Fréttir 14. febrúar 2020

Átak í endurvinnslu smárra raftækja

Vilmundur Hansen

Úrvinnslusjóður og Umhverfis­stofnun hafa sett af stað tilraunaverkefni um söfnun raftækja í verslunum. Söfnunar­kassar hafa verið settir upp í sjö verslunum á landinu, það er í Krónunni í Lindum og Nettó í Búðakór í Kópavogi, Nettó í Grindavík, Bónus og Nettó á Egilsstöðum og Bónus og Krónunni í Vestmannaeyjum.

Raftækjaúrgangur er sá úrgangur sem er að aukast hvað mest á heimsvísu og á Íslandi er áætlað að um 7.200 tonn af raftækjaúrgangi falli til árlega. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar segir að söfnun til endurvinnslu hafi verið slæm og einungis 37% af raftækjum skilaði sér í endurvinnslu árið 2018.

Verðmætir málmar

Raftæki innihalda oft verðmæta málma og sjaldgæf efni sem mikilvægt er að endurvinna og draga þannig úr ofnýtingu á auðlindum jarðar. Þegar vörurnar eru orðnar að úrgangi geta þær verið hættulegar umhverfinu, heilsu manna og dýra vegna spilliefna sem þær innihalda. 

Markmið tilraunaverkefnisins er að auka söfnun til endurvinnslu á raf- og rafeindatækjum, rafhlöðum, ljósaperum og flúrperum með því að færa hana nær almenningi. Kassinn er hannaður til að taka við litlum raftækjum, allt upp í brauð­ristar og miðlungs­stórar fartölvur.

Meðan á verkefninu stendur mun Úrvinnslusjóður miðla upplýsingum um magntölur úrgangsins sem safnast og að verkefninu loknu verða niður­stöður um útkomu verkefnisins teknar saman. Vonast er til þess að verkefnið skili árangri og geti verið fyrirmynd fyrir viðlíka söfnun í framtíðinni.

Þau sem geta ekki nýtt sér söfnunar­kassana eða þurfa að losa sig við stærri raftæki er bent á að skila raftækjum til endurvinnslustöðva.

Erlent