður út frá því hvort menn séu í sjávarútvegi eða landbúnaði. 
 
„Ég held að báðir aðilar hafi óttast að það myndi halla á sig. Ég tel að þetta sé eitthvað sem við þurfum að komast upp úr og horfa einfaldlega á það hvar mestu tækifærin liggja til verðmætasköpunar. Það þarf að meta verkefnin út frá því og ég hef enga trú á öðru en að það verði til jafns í sjávarútvegi eða landbúnaði. Fólk í báðum þessum greinum verður örugglega með flottar umsóknir. Ég held að þetta verði ekki vandamál.“ 
 
Nú styrkti Framleiðnisjóður margt fleira en matvælaframleiðslu. Mun Matvælasjóður einskorðast við matvæli og tengda framleiðslu?
„Já, til dæmis munum við ekki styrkja ferðaþjónustu á bújörðum. Því verður alveg hætt enda rúmast það ekki innan lagasetningarinnar um sjóðinn. Það er fyrst og fremst verið að horfa til matvælavinnslu og þeirra afurða sem falla til í framleiðslunni, hvernig hægt sé að nýta þær betur.“
 
En nú snýst landbúnaður um fleira en matvælaframleiðslu, t.d. framleiða bændur vörur úr æðardúni, hrossaræktendur þjálfa reiðhesta, loðdýrabændur framleiða skinn og skógarbændur rækta tré og vinna úr þeim ýmsar afurðir. 
„Þessar vörur myndu ekki rúmast inni í Matvælasjóðnum,“ segir Gréta. „Það er ekki nema eitthvað sem tengist matvælunum beint og væri mögulegt til dæmis í ferðaþjónustu. Við viljum auka verðmæti hráefnanna. Til dæmis geta fallið til hráefni í matvælavinnslu sem nýst geta í lyfjaþróun. Það eykur verðmæti afurðarinnar og væri því styrkhæft. Það hefur sýnt sig að það eru alltaf að spretta upp verkefni þar sem verið er að þróa afurðir sem hafa fallið til í framleiðslu hjá öðrum,“ segir Gréta María. 
 
Mun sjóðurinn veita námsmönnum í meistara- og doktorsnámi styrki?
„Nei, það verða ekki eiginlegir námsstyrkir. Háskólar geta sótt um styrki til rannsókna og það tengist oft meistara- eða doktorsnemum. Þeir geta sótt um styrki til grunnrannsókna í Matvælasjóðinn.“
 
Það eru 500 milljónir til úthlutunar á þessu ári. Telur þú að það verði ekki handleggur að koma fjármununum út? 
„Nei, það eru vonbrigði ef við fáum ekki 200 umsóknir. Sjóðurinn er á fjárlögum og þess vegna er bara úthlutað til eins árs í senn. Við getum ekki skuldbundið sjóðinn með tveggja ára styrkjum því við vitum ekki hvað við höfum til umráða á næstu árum. En ég vona svo sannarlega að upphæðin á næsta ári verði sambærileg og á þessu. Það er löggjafans að ákveða í fjárlögum,“ segir Gréta María. Hún á ekki von á að fjármagn sem verði sett inn í Matvælasjóðinn verði minna en sett var í hina tvo sjóðina áður. „Vonandi er hagræðing fólgin í sameiningunni og umsýslukostnaður verður ekki hár.“
 
Fagfólk metur umsóknir
 
Við úrvinnslu umsókna er stefnan að styðjast við fagráð sem leggja mat á gæði umsókna. Þessi fagráð er ekki búið að setja á laggirnar en það er í mótun að sögn Grétu Maríu. „Við munum sækja ráðgjöf til margra aðila þegar kemur að því að meta umsóknirnar, sérstaklega það sem varðar rannsóknir og þróun. Í AVS voru t.d. fagráð innan viðkomandi greina sem leitað var til.“
 
Stjórnin er skipuð til þriggja ára en í henni eru auk Grétu Maríu, Gunnar Þorgeirsson, bóndi í Ártanga og formaður BÍ, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Karl Frímannsson, fræðslustjóri á Akureyri og fyrrverandi aðstoðarmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar.
 
Að lokum hvetur Gréta María fólk til þess að kynna sér starfsemi Matvælasjóðsins sem sé fyrst og fremst ætlað að stuðla að nýsköpun.
 
„Ég hvet alla til að sækja um í Matvælasjóðnum sem telja sig hafa eitthvað fram að færa eða eru með góða hugmynd. Á næstu dögum mun heimasíðan fara í loftið og þar verða upplýsingar um styrkveitingarnar. Þetta er spennandi verkefni og svo mörg tækifæri sem íslenskir matvælaframleiðendur þurfa að grípa,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, formaður stjórnar Matvælasjóðs.
 
 
Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...